Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2002, miðvikudaginn 20. mars, var haldinn 348. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12. Viðstaddir voru Guðrún Jónsdóttir formaður, Anna Geirsdóttir, Eyþór Arnalds og Bryndís Þórðardóttir. Auk þeirra voru viðstaddir Kjartan Ólafsson og Pjetur Stefánsson fulltrúar BÍL, Anna Torfadóttir, Eiríkur Þorláksson, Elísabet B. Þórisdóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, María Karen Sigurðardóttir og Signý Pálsdóttir. Fundarritari var Unnur Birgisdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram erindi dags. 8. mars 2002 frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna. Pjetur Stefánsson gerði grein fyrir erindinu þar sem vakin er athygli menningarmálanefndar á nauðsyn þess að taka tillit til listaverks, sem er hluti gangstéttar, við Hegningarhúsið við Skólavörðustíg við fyrirhugaða endurnýjun gangstéttarinnar. Skrifstofa menningarmála sendi erindið þ. 12. mars s.á. til afgreiðslu gatnamálastjóra. Einnig var erindið sent forstöðumanni Listasafns Reykjavíkur og miðborgarstjóra til kynningar. Forstöðumaður LR gerði grein fyrir málinu f.h. Listasafns Reykjavíkur. Formanni menningarmálanefndar og menningarmálastjóra falið að annast afgreiðslu málsins. - Kl. 12.15 tók Örnólfur Thorsson sæti á fundinum.

2. Forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi tillögu að listaverkakaupum: Guðjón Ketilsson: "Án titils", 1992 tré; c. 70 cm hæð Tillagan var samþykkt

3. Borgarbókavörður svaraði fyrirspurn Eyþórs Arnalds, frá 347. fundi menningarmálanefndar um bókasafn í Árbæjarhverfi. Í svari sínu færði hún rök fyrir ákvörðun um staðarval í Árseli og staðfesti fyrirhugað sambýli bókasafns og unglingastarfs.

4. Formaður svaraði fyrirspurn Eyþórs Arnalds, frá 347. fundi menningarmálanefndar um stöðuna í málefnum Korpúlfsstaða. Ákveðið að vinnuhópur um málefni Korpúlfsstaða, sem í sitja Guðrún Jónsdóttir, Anna Geirsdóttir og Eyþór Arnalds, taki upp þráðinn við mótun stefnu um framtíðarnýtingu hússins.

5. Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu: - Að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 verði ákveðin fjárveiting til kaupa á erlendum listaverkum. - að Listasafn Reykjavíkur móti ákveðna stefnu við innkaup safnins á erlendum listaverkum í samráði við menningarmálanefnd. Tillögunni fylgdi greinargerð. Samþykkt var að útfæra greinargerðina ítarlegar í samræmi við hugmyndir er upp komu á fundinum. Frestað. 6. Lagt fram ódags. erindi frá Tónskáldafélagi Íslands þar sem settar eru fram hugmyndir að nýsköpunarsjóði tónlistar. Kjartan Ólafsson fulltrúi BÍL kynnti erindið. Formaður tók að sér að kanna viðbrögð ráðamanna ríkis og borgar við hugmyndinni fyrir næsta fund.

7. Forstöðumaður Ljósmyndasafns kynnti mat tveggja sérfræðinga á verðgildi myndavélasafns Arnar Friðrikssonar, en menningarmála-nefnd lagði til á fundi sínum þ. 6. des. 2000 að hlutlaus aðili yrði fenginn til meta safnið. Samþykkt að leita þurfi leiða til að Ljósmyndasafnið eignist safnið og forstöðumanni falið að kanna hugsanlega aðkomu styrktaraðila í því sambandi.

8. Lagt fram að nýju samkomulag Listasafns Reykjavíkur og Nesútgáfunnar um útgáfu á heildarriti um líf og list Jóhannesar S. Kjarval. Samkomulagið var samþykkt. Örnólfur Thorsson óskaði bókað:

Mikilvægt er að tryggt sé að aðgangur sé opinn og frjáls að öllum gögnum Listasafns Reykjavíkur um líf og list Jóhannesar Kjarval þrátt fyrir samning þennan og þeir sem þess óska njóti áfram sömu aðstoðar og þjónustu starfsmanna safnsins við rannsóknir á list Kjarvals. 9. Borgarminjavörður lagði fram mat á varðveislugildi húsa á þróunarsvæði miðborgar Reykjavíkur dags. 20. mars 2002, sem óskað var eftir á fundi menningarmálanefndar 20. febrúar sl. Nefndin þakkaði fyrir vel unna skýrslu og samþykkti tillöguna fyrir sitt leyti. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá. 10. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 12. mars 2002 um framtíð Viðeyjar og annarra eyja á Sundunum. Formaður tilkynnti að borgarritari myndi á næstu dögum kalla saman vinnuhóp í kjölfar tillögu borgarráðs sama dag. Borgarminjavörður óskaði eftir að bókuð yrði leiðrétting á tölum um aðsókn Viðeyjar í bókun Sjálfstæðismanna frá sama fundi. Rétt aðsóknartala í Viðey var 21.368 árið 2001 en ekki 12.000 eins og stóð í bókuninni.

Fundi slitið kl. 14.20

Guðrún Jónsdóttir
Anna Geirsdóttir Eyþór Arnalds
Örnólfur Thorsson Bryndís Þórðardóttir