Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2001, miðvikudaginn 24. október, hélt menningarmálanefnd sinn 339. fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12.00. Fundinn sátu: Guðrún Jónsdóttir formaður, Anna Geirsdóttir, Ólafur Þórðarson, Örnólfur Thorsson, Eyþór Arnalds og Júlíus Vífill Ingvarsson. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Ólafsson og Pjetur Stefánsson fulltrúar BÍL. Einnig sátu fundinn Anna Margrét Guðjónsdóttir, Signý Pálsdóttir og Unnur Birgisdóttir sem skráði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Menningarstefna. Leiðarljós, markmið og leiðir lagðar fram til samþykktar. Samþykkt. Minnihluti sat hjá og lagði fram svohljóðandi bókun: "Menningarstefna Reykjavíkurborgar er yfirborðskennd, almennt orðuð og ómarkviss. Stefnan er samsett úr fögrum fyrirheitum sem hafa hvorki að geyma leiðsögn né upplýsingar um skilgreind markmið. Svonefnd málaskrá sem fylgir menningarmálastefnu er listi stikkorða sem enginn vegvísir er í. Málaskráin er punktar án stefnu. Hvað þýðir t.d. stikkorðið "Listaháskóli Íslands" í þessu samhengi eða "tímabundin ráðning forstöðumanna menningarstofnana"? Er menningarstefnan fylgjandi eða andvíg þessum punktum? Aðkallandi er að móta stefnu um framtíðarnýtingu Kjarvalsstaða, Gerðubergs og Viðeyjarstofu og heildarstefnumörkun varðandi Árbæjarsafn. Móta þarf stefnu um Minjasafn Orkuveitu Reykjavíkur. Það safn er við túngafl Árbæjarsafns, er í beinni samkeppni við það, en heyrir ekki undir menningarmálanefnd. Ekki er minnst á Minjasafn Orkuveitu Reykjavíkur í menningar-stefnunni. Fyrir tveimur árum skipaði menningarmálanefnd nefnd sem fjalla skyldi um framtíð Korpúlfsstaða og móta stefnu varðandi nýtingu þessara stórmerku mannvirkja. Ekkert hefur verið unnið í því máli og engar hugmyndir er að finna varðandi Korpúlfsstaði í menningarstefnunni. Bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss við Faxaskála er fyrirhugað samstarfsverkefni ríkis og borgar. Það er jafnframt stærsta verkefni á sviði menningarmála sem Reykjavíkurborg hefur lagt í hin síðustu ár. Ekki er minnst á Tónlistarhúsið í menningar-stefnunni að frátöldu athugasemdarlausu stikkorði. Lýsir tómlætið áhugaleysi um verkefnið eða biðstöðu úr því ekki er um það fjallað í menningarstefnunni? Mikilvæg atriði í þessu samhengi eru tengsl menningarstofnana og menningarstarfsemi við atvinnulífið. Fagleg vinnubrögð og skýr markmið geta verulega treyst þau bönd. Menningarstefnan tekur ekki á því hvort og með hvaða hætti auka má sjálfsaflafé menningarstofnananna. Ekki er að finna afstöðu borgarinnar til menningartengdrar ferðamennsku og með hvaða hætti borgin getur stutt við hana. Menningarstefnan skautar yfir málaflokk sem er mikilvægur og á skilið að sýnd sé meiri virðing en þetta."

Meirihluti lagði fram svohljóðandi bókun: "Í tilefni af bókun fulltrúa D-lista í menningarmálanefnd vill meirihluti nefndarinnar taka eftirfarandi fram: Sú "málaskrá" sem meginhluti bókunarinnar fjallar um hefur ekki verið lögð fram til samþykktar og athugasemdir við hana því ótímabærar. Vinna við mótun menningarstefnu hefur staðið undanfarin misseri. Að þeirri vinnu hafa komið, auk nefndarinnar, fjölmargir einstaklingar, embættismenn, fulltrúar samtaka listamanna og ýmissa listastofnana auk listamanna og fræðimanna. Sá texti sem samþykktur var á fundi menningarmálanefndar 24. október 2001, "Leiðarljós Reykjavíkur í menningarmálum" er aðeins einn áfangi. Fulltrúar minnihlutans í menningarmálanefnd hafa tekið fullan þátt í vinnu við mótun menningarstefnu af dugnaði og með frjóum ábendingum og athugasemdum. Meirihluti nefndarinnar væntir þess að framhald verði á því góða samstarfi og þær athugasemdir sem fram koma í bókun minnihlutans komi til efnislegrar umræðu við frágang "málaskrár"."

Minnihluti lagði fram svohljóðandi bókun: "Menningarstefnan er byggð á því að henni fylgi málaskrá og hefur hún verið kynnt þannig til þessa. Það er því undarlegt að taka hana nú undan vegna þess, væntanlega, hversu gölluð hún er. Rétt væri að vinna menningarstefnuna að nýju með nýjum formerkjum og lýsum við okkur reiðubúna sem fyrr til að taka þátt í því."

2. Menningarmálastjóri lagði fram til samþykktar starfsáætlun 2002 með fyrirvara um breytingar sem gerðar yrðu á fundinum á drögum að menningarstefnu og viðbótum sem fram kæmu á fundinum á verkefnaáætlun 2002. Starfsáætlunin var samþykkt með breytingum ásamt fjárhagsáætlun 2002 og 3ja ára áætlun menningarmála.

Lagt fram til kynningar 9 mánaða uppgjör menningarmála. Jafnframt voru lagðar fram óskir menningarstofnana um verkefni sem ekki rúmast innan ramma: a) Samþykkt var að mæla með við borgarráð ósk Árbæjarsafns um viðbótarfjárveitingu vegna fornleifaskráningar á Kjalarnesi sbr. hjál. erindi. b) Ljósmyndsafns Reykjavíkur óskar eftir viðbótarfjárveitingu borgarráðs vegna þriggja verkefna sbr. hjálagt erindi. Menningarmálanefnd mælir með erindinu, en leggur áherslu á þörf fyrir heimildaljósmyndun. c) Þá lagði Borgarbókasafn fram ósk um hækkun á gjaldskrá skírteina úr 800 kr. í 1000 kr. Menningarmálanefnd leggur til við borgarráð að samþykkja erindið.

3. Menningarmálafulltrúi kynnti drög að sameiginlegum kynningum menningarstofnana fyrir árið 2002.

4. Brjóstmynd af Þorsteini Einarssyni fyrrum íþróttafulltrúa ríkisins. Lagt fram erindi áhugahóps (dags. 12. október 2001) um uppsetningu brjóstmyndarinnar og falast eftir samþykki nefndarinnar um staðsetningu hennar í vestari hluta Grasagarðsins í Laugardal. Einnig var lagt fram samþykki forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur dags. 24. september um staðsetningu verksins. Nefndin samþykkti erindið fyrir sitt leyti.

- Kl. 13.45 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.

5. Önnur mál. Pjetur Stefánsson fulltrúi BÍL vakti athygi á myndlistarþingi 26. október nk. og bauð fundarmönnum í móttöku að þingi loknu að Hafnarstræti 16 sem hefur verið endurbyggt og Reykjavíkurborg afhendir SÍM til afnota. Pjetur þakkaði, f.h. SÍM, fulltrúum menningarmálanefndar kærlega fyrir húsið. Signý Pálsdóttir ítrekaði boð vegna opnunar Kringluútibús Borgarbókasafns nk. laugardag.

Fundi slitið kl. 13.50

Guðrún Jónsdóttir
Anna Geirsdóttir Eyþór Arnalds
Örnólfur Thorsson