Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2001, miðvikudaginn 2. maí, hélt menningarmálanefnd sinn 329. fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13:30. Fundinn sátu: Guðrún Jónsdóttir formaður, Anna Geirsdóttir, Baltasar Kormákur Baltasarsson, Guðrún Pétursdóttir, Anna Torfadóttir, Eiríkur Þorláksson, Elísabet Þórisdóttir, María Karen Sigurðardóttir, Valgerður Bergsdóttir, Signý Pálsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir og Unnur Birgisdóttir sem skráði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Anna Geirsdóttir, formaður dómnefndar um tónlistarhóp Reykjavíkurborgar, kynnti samhljóða niðurstöðu dómnefndarinnar sem lagði til að styrkveiting til Guitar Islancio sem tónlistarhóps Reykjavíkurborgar verði framlengd um eitt ár sbr. heimild í reglum um starfsrækslu tónlistarhóps hjá Reykjavíkurborg.

2. Menningarmálastjóri lagði fram til kynningar 3ja mánaða uppgjör menningarmála.

3. Lagt fram erindi Auðar Haralds um fjárstyrk vegna listahátíðar skipaðri skoskum listamönnum. Samþykkt að vísa erindinu til umsókna um styrki fyrir næsta ár.

4. Lögð fram umsókn Pjeturs Stefánssonar um styrk v. framleiðslu á heimildarmynd. Samþykkt að vísa erindinu til umsókna um styrki fyrir næsta ár.

5. Lögð fram til samþykktar tillaga um skipun fulltrúa menningarmálanefndar í dómnefnd um Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2002. Meirihluti nefndarinnar lagði til að Árni Sigurjónsson bókmenntafræðingur yrði skipaður fulltrúi nefndarinnar. Tillagan var samþykkt samhljóða.

6. Borgarbókavörður kynnti nýtt landskerfi bókasafna. Borgarráð samþykkti aukafjárveitingu að upphæð kr. 19.913.000 til Borgarbókasafns og Fræðslumiðstöðvar vegna verkefnisins. Einnig kynnti borgarbókavörður niðurstöðu vinnuhóps um staðsetningu útibús í Árbæ sem var að Ársel væri besti kostur fyrir væntanlegt bókasafnsútibú í Árbæ. Svohljóðandi bókun var samþykkt samhljóða: "Menningarmálanefnd fagnar þeirri vinnu sem nú þegar hefur verið unnin varðandi hugmyndir um útibú Borgarbókasafns í Árbæ og lýsir áhuga sínum á því að fylgjast áfram sem best með gangi mála. Nefndin fagnar því að fullt samráð hefur verið haft við ÍTR. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að samráð verði haft við forsvarsmenn Ársels um þann valkost sem undirbúningsnefndin hefur sett fram." Örnólfur Thorsson spurði borgarbókavörð um framgang framkvæmda vegna fyrirhugaðrar opnunar Borgarbókasafns í Kringlunni. Hann lýsti áhyggjum af því að ekki yrði unnt að opna samtímis nýjan leiksal sem LR vinnur að því að innrétta, aukið anddyri Borgarleikhúss, nýjan inngang gegnum svonefndan Hjörleifshöfða og hið nýja Borgarbókasafn í septembermánuði á þessu ári. Borgarbókavörður sagði að unnið væri af kappi að undirbúningi en hún tók undir þessi áhyggjuorð og sagðist ekki sjá nú hvernig unnt ætti að reynast að ljúka flutningum fyrir 1. september.

- Kl. 14.10 vék Anna Torfadóttir af fundi. - Kl. 14.25 vék Valgerður Bergsdóttir af fundi.

7. Lögð fram til samþykktar umsögn menningarmálanefndar um flutning gamalla húsa í Hljómskálagarð, sbr. bréf Gunnars Eydal dags. 4. apríl þar sem óskað er eftir afstöðu og umsögn nefndarinnar.

Meirihluti nefndarinnar lagði fram eftirfarandi umsögn: "Menningarmálanefnd tekur undir þau sjónarmið Umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 8. febrúar sl. að stofnaður verði starfshópur sem vinni að heildstæðri stefnumörkun um framtíðarnýtingu og skipulag útivistasvæða borgarinnar. Mikilvægt er að meta hugmyndir um flutning gamalla húsa í Hljómskálagarðinn, og aðrar sem líklegar eru til að gæða garðinn auknu lífi, í samhengi við slíka heildarstefnu. Í vinnu starfshópsins þyrfti jafnframt að felast mat á tengslum garðsins við sitt nánasta umhverfi: Vatnsmýrina, háskólasvæðið og Kvosina. Hljómskálagarðurinn gegnir lykilhlutverki sem brú milli þessara svæða og þarf því að skoðast í samhengi við framtíðarþróun og skipulagsvinnu fyrrgreindra svæða."

Umsögnin var samþykkt með meirihluta nefndarinnar en fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir svohljóðandi bókun: "Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að sérstaða Hljómskálagarðsins sé slík að undirbúningur þess að gæða garðinn auknu lífi þurfi ekki að bíða eftir heildstæðri stefnumörkun um nýtingu og skipulag útivistarsvæða borgarinnar. Lagt er til að fýsileiki þess að flytja gömul hús í Hljómskálagarðinn verði heldur kannaður sem fyrst."

8. Lagt fram erindi Leikbrúðulands þar sem falast er eftir húsnæði undir "brúðuleikhúsmiðstöð". Nefndin álítur hugmyndina um brúðuleikhúsmiðstöð allrar athygli verða og var menningarmála-stjóra falið að kanna húsnæðismöguleika undir slíka starfsemi.

9. Ráðning forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur. Svohljóðandi bókun var samþykkt samhljóða: "Menningarmálanefnd leggur til við borgarráð að Eiríkur Þorláksson verði endurráðinn í starf forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur (áður Kjarvalsstaða) til fjögurra ára frá 1. júlí 2001."

Greinargerð fylgdi bókuninni.

Fundi slitið kl. 15.30

Guðrún Jónsdóttir
Anna Geirsdóttir Örnólfur Thorsson
Guðrún Pétursdóttir Baltasar Kormákur