Menningar- og ferðamálaráð - Fundur nr. 230

Menningar- og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

Ár 2014, mánudaginn 9. febrúar var haldinn 230. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13:10. Viðstaddir: Elsa Hrafnhildur Yeoman formaður, Þórgnýr Thoroddsen, Dóra Magnúsdóttir, Stefán Benediktsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Marta Guðjónsdóttir og Ingvar Jónsson. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna: Elín Oddný Sigurðardóttir.  Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir. Áheyrnarfulltrúi SAF: Þórir Garðarsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Berglind Ólafsdóttir og Signý Pálsdóttir sem ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 30. janúar 2015, um endurskoðun á fjárhagsáætlun 2014 vegna endurskoðunar starfsmats. (RMF13020004)

2. Lagt fram bréf borgarráðs, dags. 3. febrúar 2015, um verk- og tímaáætlun vegna undirbúnings og afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2016 og fimm ára áætlunar ásamt tíma- og verkáætlun A-hluta dags. 28. janúar 2015. (RMF15020004)

3. Stofnframkvæmdir MOF – undirbúningur vegna áætlunar 2016-2020. (RMF15020005). 

4. Lagt fram erindi verkefnisstjórnar nýrrar grunnsýningar í Safnahúsi ásamt fylgigögnum er varða uppsetningu myndlistarverks á lóð hússins. Meðal fylgigagna var umsögn Hafþórs Yngvasonar safnstjóra Listasafns Reykjavíkur sem mætir á fundinn. 

Umsögn safnstjóra samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðismanna, sem leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki er tekið undir með meirihluta Menningar- og ferðamálaráðs varðandi val á listaverki á lóð Safnahússins við Hverfisgötu. Borgarfulltúar Sjálfstæðisflokks hafa í ráðum borgarinnar flutt tillögur um að útilistaverkum verði fundnir staðir í úthverfum borgarinnar. Þeir hafa einnig bent á að á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna verði frumkvöðla úr kvenréttindabaráttunni minnst með ýmsum áberandi hætti eins og með útilistaverkum þeim til heiðurs. Að lágmarki væri við hæfi að leita til kvenna við val á listaverki við Hverfisgötu en þau tvö verk sem verkefnastjórn Safnahússins hefur óskað eftir að tekin verði afstaða til eru gerð af karlmönnum. Á afmælisárinu eru konur víða í forgrunni og má til dæmis benda á dagskrá Listahátíðar Reykjavíkur í því sambandi. Útilistaverkin tvö sem ráðinu er falið að fjalla um gætu vart verið ólíkari og gefa engan veginn svigrúm við val á viðeigandi listaverki á þessum stað. Rök vantar fyrir því að Reykjavíkurborg standi undir kostnaði á flutningi verkanna sem eru í eigu ríkisins. Áætlaður kostnaður einungis vegna flutningsins er um 3 milljónir króna.  (RMF15020008).

5. Lagðar fram niðurstöður Capacentkönnunar um viðhorf til þjónustu  sveitarfélaga 2014 með tilliti til Reykjavíkurborgar, bæði í heild, brotið niður á hverfi og sérstaklega  með tilliti til menningarmála. Svanhildur Konráðsdóttir sviðsstjóri kynnir. 

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri Grænna og Pírata í Menningar- og ferðamálaráði  leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri Grænna og Pírata í menningar- og ferðamálaráði lýsa yfir ánægju með útkomu menningarstofnana borgarinnar í nýútkominni könnun Capacent á viðhorfi til þjónustu borgarinnar. Ástæða er til að gleðjast yfir því að menningarstofnanirnar fá toppeinkunn  í könnuninni og má meðal annars þakka þann árangur því góða starfsfólki sem borgin býr svo vel að hafa á sínum snærum. Meirihlutinn kýs að horfa fram á veginn og gera gott starf enn betra. Fulltrúarnir meðtaka sömuleiðis misjafnar niðurstöður könnunarinnar vegna menningarþjónustu á hverfavísu. Þetta er í fyrsta sinn sem könnunin er brotin niður á hverfi og það er fagnaðarefni að geta horft til úttektar Capacent vegna menningarþjónustu og -framboðs í hverfum og freista þess að gera enn betur í framtíðinni og byggja á niðurstöðum þessarar könnunar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg fær hraklega útreið í þjónustukönnun Capacent. Þegar spurt er um þjónustu við barnafjölskyldur, eldri borgara og fatlað fólk lendir Reykjavíkurborg í neðsta sæti í samanburði við 19 stærstu sveitarfélög landsins. Sömuleiðis lendir höfuðborgin í neðsta sæti þegar spurt er um þjónustu grunnskóla, leikskóla, sorphirðu og aðstöðu til íþróttaiðkunar. Þetta er niðurstaða þjónustukönnunar sem byggir á spurningum sem lagðar voru fyrir borgarbúa og íbúa annarra sveitarfélaga. Reykjavíkurborg lendir einnig í neðsta sæti þegar spurt er um þjónustu sveitarfélagsins í heild sinni. Að mati borgarbúa er sú þjónusta sem veitt er í borginni óviðunandi og alls ekki sambærileg við þá þjónustu sem veitt er í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Menningarmál lenda í 15. sæti af 19 sem er besta niðurstaða málaflokka í könnuninni en er þó undir meðaltalsútkomu annarra sveitarfélaga. Könnunina á að nota til þess að leggja mat á niðurstöður hennar og leita leiða til þess að bæta þjónustuna.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallavina leggur  fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og Flugvallarvinir túlka niðurstöður könnunar Capacent sem hvatningu til kjörinna fulltrúa og starfsmanna til að gera betur í þjónustu við Reykvíkinga. (RMF15020010).

6. Listahátíð í Reykjavík 2015. Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, kynnir umfang, helstu atriði og áherslur hátíðarinnar 2015. Heildardagskrá hátíðarinnar verður kynnt opinberlega um miðjan mars. Framtíðarsýn hátíðarinnar einnig til umræðu. (RMF15020009)

7. Lagt fram erindi gallerís Þoku dags. 1. febrúar 2015 vegna breyttra aðstæðna gallerísins og ósk um að halda styrkveitingu ársins þess vegna. Samþykkt. (RMF14080008).

8. Lagt fram erindi Áslaugar Thorlacius dags. 12. janúar vegna Kjarvalsstofu í París. Samþykkt að vísa erindinu til meðferðar Menningar- og ferðamálasviðs. (RMF15010014)

- Klukkan 16:00 víkja Dóra Magnúsdóttir og Elín Oddný Sigurðardóttir af fundi.

9. Lögð fram um skýrsla um fræðsluferð ráðsins og forstöðumanna til Amsterdam 2014 til umræðu.

Ráðið leggur fram sameiginlega bókun:

Menningar- og ferðamálaráð álítur að tilgangi og markmiðum í fræðsluferð hafi verið náð. Stjórnendur stofnanna og framkvæmdastjórn menningar- og ferðamálsviðs eiga hrós skilið fyrir framúrskarandi skipulagningu og fagleg vinnubrögð varðandi ferðina. Drög að skýrslu eru vel unnin og mun lokaskýrsla án efa koma sér vel fyrir menningar og ferðamál í Reykjavík um ókomna tíð. (RMF15020008).

Fundi slitið kl. 16:10

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Þórgnýr Thoroddsen Stefán Benediktsson

Júlíus Vífill Ingvarsson Marta Guðjónsdóttir

Ingvar Jónsson

PDF útgáfa fundargerðar
Menningar- og ferðamálaráð 9.2.2015 - prentvæn útgáfa