Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND REYKJAVÍKUR

Ár 2004, mánudaginn 17. maí, var haldinn 391. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu menningarmála og hófst hann kl. 14.00. Viðstaddir voru Stefán Jón Hafstein formaður, Ármann Jakobsson, Ásrún Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Rúnar Freyr Gíslason. Auk þeirra voru viðstödd Jóhann L. Torfason fulltrúi BÍL og Signý Pálsdóttir. Fundargerð ritaði Unnur Birgsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram til afgreiðslu erindi frá Samgöngunefnd Reykjavíkur, dags 6. maí sl., sem sent var til meðferðar menningarmálanefndar og varðar kynningarátak Þjóðminjasafns Íslands. Í erindinu fer Þjóðminjasafnið fram á að fá að reisa minnismerki, sem er 7,5 m hátt sverð, á Melatorgi. Samgöngunefnd samþykkti málið fyrir sitt leyti þ. 4. maí sl. Jafnframt var lögð fram umsögn forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur, dags. 17. maí, þar sem lagt er til að nefndin hafni því að eftirlíking umrædds sverðs verði sett upp á torginu. Nefndin samþykkti að fela menningarmálastjóra að leita umsagnar Sambands íslenskra myndlistarmanna, Arkitektafélags Íslands, Félags íslenskra fræða og hverfisráðs Vesturbæjar við erindinu. Óskað er eftir að umsögn framangreindra liggi fyrir á næsta fundi nefndarinnar þ. 7. júní nk. Nefndin samþykkti einnig að senda samgöngunefnd og skipulags- og bygginganefnd umsögn forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur til upplýsingar. (R04050036).

2. Lögð fram til afgreiðslu svohljóðandi tillaga að breytingu á reglum um starfslaun listamanna og Tónlistarhóp Reykjavíkurborgar. (R04050105)

Menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar samþykkir að fara þess á leit við borgarráð að felldar verði úr gildi reglur um starfslaun listamanna er tóku gildi þ.1. júní 1995 með breytingum þ.13. ágúst 2003 .

Menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar samþykkir einnig að fara þess á leit við borgarráð að felldar verði úr gildi reglur um styrk til starfrækslu tónlistarhóps Reykjavíkurborgar er samþykktar voru í borgarráði 26. maí 1998 með breytingum 13. ágúst 2002.

Svohljóðandi greinargerð fylgdi tillögunni: Starfshópur vinnur nú að endurskoðun styrkjamála, auglýsinga og úthlutunar á vegum Reykjavíkurborgar. Menningarmálanefnd þykir rétt að fresta auglýsingu vegna starfslauna listamanna fyrir árið 2005 og tónlistarhóps, sem kveðið er á um í samþykktum að eigi að vera í maí og júní. Það fé sem ætlað er til þessa renni eigi að síður til styrkhæfra verkefna listamanna samkvæmt nánari ákvörðun þegar stefnumótunarvinnu er lokið.

Samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Sjálfstæðismenn í menningarmálanefnd vilja ekki fella úr gildi reglur um starfslaun listamanna á meðan engar tillögur liggja fyrir um hvers konar reglur taka við. Sjálfstæðismenn taka undir nauðsyn þess að endurskoða þessar reglur og bíða spenntir niðurstaðna starfshóps um endurskoðun þeirra. Þegar þær liggja fyrir, er rétt að taka afstöðu til þess hvort þær skuli teknar upp í stað þeirra sem fyrir eru.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Menningarmálanefnd hefur margoft rætt að æskilegt væri að breyta starfsháttum vegna styrkja og endurskoða m.a. tilhögun starfslauna listamanna. Nú starfar borgarráðsskipaður hópur að heildarendurskoðun styrkja og rétt að bíða niðurstöðu áður en frekari styrkir eru auglýstir, en reglur um starfslaun og tónlistarhóp eru því felldar úr gildi til að ljúka megi heildarendurskoðun þessara mála þegar á þessu ári.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Þótt Sjálfstæðismenn séu afar áhugasamir um endurskoðun reglna um styrkveitingar Reykjavíkurborgar telja þeir afar óábyrgt að þurrka á einu bretti, út allar þær reglur sem til eru um starfslaun listamanna í Reykjavík, án þess að nokkuð liggi fyrir um hvað tekur við. Slíkt er óábyrgt gagnvart listamönnum og skattgreiðendum í borginni.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Meirihluti í menningarmálanefnd hefur fullt sjálfstraust til að ljúka þessu máli í tæka tíð.

3. Lagt fram til kynningar svar Siglingastofnunar, dags. 5. maí sl. v/samgönguáætlunar 2005-2008, kafla um sjóvarnir, sbr. umsögn borgarminjavarðar sem lögð var fram á fundi menningarmálanefndar 22. mars sl. Í svari iglingarstofnunar er lagt til að erindið verði skoðað í samvinnu við Fornleifavernd ríkisins. (R01010079)

4. Lagt fram til kynningar 3ja mán. uppgjör menningarmála fyrir tímabilið 1. janúar - 31. mars 2004.

5. Lögð fram til kynningar auglýsing um opinn fund menningarmálanefndar um fjölmenningu 21. maí nk. sem og auglýsing Borgarbókasafns um opinn fund vegna Seljasafns.

Fundi slitið kl. 15.00

Stefán Jón Hafstein
Ármann Jakobsson Gísli Marteinn Baldursson
Ásrún Kristjánsdóttir Rúnar Freyr Gíslason