Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2001, miðvikudaginn 15. ágúst, hélt menningarmálanefnd sinn 334. fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12.00. Fundinn sátu: Guðrún Jónsdóttir formaður, Ásrún Kristjánsdóttir, Eyþór Arnalds og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Ólafsson og Pjetur Stefánsson fulltrúar B.Í.L. Einnig sátu fundinn Anna Torfadóttir, Eiríkur Þorláksson, Elísabet B. Þórisdóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, María Karen Sigurðardóttir, Svanhildur Bogadóttir, Signý Pálsdóttir og Unnur Birgisdóttir sem skráði fundargerð. Gestur fundarins var Anna María Bogadóttir.

Þetta gerðist:

1. Anna María Bogadóttir framkvæmdastjóri Menningarnætur 2001 kynnti Menningarnótt sem haldin verður í miðborginni í 6. sinn þann. 18. ágúst nk.

- Kl. 12:20 mætti Kristín Blöndal á fundinn. - Kl. 12:30 vék Anna María Bogadóttir af fundi.

2. Formaður lagði fram tillögu að athugasemd við drög að Aðalskipu-lagi Reykjavíkur 2001-2024, þar sem lagt er til við skipulags- og umferðarnefnd að húsverndar- og fornleifaþátturinn verði tekinn inn í þær tillögur að aðalskipulagi sem nú eru í vinnslu. Jafnframt óskar nefndin eftir því að svigrúm verði skapað fyrir ákveðna samvinnu nefndanna um útfærslu á þessum þætti áður en gengið verður frá skipulagstillögunni. Athugasemd þessi var samþykkt. Jafnframt gerði borgarminjavörður grein fyrir athugasemdum sínum við AR 2001-2024 varðandi verndun fornleifa og húsa.

3. Formaður lagði fram til afgreiðslu tillögu til borgarráðs um að stofnaður verði Listskreytingarsjóður Reykjavíkurborgar. Tillagan var svohljóðandi: "Menningarmálanefnd leggur til við borgarráð að settur verður á fót Listskreytingarsjóður Reykjavíkurborgar. Hlutverk sjóðsins verði að annast fjármögnun listskreytinga í tengslum við hönnun nýbygginga (viðbygginga, endurbygginga) sem Reykjavíkurborg stendur að. Fjármagn til sjóðsins fengist með því að 1% þess fjár sem varið er til nýbygginga (viðbygginga, endurbygginga) á vegum Reykjavíkurborgar renni til sjóðsins. Sjóðurinn verði bundinn liður í rekstrarramma menningarmála. Hljóti tillagan hljómgrunn borgarráðs er lagt til að skipaður verði starfshópur til að útfæra hana nánar." Greinargerð fylgdi tillögunni. Tillagan var samþykkt.

4. Brjóstmynd af Þorsteini Einarssyni, fyrrum íþróttafulltrúa ríkisins, í Laugardal, sbr. afrit af erindum til borgarstjóra og borgarstjórnar, er vísað var til umsagnar nefndarinnar og lögð fyrir hana á 332. fundi. Forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur sagði frá viðræðum sínum við hlutaðeigandi aðila um staðsetningu og annað fyrirkomulag. Ekki verður unnt að leggja fram formlega tillögu fyrr en verkið hefur verið unnið.

5. Listaverkakaup. Forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi tillögu að listaverkakaupum: Jóhannes Kjarval: "Frá Þingvöllum", 1939/40 - olía á striga Gretar Reynisson: "1999" - 12 mánaðarplattar: grafít á krossvið, 31x31 cm hver; 12 kaffibækur: 365 kaffiför (í tréskáp) Róska: "Gljátík", 1993 - blönduð tækni á pappír 30x42 cm Tillagan var samþykkt.

6. Menningarmálastjóri kynnti að hún hafi veitt borgarskjalaverði námsleyfi frá 20. ágúst nk. er dreifist á 10 mánuði, þ.e. borgarskjalavörður mun sinna 20 % starfsins að utan og í heimkomum, en hinum 80% verði Gunnari Björnssyni, skrifstofustjóra falið að sinna í samráði við hana. Fyrirhugað er MBA nám í stjórnun við háskóla í Haag. Samráð var haft við forstöðumann Kjaraþróunardeildar og framkvæmdastjóra Þróunar- og fjölskyldusviðs við veitingu námsleyfisins. Formaður óskaði, f.h. nefndarinnar, borgarskjalaverði velfarnaðar í námsleyfinu.

7. Borgarminjavörður lagði fram ný safnalög sem samþykkt voru á Alþingi 31. maí sl. og menningarmálanefnd veitti umsögn um á 323. fundi. Menningarmálastjóra og borgarminjaverði var falið að skoða hvaða breytingar þessi lög hafa á starfsumhverfi safna Reykjavíkurborgar og leggja fyrir fund síðar.

8. Eiríkur kynnti gjöf, sem Gerard Bosio, forseti stjórnarnefndar menningarmála í Alpes-Maritimes héraði í Suður-Frakklandi, afhenti Listasafni Reykjavíkur í tilefni opnunar Erró-safnsins. Gjöfin samanstendur af fjórum listaverkum eftir heimsþekkta listamenn; Roy Lichtenstein, Mimmo Rotella, Robert Combas og Erró.

- Kl. 13.25 véku Anna Torfadóttir, Eiríkur Þorláksson, Elísabet b. Þórisdóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, María Karen Sigurðardóttir og Svanhildur Bogadóttir af fundi.

9. Starfslaun listamanna 2001 voru til endanlegrar umfjöllunar. Samtals voru 52 mánaðarlaun til úthlutunar og var það sammála álit nefndarinnar að þau skiptust milli 15 listamanna þannig: Magnús Pálsson, myndlistarmaður 9 mánuðir Sigrún Ó. Einarsdóttir, glerlistamaður 3 mánuðir Bjarni H. Þórarinsson, myndlistarmaður 3 mánuðir Bryndís Jónsdóttir, myndlistarmaður 3 mánuðir Ilmur María Stefánsdóttir, myndlistarmaður 3 mánuðir Jón Bergmann Kjartansson Ransu myndl.maður 2 mánuðir Inga Björk Dagfinnsdóttir, arkitekt 2 mánuðir Hróðmar I. Sigurbjörnsson, tónskáld 6 mánuðir Þorgerður Ingólfsdóttir, kórstjóri 3 mánuðir Jóel Pálsson, saxófónleikari og tónskáld 3 mánuðir Guðni Franzson, tónlistarmaður 3 mánuðir Skúli Halldórsson, tónskáld 3 mánuðir Pétur Jónasson, tónlistarmaður 3 mánuðir Inga Bjarnason, leikstjóri 3 mánuðir Vala Þórsdóttir, leikskáld 3 mánuðir

- Kl. 13:30 vék Eyþór Arnalds af fundi.

Fundi slitið kl. 14

Guðrún Jónsdóttir
Ásrún Kristjánsdóttir
Kristín Blöndal Guðrún Pétursdóttir