Menningar- og ferðamálaráð
Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar
Ár 2016, mánudaginn 11. apríl 257. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13:30. Viðstaddir: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Þórgnýr Thoroddsen, Margrét Norðdahl, Stefán Benediktsson, Marta Guðjónsdóttir, Börkur Gunnarsson og Magnús Arnar Sigurðarson. Áheyrnarfulltrúi vinstri grænna: Elín Oddný Sigurðardóttir. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir og Auður Halldórsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur kynnir stefnumótunarvinnu og framtíðarsýn safnsins.
2. Lagt fram bréf stjórnar stjórnar SÍM – Sambands íslenskra myndlistarmanna dags. 15. mars 2016 vegna áforma um mögulega sölu á Korpúlfsstöðum. (RMF16040002)
3. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og ferðamálaráði leggja fram svohljóðandi tillögu:
Menningar- og ferðamálaráð leggur til að fagaðilar, frá stofnunum borgarinnar, fari yfir listann sem lagður var fyrir borgarráð í nóvember síðastliðnum. Á þessum lista voru tillögur að byggingum í eigu Reykjavíkurborgar sem skoða á að megi selja. Undirrituð eru viss um að fasteignamat þessara bygginga liggi fyrir en telja nauðsynlegt að menningarlegt mat verði lagt á þær áður en ákveðið verði hverjar þeirra eigi að selja.
Frestað.
4. Þórólfur Jónsson deildarstjóri og Ólafur Ólafsson deildarstjóri opinna svæða kynna skýrslu starfshóps, dags. 9 mars 2016, um almenningssalerni í Reykjavík.
5. Lagt fram erindi ÍTR dags. 18. mars 2016 um skipulagningu dagskrár 17. júní. (RMF16030015)
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og ferðamálaráði leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að skipulagning og umsjón hátíðarhalda vegna þjóðhátíðar 17. júní verði ekki flutt frá íþrótta- og tómstundaráði. ÍTR hefur annast hátíðarhöldin áratugum saman með góðum árangri og er því til staðar dýrmæt þekking og reynsla á málinu innan sviðsins. Litið hefur verið svo á að með því að fela ÍTR umsjón hátíðarhaldanna væri lögð áhersla á tengsl þeirra við æsku borgarinnar og þátttöku íþrótta- og æskulýðsfélaga í þeim. Undanfarin ár hefur hins vegar markvisst verið dregið úr umfangi hátíðarhaldanna 17. júní og er nú svo komið að í ár er einungis gert ráð fyrir 9,5 m. króna fjárveitingu til þeirra. Umrætt framlag hefur sennilega aldrei verið jafnlágt og er það lýsandi fyrir metnaðarleysi núverandi borgarstjórnarmeirihluta gagnvart hátíðarhöldum þjóðhátíðar 17. júní.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata í menningar og ferðamálaráði:
Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata vilja koma því á framfæri að með þessari tillögu er verið að skoða hvort verkefnið eigi betur heima á Höfuðborgarstofu þar sem fagþekking á viðburðastjórnun er mikil og samlegðaráhrif gætu orðið. Viðburðaskrifstofa Höfuðborgarstofu hefur sýnt og sannað afburðagetu til samstarfs við önnur svið t.d. skóla- og frístundasviðs vegna barnamenningarhátíðar og ÍTR vegna Vetrarhátíðar. Við höfum fulla trú á því að samstarf við íþrótta- og æskulýðsfélög verði áfram gott. Áformin með því að fara í þessar aðgerðir væri verið að efla daginn fremur en að draga úr honum.
- kl. 15:10 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum.
6. Harpa Rut Hilmarsdóttir verkefnastjóri barnamenningar og Guðmundur Birgir Halldórsdóttir verkefnastjóri viðburða á Höfuðborgarstofu kynna Barnamenningarhátíð 2016. (RMF15090003)
7. Lagt fram svar skrifstofu Menningar- og ferðamálasviðs við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 255. fundi ráðsins um heildarframlög Reykjavíkurborgar til Heimilis kvikmyndanna vegna Bíó Paradísar frá stofnun fyrirtækisins. (RMF16030014)
8. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 255. fundi ráðsins um styrki. (RMF16030014)
Frestað.
9. Lagt fram erindi af samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum Menning og listir dags. 29. febrúar 2016 um Elliðaárdalinn. (RMF16010001)
Menningar- og ferðamálaráð samþykkir svohljóðandi bókun:
Elliðaárdalurinn hefur lengi verið eitt vinsælasta útivistarsvæðið í Reykjavík og er auk þess vettvangur margs konar viðburða og fræðslu. Ekki stendur til að breyta dalnum í lystigarð eða skipuleggja hann um of. Starfshópur sem fjallar um notkun og framtíðarsýn Elliðaárdalsins er að ljúka störfum og meðal þess sem er til skoðunar er nýting húsanna í dalnum s.s. Toppstöðvar og mannvirkja OR. Hvort komið verður upp veitingasölu á vegum einkaaðila liggur ekki fyrir en ekki er ólíklegt að slíkar hugmyndir komi fram á síðari stigum t.a.m. í tengslum við Toppstöðina. Ekki má heldur gleyma Grasagarðinum í Laugardal, sem er nær því að vera lystigarður, en í þeim almenningsgarði eru tjarnir og fögur blóm, kaffihús og uppákomur ýmis konar. Jafnframt er bent á að kaffihús er rekið í Árbæjarsafni.
- kl. 15:50 víkur Magnús Arnar Sigurðsson af fundinum.
Fundi slitið kl. 16:07
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Þórgnýr Thoroddsen Margrét Norðdahl
Stefán Benediktsson Marta Guðjónsdóttir
Börkur Gunnarsson
PDF útgáfa fundargerðar
Menningar- og ferðamálaráð 11.4.2016 - prentvæn útgáfa