Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2002, miðvikudaginn 22. maí, var haldinn 353. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15 og hófst hann kl. 16. Viðstaddir voru Guðrún Jónsdóttir formaður, Anna Geirsdóttir, Guðrún Pétursdóttir og Kristín Blöndal. Auk þeirra voru viðstaddir Kjartan Ólafsson og Valgarður Gunnarsson fulltrúar BÍL, Anna Torfadóttir, Eiríkur Þorláksson, Elísabet B. Þórisdóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Gunnar Björnsson, María Karen Sigurðardóttir, Signý Pálsdóttir og Anna Margrét Guðjónsdóttir. Fundarritari var Unnur Birgisdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram til afgreiðslu tillaga að embættismannaafgreiðslu v. starfssamnings við Leikfélag Íslands en Héraðsdómur úrskurðaði LÍ gjaldþrota þann 30. apríl sl. Menningarmálastjóri óskaði eftir heimild nefndarinnar til að ganga frá málinu í samráði við borgarlögmann. Samþykkt. Kristín Blöndal vék af fundi við meðferð málsins. - Kl. 16.35 tók Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum.

2. Lögð fram að nýju ályktun/tillaga frá Bandalagi sjálfstæðu leikhúsanna v. styrkjaafgreiðslu menningarmálanefndar 2002. Menningarmálastjóra var falið að svara erindinu jákvætt með hliðsjón af sjónarmiðum Bandalagsins.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga, dags. í dag, um framtíð Korpúlfsstaða.

Menningarmálanefnd leggur til að Korpúlfsstaðir verði í framtíðinni nýttir markvisst sem miðstöð menningar, sköpunar og mannræktar um leið og frumgerð mannvirkisins verði varðveitt svo sem kostur er. Hafist verði handa við nánari stefnumörkun og gerð framkvæmdaáætlana fyrir Korpúlfsstaði á þessum grunni. Stefnumörkun og framkvæmdaáætlun liggi fyrir áður en núverandi samningur um Korpuskóla rennur út.

Greinargerð fylgdi tillögunni. Tillagan var samþykkt. 4. Lögð fram til afgreiðslu svohljóðandi tillaga v. erindis Tónskáldafélags Íslands dags. 27. apríl sl. og vísað var til nefndarinnar frá borgarstjóra 14. maí sl.

Menningarmálanefnd leggur til við borgarráð að tryggðar verði fjárveitingar til nýsköpunarsjóðs tónlistar á næstu fjárhagsáætlun. Greinargerð fylgdi tillögunni.

Tillagan var samþykkt.

5. Lögð fram til afgreiðslu svohljóðandi tillaga v. erindis Arkitektafélags Íslands dags. 9. apríl og lagt var fyrir menningarmálanefnd 10. apríl sl.:

Með tilkomu nýs húsnæðis Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi skapast möguleikar á að þróa starfsemi byggingalistardeildarinnar og gera hana sýnilegri í starfsemi safnsins. Deildin sinnir mjög mikilvægu hlutverki í sambandi við varðveislu teikninga, söfnun heimilda og rannsóknir á sviði byggingalistar. Menningarmálanefnd telur mikilvægt að fundnar séu leiðir til þess að fagbókasafn Arkitektafélags Íslands verði áfram varðveitt á vegum byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur eins og verið hefur síðan 1995. Með vaxandi hlutverki Listasafns Reykjavíkur og þar með byggingarlistardeildar í þágu kynningar og miðlunar upplýsinga um byggingalist er það vilji menningarmálanefndar að stefnt verði að því að fyrir hendi verði innan deildarinnar og á einum stað bæði bókakostur og teikningar, sem verði aðgengilegt og sýnilegt almenningi jafnt sem sérfræðingum eftir því sem kostur er. Menningarmálanefnd felur því forstöðumanni Listasafns Reykjavíkur að finna leiðir til að svo megi verða.

Tillagan var samþykkt.

6. Lagðar fram til kynningar tillögur forstöðumanns höfuðborgar-stofu, menningarmálastjóra og menningarfulltrúa dags. 16. maí sl. um menningartengda ferðaþjónustu í Reykjavík. Tillögunum fylgdi greinargerð Minjasafns Reykjavíkur um merkingar söguminja og fornleifa í Reykjavík og á Kjalarnesi.

7. Lögð fram til afgreiðslu svohljóðandi tillaga að listaverkakaupum:

Jóhann Torfason: "Minnihlutadúkkan", 1999 - blönduð tækni á striga, c. 100 x 120 cm Þóroddur Bjarnason: "Takið börnin með", 1998 - innsetning með þríhjólum Ilmur Stefánsdóttir: "Innkaupahanskar", 2001- blönduð tækni Bjargey Ólafsdóttir og Kristján Eldjárn: "Ljúfar sælustundir í París", 2000 - blönduð tækni, litskyggnur og hljóð Særún Stefánsdóttir: "Ljósmynd af búi og Breiðholti", 2000 -- ljósmyndatækni og teikning, c. 140x70 Hörður Ágústsson: "Samlagning I", 1976- límband á spónaplötur, 120x120 cm Tillagan var samþykkt.

Formaður óskaði eftir að bókuð yrðu tilmæli hennar um að keypt verði verk eftir Guðrúnu Einarsdóttur myndlistamann.

8. Lögð fram til staðfestingar áætlun Listasafns Reykjavíkur, dags. í dag, um endurskipulagningu húsrýmis á Kjarvalsstöðum í kjölfar flutninga á skrifstofu Listasafnsins í Hafnarhúsið. Forstöðumaður Listasafnsins gerði grein fyrir málinu. Áætlunin var samþykkt.

9. Lögð fram til afgreiðslu umsókn leikhússins Vesturports um styrk til uppsetningar leikverksins Títus e. Shakespeare. Ekki var hægt að verða við erindinu sbr. reglur um styrkjaafgreiðslu nefndarinnar.

10. Formaður sagði frá fundi borgarráðs þ. 21. maí þar sem samþykktar voru samþykktir fyrir menningarstofnanir Reykjavíkurborgar ásamt tillögu nefndarinnar um listskreytingasjóð frá 16. ágúst 2001.

11. Menningarmálastjóri þakkaði fráfarandi nefnd fyrir góða samvinnu og undir það tóku fundarmenn. 12. Formaður þakkaði nefndinni, menningarmálastjóra, starfsfólki á skrifstofu menningarmála og forstöðumönnum menningarstofnana Reykjavíkur fyrir gott og ánægjulegt samstarf.

Fundi slitið kl. 18

Guðrún Jónsdóttir
Anna Geirsdóttir Guðrún Pétursdóttir
Kristín Blöndal Júlíus Vífill Ingvarsson