Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Árið 2001, miðvikudaginn 24. janúar, hélt menningarmálanefnd sinn 322. fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12:00. Fundinn sátu Guðrún Jónsdóttir formaður, Anna Geirsdóttir, Örnólfur Thorsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Eyþór Arnalds. Jafnframt sátu fundinn Eiríkur Þorláksson, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, María Karen Sigurðardóttir, Anna Torfadóttir, Svanhildur Bogadóttir, Þórir Stephensen, Tryggvi Baldvinsson, Þór Vigfússon, Signý Pálsdóttir og Anna Margrét Guðjónsdóttir, sem ritaði fundargerð.

1. Listaverkakaup. Eiríkur Þorláksson lagði fram svohljóðandi tillögu að listaverkakaupum: Finnbogi Pétursson: "Áttir", 1994 - innsetningarverk, Hallgrímur Helgason: "Frí ´00", 2000 - stafrænt prent á striga, 170 x 327 cm Tillagan var samþykkt.

2. Lagður fram til kynningar samningur Listasafns Reykjavíkur og Íslandssíma hf.

3. Lagt fram til umsagnar erindi Guðborgar Kristjánsdóttur og Bjarna Marteinssonar, dags. 10.10.2000, þar sem farið er fram á stuðning við uppsetningu á minnismerki um Kristján Sveinsson augnlækni að Pósthússtræti 17 (Skólabrú 1). Erindinu vísað til forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur.

4. Guðný Gerður Gunnarsdóttir kynnti tillögur að verklagsreglum um húsafriðun og húsakannanir. Frestað.

5. Ný þjóðminjalög. Frestað.

6. Lögð fram tillaga borgarstjóra um starfssamning við sjálfstæð leikhús. Formaður menningarmálanefndar lagði fram svohljóðandi bókunartillögu: "Menningarmálanefnd fagnar tillögu borgarstjóra um aukið framlag til sjálfstæðu leikhúsanna og sviðslistahópa. Framlag þessara aðila til menningarlífsins í Reykjavík hefur farið vaxandi eins og sést best á því að þeir settu upp 25 ný íslensk leikrit á árinu 2000.

Menningarmálanefnd leggur þó til við borgarráð að framlag borgarinnar vegna starfssamninga verði 9 mkr. á árinu 2001, 12 mkr. á árinu 2002 og 18 mkr. á árinu 2003. Þá telur nefndin brýnt að tryggja sem best fyrirkomulag til framtíðar á stuðningi við sjálfstæðu leikhúsin og sviðslistahópa og samþykkir því að það fyrirkomulag sem nú hefur verið ákveðið verði skoðað með slíkt að markmiði árið 2003". Tillögunni var frestað til næsta fundar.

- Kl. 12:50 vék Örnólfur Thorsson af fundi.

7. Lagt fram erindi Björgvins Richard Andersen, f.h. minningarsjóðs Björgvins Guðmundssonar, dags. 14. jan.2001. Vísað til árlegrar styrkjaúthlutunar menningarmálanefndar.

8. Lögð fram til kynningar skýrsla Snorra Sigfúsar Birgissonar dags. 15. jan. 2001.

9. Lögð fram áskorun til stjórnenda Reykjavíkurborgar frá Félagi ísl. listdansara dags. 16. jan. 2001. Menningarmálastjóra falið að gera tillögu að svarbréfi fyrir næsta fund.

10. Lagt fram til kynningar samkomulag borgarstjóra og menntamálaráðherra um menningarborgarsjóð. Nefndin lagði fram eftirfarandi bókun: "Menningarmálanefnd fagnar samkomulagi borgarstjórans í Reykjavík og menntamálaráðherra um menningarborgarsjóð er stuðli að menningarstarfi í framhaldi af menningarborgarárinu. Menningarmálanefnd leggur til að a.m.k. annar fulltrúi þeirra er skipaður verður af borgarstjóra verði tilnefndur af menningarmálanefnd".

- Kl. 13:20 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.

11. Lögð fram orðsending skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 11. jan. 2001 vegna landlistarsýningar við Rauðavatn.

12. Lagt fram til kynningar bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 3. jan. 2001 ásamt minnisblaði hverfisnefndar Grafarvogs frá 20. des. 2000 og minnisatriði frá skrifstofustjóra borgarstjórnar frá fundi hverfisnefndar 2. febrúar 1999. Jafnframt fylgir bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, til hverfisnefndar til kynningar.

- Kl. 13:20 tók Elísabet B. Þórisdóttir sæti á fundinum.

13. Önnur mál. Guðný Gerður Gunnarsdóttir greindi frá samningi Árbæjarsafns og Fornleifastofnunar Íslands vegna uppgröfts í Aðalstræti sem undirritaður verður síðar í vikunni. Byrjað er að grafa og ýmislegt áhugavert komið í ljós og verkið fer vel af stað. Þórir Stephensen kvaddi sér hljóðs og þakkaði fræðandi og upplýsandi samstarf í 13 ár. Formaður nefndarinnar þakkaði Þóri gott samstarf. Þórunn Sigurðardóttir tók sæti á fundinum kl. 13:30 og greindi frá samkomulagi menntamálaráðherra og borgarstjóra um menningarborgarsjóð.

- Kl. 13:50 vék Eyþór Arnalds af fundi.

Fundi slitið kl. 14:00

Guðrún Jónsdóttir

Anna Geirsdóttir