Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2002, miðvikudaginn 23. janúar, var haldinn 344. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12. Viðstaddir voru Guðrún Jónsdóttir formaður, Ólafur Þórðarson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Auk þeirra voru viðstaddir Kjartan Ólafsson og Pjetur Stefánsson fulltrúar BÍL, Anna Torfadóttir, Eiríkur Þorláksson, Elísabet B. Þórisdóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Gunnar Björnsson, María Karen Sigurðardóttir, Signý Pálsdóttir og Anna Margrét Guðjónsdóttir. Fundarritari var Unnur Birgisdóttir.

1. Forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi tillögu að listaverkakaupum: Jóhannes S. Kjarval: "Drangey og hafís", (1901-2?) - blönduð tækni (olía og hugsanlega guass og kol) á pappír, límdur á masonít; 23 x 36 cm Jóhannes S. Kjarval: "Guðmundur Guðmundsson (Erró)", 1948 - olía á pappír, límdan á striga; 50 x 73 cm Erró: "Sjálfsmynd (autoportrait)", 1961 - olía á striga, 82 x 65 cm Tillagan var samþykkt.

- Kl. 12.10 tók Anna Geirsdóttir sæti á fundinum.

2. Jóhannes S. Kjarval frá Borgarskipulagi Reykjavíkur kynnti og gerði grein fyrir tillögum að deiliskipulagi. Samþykkt að vísa tillögunum til umsagnar borgarminjavarðar.

3. Lögð fram svohljóðandi umsögn menningarmálanefndar um niðurstöður stýrihóps um framtíð Viðeyjar og annarra eyja á Sundunum dags. 21. nóvember 2001. Menningarmálanefnd samþykkir tillögur stýrihóps frá 21. nóvember 2001. Þó vill menningarmálanefnd setja fyrirvara við hugmyndir stýrihóps um landtengingu eyjarinnar hvort sem væri með göngubrú eða brú fyrir ökutæki. Í Viðey og eyjunum á Sundunum eru merkir minjastaðir sem ættu að vera hluti af Minjasafni Reykjavíkur þar sem verslunar- og atvinnusögu borgarinnar, þ.á m. landbúnaði, yrðu gerð skil. Þar eru friðaðar fornleifar, sem vitna um litríka sögu eyjanna og draga fram sögu þjóðarinnar í hnotskurn. Þá er einnig vakin athygli á því að Viðey og eyjarnar á Sundunum eru á náttúruminjaskrá. Menningarmálanefnd vill beina því til hlutaðeigandi aðila að eyjarnar verði friðlýstar sem heildstætt menningar- og náttúruminjasvæði bæði skv. Þjóðminjalögum og náttúruverndarlögum. Nefndin leggur til að strax verði hafist handa við að koma eyjunum á yfirlitsskrá um íslenskar minjar með alþjóðlegt gildi (tentativ list). Íslendingar eru aðilar að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um varðveislu menningarverðmæta og árið 2002 verður helgað því málefni í aðildarlöndum UNESCO. Um þessar mundir er unnið að því að staðir á Íslandi verði samþykktir á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Mun það hafa mikla þýðingu fyrir ferðamannaiðnað á Íslandi enda undirstaða menningartengdrar ferðaþjónustu í heiminum. Viðey og eyjarnar á Sundunum gætu orðið merkt framlag borgarinnar í því samhengi, verði þess gætt að breyta ekki eðli eða raska náttúru þeirra. Brú út í Viðey gæti skekkt þá heildarmynd sem nú er varðveitt þar ósnortin og gefur minjum aukið gildi og stuðlar að verndun þeirra. Einstakt er að eiga heildstætt menningarlandslag varðveitt í miðri höfuðborg, minjagarð sem endurspeglar sögu borgarinnar og þjóðarinnar með sterkri tilvísun til hinna merku landnáms- og bæjarminja við Aðalstræti í miðborginni.

Samþykkt með 3 atkv.

4. Menningarmálastjóri kynnti samning milli Reykjavíkurborgar og Vesturfarasetursins á Hofsósi sem undirritaður var 15. janúar sl. Hún greindi einnig frá því að verkefnisstjórn Menningarnætur hefur samþykkt um að bjóða sveitarfélaginu Skagafirði að vera gestir á næstu menningarnótt 17. ágúst.

- Kl. 13 vék Pjetur Stefánsson, fulltrúi BÍL, af fundi.

5. Lagðar fram tillögur vegna styrkja menningarmálanefndar. Forsvarsmenn faghópa gerðu grein fyrir tillögum sínum. Í lok fundar dreifði forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur blaði með upplýsingum um sýninguna "Erró og listasagan" sem opnuð var í Hafnarhúsi um síðustu helgi.

Fundi slitið kl. 13.55

Guðrún Jónsdóttir
Anna Geirsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson
Ólafur Þórðarson