Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2003, fimmtudaginn 10. apríl, var haldinn 371. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu menningarmála og hófst hann kl. 09.00. Viðstaddir voru Stefán Jón Hafstein formaður, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, Ásrún Kristjánsdóttir og Rúnar Freyr Gíslason. Auk þeirra voru viðstödd Áslaug Thorlacius og Kjartan Ólafsson fulltrúar BÍL og Signý Pálsdóttir. Fundargerð ritaði Unnur Birgisdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram umsögn borgarminjavarðar dags. 9. apríl 2003 sem óskað var eftir á fundi menningarmálanefndar þ. 27. mars sl. og varðar erindi sem vísað var til menningarmálanefndar frá skipulags- og byggingarsviði 12. mars. sl. Umsögn borgarminjavarðar fylgdi greinargerð um Þingnes við Elliðavatn og Kjalarnesþing eftir Guðmund Ólafsson. Borgarminjavörður mætti á fundinn og gerði grein fyrir málinu.

- Kl. 09.15 tók Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum.

Nefndin samþykkti svohljóðandi bókun:

Að fenginni umsögn borgarminjavarðar um fornleifar á Þingnesi vísar menningarmálanefnd til þess að forræði rannsókna þar eru á vegum Þjóðminjasafns en lýsir Reykjavíkurborg reiðubúna til viðræðna um framhald þeirra rannsókna sem nú standa. Þar verði tekið tillit til fyrirhugaðrar forgangsröðunar á fornleifarannsóknum á vegum borgarinnar. Hvað varðar Þingnes kemur fram í umsögn borgarminjavarðar að staðurinn hefur mikið gildi til rannsókna.

2. Lagt fram til afgreiðslu erindi forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur dags. 9. apríl 2003 og varðar staðsetningu útilistaverksins “Horfur” e. Steinunni Þórarinsdóttur. Í erindinu er lagt til að listaverkið verði staðsett á nýrri stétt við Vesturgötu, framan við endurbyggðu Geysishúsin. Tillagan var samþykkt.

3. Lögð fram til afgreiðslu svohljóðandi tillaga að samþykkt um sýningarstefnu og sali Listasafns Reykjavíkur:

Í kjölfar umræðu um sýningarstefnu og sali Listasafns Reykjavíkur samþykkir nefndin eftirfarandi: 1) Að stefnt verði að því að ráðgjafahópur verði settur á laggirnar, samanber 15. grein samþykktar um safnið. 2) Að fest sé í sessi sú vinnuregla að gestasýningarstjórum verði boðið að setja upp sýningar við safnið. Nefndin felur formanni að koma með tillögur um útfærslu að höfðu samráði við forstöðumann og menningarmálastjóra, einnig um hugsanlegar samhliða breytingar á samþykkt fyrir Listasafnið. Þá felur nefndin formanni að taka upp viðræður við Orkuveitu Reykjavíkur um not á sýningarsal í nýjum húsakynnum OR fyrir reykvíska myndlistarmenn. Frestað. 4. Lögð fram skýrsla og starfsáætlun Eþos kvartettsins, dags. 7. apríl, en kvartettinn er tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2002 skv. samþ. menningarmálanefndar frá 8. ágúst 2002. Samþykkt að vísa erindinu til umsagnar dómnefndar um tónlistarhóp Reykjavíkur. Jafnframt fóru fram umræður um starfslaun listamanna og var þeim frestað til næsta fundar.

5. Lagður fram til afgreiðslu samningur Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, Leikskóla Reykjavíkur, skrifstofu menningarmála Reykjavíkur og Assitej, um leikhúsmessu 2003 og undirritaður var 4. apríl sl. Samþykkt.

6. Lagt fram til afgreiðslu erindi Dansk-Islandsk Samfund dags. 7. mars sl., þar sem óskað er eftir fjárstuðningi vegna sýningar í Gerðarsafni á íslenskum verkum í einkaeign í Danmörku. Erindinu var hafnað.

7. Lagðar fram til kynningar nýjar reglur um innkaupamál Reykjavíkurborgar, dags. 13. mars 2003.

8. Lögð fram til kynningar tillaga að ráðstefnunni “Rethinking the Interface Between Human Creativity and Technology” sem haldin verður í Reykjavík í mars 2004.

9. Kostun. Reynsla og möguleikar. Frestað.

10. Lagðar fram til afgreiðslu styrkumsóknir frá Atla Heimi Sveinssyni dags. 2. apríl sl. og Barna- og unglingakór Dómkirkjunnar í Reykjavík dags. 18. mars 2003. Samþykkt að vísa báðum umsóknum til styrkjaúthlutunar við gerð fjárhagsáætlunar 2004.

11. Rúnar Freyr Gíslason fulltrúi Sjálfstæðisflokks óskaði eftir yfirliti um menningar- og listastarf í skólum Reykjavíkur. Samþykkt að óska eftir fulltrúum frá Fræðslumiðstöð og Leikskólum Reykjavíkur á fund menningarmálanefndar þ. 22. maí nk. vegna málsins.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga að ályktun vegna áforma um breytingar á Listahátíð í Reykjavík:

Að fenginni kynningu fulltrúa borgarstjóra í stjórn Listahátíðar í Reykjavík á hugmyndum um breytt form hátíðarinnar og endurskoðunar á formi hennar t.d. með því að halda Listahátíð í Reykjavík árlega, leggur nefndin til að erindið verði sent borgarráði til umfjöllunar. Nefndin fagnar áformum um endurskoðun á hátíðinni og hvetur til þess að borgarráð samþykki áform um breytt form Listahátíðar í Reykjavík.

Tillagan var samþykkt.

Fundi slitið kl. 10.35

Stefán Jón Hafstein
Steinunn Birna Ragnarsdóttir Hanna Birna Kristjánsdóttir
Ásrún Kristjánsdóttir Rúnar Freyr Gíslason