Menningar- og ferðamálaráð
MENNINGARMÁLANEFND
Ár 2001, miðvikudaginn 5. desember, var haldinn 341. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru Guðrún Jónsdóttir formaður, Ólafur Þórðarson, Örnólfur Thorsson, Eyþór Arnalds og Júlíus Vífill Ingvarsson. Auk þeirra voru viðstaddir Kjartan Ólafsson og Pjetur Stefánsson fulltrúar BÍL, Anna Torfadóttir, Eiríkur Þorláksson, Elísabet B. Þórisdóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, María Karen Sigurðardóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir og Signý Pálsdóttir. Fundarritari var Unnur Birgisdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram til afgreiðslu tillaga forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur að breyttri gjaldskrá Listasafns Reykjavíkur, í tveimur liðum. a) liður samþykktur með 3 atkvæðum. b) liður samþykktur.
2. Lögð fram til afgreiðslu tillaga að ályktun menningarmála-nefndar um listaverkafalsanir.
Menningarmálanefnd Reykjavíkur átelur þann mikla drátt sem orðið hefur á að lögregluyfirvöld lykju þeirri rannsókn á listaverkum sem óskað var eftir að væru rannsökuð vegna gruns um að um fölsuð verk væri að ræða. Nefndin hvetur eindregið til þess að þessar niðurstöður verði birtar með skilvirkum hætti og að í kjölfar þeirra verði lagðar fram kærur á hendur þeim aðila eða aðilum, sem eru taldir bera ábyrgð á þeim fölsunum sem rannsóknir kunna að sýna fram á að hafi átt sér stað. Nefndin leggur áherslu á að þessi mál verði leidd til lykta eins fljótt og unnt er. Skaðinn sem meintar málverkafalsanir hafa þegar valdið í íslenskum listheimi er orðinn ómetanlegur, og brýn þörf á að endurvekja nauðsynlegt traust í viðskiptum með íslensk listaverk. Það verður aðeins gert með því að ljúka þessum málum hratt og örugglega innan réttarkerfisins, þannig að réttvísin nái fram að ganga.
Greinargerð fylgir tillögunni.
3. Umsóknir um styrki menningarmálanefndar lagðar fram til kynningar. Jafnframt lögð fram tillaga að skipun í faghópa til umsagnar.
4. Borgarminjavörður kynnti áhrif nýrra laga á starf safna Reykjavíkurborgar.
5. Umsögn menningarmálanefndar um stefnumörkun um Viðey og eyjarnar á Sundunum. Frestað.
6. Athugasemd frá BÍL vegna stefnumörkunar um Viðey og eyjarnar á Sundunum. Frestað.
7. Lagt fram erindi Kristínar A. Árnadóttur framkv.stjóra þróunar- og fjölskyldusviðs dags. 29. nóv. sl. varðandi framtíð ÍR-hússins. Lögð fram fram til afgreiðslu svohljóðandi tillaga um staðsetningu og hlutverk ÍR hússins:
Þann 18. ágúst 2000 fór borgarráð þess á leit að menningarmálanefnd, í samráði við Minjavernd, fyndi ÍR húsinu "verðugt hlutverk og staðsetningu til frambúðar, og leiti leiða til fjármögnunar endurgerðar hússins." Nefndin hefur skoðað tillögur um staðsetningu hússins og komist að eftirfarandi niðurstöðu. Lagt er til að húsið verði flutt í Árbæjarsafn og endurbyggt við torgið nyrst á safnsvæðinu. Húsið verði notað sem sýningarhús og stefnt verði að því að nýta það fyrir sýningar um leiki barna, íþróttir og tómstundastarf í borginni. Leitað verði eftir samstarfi við íþróttafélög og ÍTR. Samkvæmt áætlun byggingadeildar borgar-verkfræðings er kostnaður við gerð sökkuls og flutning hússins í Árbæjarsafn kr. 7.705.000. Viðgerð og endurbætur hússins verða unnar á safninu á næstu árum innan fjárveitingar safnsins. Tillagan var samþykkt með 3 atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað: Það er brýnt að hefja sem fyrst viðhald og endurbyggingu ÍR hússins en það liggur nú undir skemmdum. Sjálfstæðismenn fluttu tillögu um það í borgarráði í mars á þessu ári að skoðað yrði að flytja ÍR húsið út í Hljómskálagarðinn og því fundinn þar varanlegur staður. Borgarráð samþykkti svo í maí á þessu ári að settur yrði á laggirnar þriggja manna starfshópur sem ynni að gerð framtíðarskipulags útivistarsvæða. Enn hafa því miður ekki borist tillögur starfshópsins. Við teljum að ÍR húsið sé betur staðsett og nýtist betur í Hljómskálagarðinum heldur en upp á Árbæjarsafni. Það mun færa líf í garðinn og auðga mannlíf í miðborginni. 8. 2. útgáfa starfsáætlunar menningarmála, sem lögð var fram í borgarstjórn 29. nóvember sl., lögð fram til kynningar. Samþykkt var að breyta setningu í drögum að menningar-stefnu er samþykkt voru á fundi menningarmálanefndar 24. október 2001. Í stað setningarinnar "Yfirstjórn allra helstu menningarmála innan borgarkerfisins sé í höndum menningarmálanefndar" komi: "Stefnumótun í menningarmálum á vegum Reykjavíkurborgar sé í höndum menningarmálanefndar."
9. Niðurstöðutölur um áhaldakaup menningarmála á fjárhagsáætlun 2002 lagðar fram til kynningar.
10. Framkvæmdir á safnsvæði Árbæjarsafns. Frestað.
11. Fornleifarannsóknir í Aðalstræti. Frestað.
12. Skipurit fyrir Minjasafn Reykjavíkur. Frestað.
13. Lagt fram yfirlit menningarmálastjóra yfir starfsemi skrifstofu menningarmála. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menningarmálanefnd samþykkir að endurmeta framtíð fyrirkomulags yfirstjórnar menningarmála fyrir áramót. Ljóst er að kostnaður vegna yfirstjórnar menningarmála hefur vaxið jafnt og þétt á síðustu 4 árum eða úr einni milljón 1998 í 12-15 milljónir á yfirstandandi ári. Á sama tíma hafa framlög til menningarstofnana borgarinnar staðið í stað. Brýnt er að fara vel með fé til menningarmála og nýta það sem best er unnt. Ef starfsemi skilar ekki þeim ávinningi sem nefndin sættir sig við ber að leggja skrifstofu menningarmálastjóra tafarlaust niður.
Tillagan var felld með 3 atkvæðum gegn 2.
Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi bókun:
Þegar skrifstofa menningarmála var sett á laggir árið 1999 rættist gamall draumur menningarmálanefndar um styrka stjórnsýslu í menningarmálum. Nefndin lýsir ánægju með reynsluna af starfi skrifstofunnar og þeirra starfsmanna sem þar hafa lagt hönd að verki. Um verkefni og umfang starfseminnar vísar nefndin í yfirlit menningarmálastjóra sem lagt var fram á fundinum. Fyrir þá greinargerð vill nefndin þakka sérstaklega. - Kl. 14.05 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi
14. Lögð fram orðsending frá borgarstjóra dags. 30. nóv. sl. varðandi erindi frá Landssamtökum ITC á Íslandi dags. 23. nóvember sl. vegna opnunartíma Gerðubergs. Forstöðumanni Gerðubergs var falin meðferð málsins.
15. Lagt fram erindi Rithöfundasambands Íslands dags. 29. október 2001 þar sem óskað er eftir samvinnu við Reykjavíkurborg um að merkja með einhverjum hætti fæðingarstað Halldórs Laxness að Laugavegi 32. Menningarmálanefnd sýndi erindinu áhuga og leggur til að Rithöfundasamband Íslands hafi sambandi við Önnu Torfadóttur borgarbókavörð vegna málsins.
16. Lögð fram til kynningar ályktun stjórnar Félags íslenskra safnamanna dags. 12. nóvember 2001 varðandi menningarminjar í Aðalstræti.
Fundi slitið kl. 14.20
Guðrún Jónsdóttir
Ólafur Þórðarson
Örnólfur Thorsson Eyþór Arnalds