Menningar- og ferðamálaráð
MENNINGARMÁLANEFND
Árið 2000, miðvikudaginn 1. nóvember hélt menningarmálanefnd sinn 315. fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12.00. Fundinn sátu Guðrún Jónsdóttir formaður, Anna Geirsdóttir, Kristín Blöndal, Júlíus Vífill Ingvarsson og Eyþór Arnalds. Jafnframt sátu fundinn Valgerður Bergsdóttir fulltrúi B.Í.L., Tryggvi M. Baldvinsson fulltrúi B.Í.L. og Signý Pálsdóttir, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Í stað fyrri tillögu sem lögð var fram 25. október lagði formaður fram nýja tillögu og var hún svohljóðandi í þremur liðum:
1) Menningarmálanefnd Reykjavíkur leggur til að starf staðarhaldara í Viðey verði lagt niður frá 31. jan. 2001 er núverandi staðarhaldari lætur af störfum.
2) Í þess stað leggur menningarmálanefnd til að umsjón með eynni, mannvirkjum þar og rekstri af hálfu menningarmálanefndar verði falin borgarminjaverði.
3) Menningarmálanefnd mun í fjárhagsramma til menningarmálastjóra gera ráð fyrir starfsmanni á skrifstofu hans sem m.a. sinni kynningu á menningarstarfi Reykjavíkurborgar og framkvæmd á stefnumótun menningarmálanefndar hvað varðar menningartengda ferðamennsku, þ.á.m. um Sundin, eyjarnar þrjár og Kjalarnes. Til þessa verður nýtt fé sem verið hefur á launalið Viðeyjar.
Greinargerð fylgdi bókuninni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Embætti staðarhaldara í Viðey var stofnað 1. maí 1988. Því embætti var frá upphafi ætlað nokkuð annað hlutverk en forstöðumönnum menningarstofnana Reykjavíkurborgar. Viðey er einn merkasti og helgasti staður á Íslandi. Staðarhaldari verður því að vera þess megnugur að viðhalda þeirri virðingu sem staðnum hæfir. Vandfundinn verður sá einstaklingur sem sinnt getur þessu starfi af jafn miklum glæsibrag og um leið djúpri tilfinningu fyrir sögu staðarins og Þórir Stephensen hefur gert. Það hefur sýnt sig, með tilliti til sögu Viðeyjar, að það er mikill kostur að staðarhaldari er prestur. Ekki er þó með því verið að segja að setja eigi það sem nauðsynlegt starfsskilyrði að staðarhaldari sé prestvígður. Nái tillaga meirihluta menningarmálanefndar fram að ganga mun starf staðarhaldara í Viðey verða lagt niður. Stöðugildi staðarhaldara verður notað til að ráða aðstoðarmann menningarmálastjóra og borgarminjaverði falið að hafa umsjón með eynni og mannvirkjum hennar. Þessi skipan mála er undarleg moðsuða sem ruglar saman varðveislu menningarverðmæta í Viðey og því að bæta úr ófullkominni starfsaðstöðu menningarmálastjóra. Þetta tvennt er óskylt og skaðar tillagan hvort tveggja. Það má vera öllum ljóst að bæta má vinnuaðstöðu menningarmálastjóra og gera honum kleift að komast yfir víðtækt starfssvið sitt þannig að nýtist menningarstofnunum borgarinnar sem best. Að leggja niður stöðu og starf staðarhaldara til þess að nýta það stöðugildi fyrir nýtt starf aðstoðarmanns menningarmálastjóra er hins vegar alrangt og vegur að framtíð Viðeyjar. Hér er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Það er ekki röksemd fyrir því að borgarminjavörður hafi umsjón með Viðey að það sé skylda hans lögum samkvæmt. Borgarminjavörður hefur alltaf haft umsjón með fornleifagreftri og náið samráð við staðarhaldara um allt sem lítur að fornminjum, meðferð þeirra og umgengni í eynni. Tillagan um að leggja niður starf staðarhaldara í Viðey tekur ekki á því hver það verður sem mun beinlínis sinna Viðey. Hún endurspeglar enga framtíðarsýn né þá umhyggju fyrir staðnum sem við teljum þó augljóst af fyrri umræðum í menningarmálanefnd að flutningsmenn hennar hljóti að hafa.
Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:
Það er alfarið í höndum menningarmálanefndar að sjá til þess að sjálfsagðri virðingu Viðeyjar verði haldið til haga.
Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlistans en tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu mótatkvæði.
2. Leiðrétting við fundargerð 314. fundar menningarmálanefndar, 2. lið, svohljóðandi:
,,Menningarmálastjóri kynnti starfsáætlun og fjárhagsáætlun menningarmála 2001 ásamt þriggja ára spá.’’ Viðbót: Tillagan var samþykkt með hjásetu fulltrúa Sjálfstæðismanna.
Fundi slitið kl. 13.00
Guðrún Jónsdóttir
Eyþór Arnalds Anna Geirsdóttir.
Júlíus Vífill Ingvarsson Kristín Blöndal.