Menningar- og ferðamálaráð - Fundur nr. 242

Menningar- og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

Ár 2015, mánudaginn 24. ágúst var haldinn 242. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13:30. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen, Kristján Freyr Halldórsson, Stefán Benediktsson, Margrét Norðdahl, Júlíus Vífill Ingvarsson, Marta Guðjónsdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir. Áheyrnarfulltrúi vinstri grænna: Elín Oddný Sigurðardóttir. Áheyrnarfulltrúi SAF: Þórir Garðarsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Berglind Ólafsdóttir, Signý Pálsdóttir og Auður Halldórsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Howell Roberts fornleifafræðingur kynnir fornleifauppgröft í Lækjargötu 10-12 og Sólrún Inga Traustadóttir fornleifafræðingur kynnir fornleifauppgröft á svæði Austurhafnar. Þorsteinn Bergson fulltrúi Minjaverndar, Ólafur Torfason, Þorkell Erlingsson verkefnastjóri og Guðbrandur Benediktsson safnstjóri Borgarsögusafns taka sæti á fundinum undir þessum lið.

2. Fram fer kynning á árshlutauppgjöri menningar- og ferðamálasviðs fyrir janúar–júní 2015 og á innkaupum sviðsins yfir 1 m.kr. á sama tíma. Jafnframt eru lögð fram yfirlit yfir listaverkakaup Listasafns Reykjavíkur 2015 og afgreiðslur Borgarsögusafns, dags. 14. ágúst, fyrir tímabilið 1. apríl til 31. júní 2015. Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerir grein fyrir málinu. (RMF15050008)

3. Ólafur Bjarnason samgöngustjóri og Þorsteinn R. Hermannsson kynna tillögur að breytingum á leiðarkerfi Strætó. (RMF15080006)

Umsögn Menningar- og ferðamálasviðs, dags. 21. ágúst 2015, samþykkt með áorðnum breytingum. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Sem fyrr er gagnrýnt að fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn skuli velja BSÍ við Vatnsmýrarveg 10 fyrir miðstöð almenningssamgangna án undangenginnar þarfagreiningar og úttektar á því hvort sá staður sé ákjósanlegasti staðurinn fyrir þessa starfsemi til framtíðar. Að því undanskildu er tekið undir þá gagnrýni og ábendingar sem fram koma í umsögn menningar- og ferðamálaráðs.

4. Endurskoðun aðgerðaráætlunar ferðamálastefnu til umræðu. (RMF14110011)

5. Lögð fram umsögn skóla- og frístundaráðs, dags. 14. ágúst 2015, við tillögu safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, dags. 12. júní 2015, um uppsetningu tveggja útilistaverka við skóla í Grafarholti. (RMF15060007)

Samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs. 

6. Lögð fram tilkynning Bandalags íslenskra listamanna um að Birna Hafstein taki sæti varaáheyrnarfulltrúa í menningar- og ferðamálaráði í stað Gunnars Guðbjörnssonar. (RMF14010016)

7. Þátttaka fulltrúa Reykjavíkurborgar í Culturescapes Iceland 2015 í Sviss í október 2015. (RMF14090010)

Samþykkt að fulltrúar Reykjavíkurborgar verði formaður menningar- og ferðamálaráðs, fulltrúi minnihluta í ráðinu og fulltrúi menningar- og ferðamálasviðs.

8. Lagt fram erindi af samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir dags. 30. júní 2015 um að sett verði upp safn í Höfða. (RMF14120016)

Bókun fulltrúa Bjartrar framtíðar, Pírata og Samfylkingar:

Síðastliðin þrjú sumur var Höfði opinn ferðamönnum alla virka daga frá kl. 09:00 til 16:00. Aðgangseyrir var einungis 500 kr. sl tvö sumur, en tekið á móti frjálsum framlögum það fyrsta. Ákvörðun var tekin um að hafa ekki opið sumarið 2015 þar sem opnunin hefur verið langt frá því að mæta kostnaði. Stöðugur straumur ferðamanna kemur daglega að Höfða en fæstir vilja greiða aðgangseyri. Eigi húsið að vera opið ferðamönnum þarf að verja húsið, td. með því að setja dúka á gólfið. Þá þurfa að vera þrír starfsmenn á opnunartíma, einn á hverri hæð. Húsið er nýtt í móttökur og fundi á vegum Reykjavíkurborgar í hverri viku og fyrir hefur komið að nota þurfi húsið með litlum fyrirvara. Þess má einnig geta að Höfði hefur verið opinn almenningi á sérstökum dögum, til að mynda á Menningarnótt, og þá hefur borgarstjóri jafnvel verið sjálfur á staðnum. Vel kemur til greina að fjölga slíkum dögum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

9. Lagt fram erindi af samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir dags. 31. júlí 2015 um að frítt verði inn á listasöfn og önnur söfn á vegum borgarinnar. (RMF14120016)

Bókun menningar- og ferðamálaráðs:

Allra leiða er leitað til að gera söfn borgarinnar aðgengilegust óháð efnahag sem öðru. Frítt er fyrir börn yngri en 18 ára, öryrkja og eldri borgara 70 ára og eldri. Námsmenn greiða einungis 800 kr. Menningarkort Reykjavíkur hefur reynst hagkvæm leið til að njóta menningarlífsins í Reykjavíkurborg á betri kjörum. Menningarkortið er árskort sem gildir í Listasafn Reykjavíkur (Hafnarhús, Kjarvalsstaði og Ásmundarsafn) og Borgarsögusafn Reykjavíkur (Árbæjarsafn, Landnámssýningu og Sjóminjasafn). Gegn framvísun þess fá handhafar einnig bókasafnskort í Borgarbókasafn Reykjavíkur. Þar að auki veitir menningarkortið fjölbreytt fríðindi, afslætti og tilboð á fjölmarga viðburði, sýningar og veitingahús. Það kostar 5.500 kr. á ári, sem eru einungis 458 krónur á mánuði og kannski ákjósanlegra að geta notið gæða þess hvenær sem er í stað afmarkaðs tíma í viku sem hentar kannski fáum. Sértekjur safna Reykjavíkur eru mikilvægur liður í að halda úti góðri þjónustu og fjölbreyttri starfsemi. Þar hefur einkum munað um aukningu ferðamanna undanfarin ár. Hætt er við að þær tekjur sem hyrfu við ókeypis aðgang myndu hafa áhrif á þjónustuna. Sérstakir dagar þar sem frítt er inn fyrir alla koma reglulega upp og eru þá kynntir vel.

10. Menningar- og ferðamálaráð samþykkir svohljóðandi bókun: 

Menningar- og ferðamálaráð lýsir yfir ánægju sinni með mjög vel heppnaða Menningarnótt og þakkar starfsfólki Höfuðborgarstofu fyrir afar vel unnin störf við undirbúning og framkvæmd Menningarnætur árið 2015. Einnig þakkar ráðið öllum þeim listamönnum, borgarbúum og gestum sem þátt tóku.

Fundi slitið kl. 15:30

Þórgnýr Thoroddsen

Kristján Freyr Halldórsson Stefán Benediktsson

Margrét Norðdahl Júlíus Vífill Ingvarsson

Marta Guðjónsdóttir Gréta Björg Egilsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Menningar- og ferðamálaráð 24.8.2015 - prentvæn útgáfa