Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Árið 2001, miðvikudaginn 7. febrúar, hélt menningarmálanefnd sinn 323. fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12.00. Fundinn sátu Guðrún Jónsdóttir formaður, Anna Geirsdóttir, Örnólfur Thorsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Guðrún Pétursdóttir. Jafnframt sátu fundinn Anna Torfadóttir, Eiríkur Þorláksson, Elísabet B. Þórisdóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Svanhildur Bogadóttir, Tryggvi Baldvinsson, Valgerður Bergsdóttir, Signý Pálsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir og Unnur Birgisdóttir sem ritaði fundargerð.

1. Nefndarmenn skoðuðu glæsilegan bókabíl sem Borgarbókasafn hefur nýlega fest kaup á.

2. Lögð fram til umsagnar að beiðni borgarráðs dags. 25. janúar 2001, tillaga Sjálfstæðisflokks um flutning gamalla húsa í Hljómskálagarð. Tillögunni var vísað til borgarminjavarðar til umsagnar.

- Kl. 12.25 tók Anna Geirsdóttir sæti á fundinum.

- Kl. 12.30 tók Elísabet B. Þórisdóttir sæti á fundinum.

3. Lögð fram til umsagnar að nýju frumvarp til nýrra Þjóðminjalaga ásamt umsögn borgarlögmanns, dags. 2. janúar 2001. Samþykkt var svohljóðandi umsögn um frumvarpið:

"Menningarmálanefnd tekur í meginatriðum undir umsagnir borgarlögmanns til borgarráðs frá 29. des. 2000 um frumvörp til safnalaga, þjóðminjalaga og frumvarp til laga um húsafriðun. Þá tekur nefndin einnig undir umsögn borgarminjavarðar til menningarmálanefndar frá jan. 2001 (fylgiskj.).

Nefndin vekur athygli á að með frumvarpi til nýrra þjóðminjalaga er verið að leggja til grundvallarbreytingu á minjavörslunni í Reykjavík. Skv. núgildandi þjóðminjalögum fer borgarminjavörður með minjavörslu í Reykjavík. Þetta ákvæði er hins vegar fellt niður í frumvarpinu. Þessari breytingu andmælir nefndin sérstaklega. Borgarminjavörður annast minjavörslu í Reykjavík sbr. Þjóðminjalög nr. 88/1989. Í Reykjavík hefur verið unnið mjög ötullega að því að skrá fornleifar og hús. Árbæjarsafn hefur staðið og stendur fyrir viðamiklum fornleifarannsóknum í Viðey og Aðalstræti og hefur sinnt framkvæmdaeftirliti innan borgarmarkanna. Í safninu er orðin til mikil þekking og reynsla af minjavörslu og stór gagna- og heimildasöfn: skrá yfir hús í Reykjavík byggð fyrir 1945 og Fornleifaskrá Reykjavíkur.

Það hljóta að vakna spurningar um hvort hægt sé að gera svo viðamiklar breytingar á minjavörslu í Reykjavík án viðræðna við Reykjavíkurborg. Breytingin snertir þá grundvallarspurningu hvort öll minjavarsla í landinu eigi að vera á vegum ríkisins og stofnana þess en sveitarfélög hafi þar ekki neinu hlutverki að gegna eða hvort ekki sé eðlilegra að minjavarslan verði falin sveitarfélögunum. Á undanförnum árum hafa sveitarfélögin víða um land einatt haft frumkvæði að verkefnum á sviði minjavörslu. Má þar nefna fornleifaskráningu, húsakannanir og verkefni á sviði menningartengdrar ferðamennsku. Þess konar verkefni standa heimamönnum næst og á byggðasöfnum er orðin til reynsla og þekking sem nauðsynlegt er að nýta. Þá er einnig margt óljóst varðandi skyldur og fjárhagslega ábyrgð t.d. hvað snertir fornleifaskráningu.

Sú skipan sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu virðist í nokkurri andstöðu við þá stefnu að fela sveitarfélögum í auknum mæli verkefni sem hafa verið á sviði ríkisins. Má í því sambandi benda á aðra málaflokka eins og skipulags- og fræðslumál. Minjavarsla og starfsemi safna er nátengd þeim málaflokkum. Nefndin telur óhjákvæmilegt að fram fari viðræður milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um þessi frumvörp áður en lengra er haldið."

4. Lögð fram til kynningar tillaga að verklagsreglum um húsafriðun og húsakannanir. Frestað.

5. Lagðar fram umsagnir vinnuhópa vegna styrkveitinga menningarmálanefndar 2001. Vinnuhópar lögðu fram greinargerðir með tillögum um styrki. Afgreiðslu frestað.

- Kl. 13.30 vék Signý Pálsdóttir af fundi á meðan nefndin fjallaði um styrki til myndlistar. - Kl. 13.40 tók Signý Pálsdóttir aftur sæti á fundinum.

Menningarmálastjóra falið að kanna möguleika á því hvernig standa mætti að gerð starfssamninga við nokkra umsóknaraðila.

- Kl. 13.10 vék Svanhildur Bogadóttir af fundi.

- Kl. 13.15 vék Tryggvi M. Baldvinsson af fundi.

6. Lagðar fram umsóknir Árnesingakórsins í Reykjavík, Ólafs Sveinssonar og Þorláks Morthens/Tolla um fjárstuðning sem vísað var til nefndarinnar á fundi borgarráðs 30. janúar 2001. Umsóknum Árnesingakórsins í Reykjavík og Tolla var vísað til umsagnar fagaðila fyrir næsta fund. Menningarmálastjóra var falið að beina erindi Ólafs Sveinssonar aftur til borgarráðs með umsögn.

7. Lögð fram til kynningar umsögn garðyrkjustjóra um erindi menningarmálanefndar varðandi endurmat á náttúrufari Viðeyjar og annarra eyja á Kollafirði.

8. Lögð fram til samþykktar tillaga að staðsetningu á útilistaverkunum; Geirfugl, höf. Ólöf Nordal, Á frívaktinni höf. Finna Birna Steinsson, Flæðisker, höf. Borghildur Óskarsdóttir, Sólstólar, höf. Helga Guðrún Helgadóttir, Sleðinn, höf. Örn Þorsteinsson. Verkin munu standa til frambúðar á þeim stöðum sem þau voru sett upp á vegna sýningarinnar Strandlengjan. Tillagan var samþykkt.

9. Lögð fram til kynningar yfirlýsing frá félagsfundi Bandalags sjálfstæðra leikhúsa 3. febúar 2001.

10. Lögð fram að nýju til umsagnar tillaga borgarstjóra um starfssamning við sjálfstæð leikhús. Nefndin samþykkti svohljóðandi umsögn: "Menningarmálanefnd fagnar tillögu borgarstjóra um aukið framlag til sjálfstæðu leikhúsanna og sviðslistahópa. Menningarmálanefnd leggur þó til við borgarráð að framlag borgarinnar vegna starfssamninga verði 9 mkr. á árinu 2001, 12 mkr. á árinu 2001 og 18 mkr. á árinu 2003. Þá telur nefndin brýnt að tryggja sem best fyrirkomulag til framtíðar á stuðningi við sjálfstæðu leikhúsin og sviðslistahópa og samþykkir því að það fyrirkomulag sem nú hefur verið ákveðið verði skoðað með slíkt að markmiði árið 2003. Þá mælir nefndin með því við borgarráð að fjöldi starfssamninga verði ekki skilyrtur."

11. Rædd munnleg fyrirspurn gatnamálastjóra vegna framkvæmda í Austurstræti. Frestað.

- Kl. 14:15 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.

12. Lagt fram svarbréf menningarmálastjóra vegna áskorunar til stjórnenda Reykjavíkurborgar frá núverandi og fráfarandi formanni Félags íslenskra listdansara. Frestað.

13. Lögð fram umsókn um styrk frá Suzukideild Tónskóla Sigursveins. Menningarmálastjóra var falið að vísa umsókninni til borgarráðs með umsögn.

14. Lögð fram til kynningar skýrsla Magnúsar Pálssonar vegna styrkjar árið 2000.

15. Lögð fram til kynningar skýrsla Caput hópsins vegna styrkjar árið 2000.

Fundi slitið kl. 14.25

Guðrún Jónsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Anna Geirsdóttir
Guðrún Pétursdóttir Örnólfur Thorsson