Menningar- og ferðamálaráð - Fundur nr. 195

Menningar- og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar

Ár 2013, mánudaginn 26. ágúst var haldinn 195. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13:45. Viðstaddir: Einar Örn Benediktsson formaður, Margrét Kristín Blöndal, Ósk Vilhjálmsdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Hrafnhildur Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Berglind Ólafsdóttir og Signý Pálsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram 6 mánaða uppgjör menningar- og ferðamálasviðs ásamt yfirliti um listaverkakaup Listasafns Reykjavíkur, embættisafgreiðslur borgarminjavarðar og skorkorti MOF. Skrifstofustjóri fjármála- og rekstrar kynnti. Menningar- og ferðamálaráð lagði fram svohljóðandi bókun: Vegna laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands greiðir Reykjavíkurborg 18% af rekstri hljómsveitarinnar. Þegar rekstur SÍ fer fram úr fjárheimildum, eins og liggur fyrir varðandi árið 2012, þá fær Reykjavíkurborg bakreikning. Þetta er óásættanlegt enda krafa borgarinnar til stofnana sinna að þær skili rekstri sínum innan fjárheimilda. Menningar- og ferðamálaráð hvetur til þess borgarstjóri og mennta- og menningarmálaráðherra fari í sameiningu yfir rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands, framlag Reykjavíkurborgar til hljómsveitarinnar og leitað verði leiða til að halda rekstri innan fjárheimilda.

2. Lögð fram ný tillaga að fyrirhugaðri listaverkagjöf CCP til Reykjavíkurborgar, útilistaverkinu Heimar í heimi eftir Sigurð Guðmundsson. Tillögunni fylgdi kynning listamannsins dags. 1.7. 2013 og umsögn Hafþórs Yngvasonar safnsstjóra Listasafns Reykjavíkur dags. 16.7. 2013. Hafþór Yngvason og Ívar Kristjánsson CFO, fjármálastjóri og einn af stofnendum CCP kynntu. (RMF13010037) Menningar- og ferðamálaráð lýsir ánægju sinni með nýja tillögu og tekur undir umsögn safnsstjóra Listasafns Reykjavíkur um verkið. Erindinu er vísað til Umhverfis- og skipulagssviðs varðandi tillögur að staðsetningu.

3. Lagt fram til kynningar minnisblað borgarbókavarðar um yfirfærslu safnkosts Borgarbókasafns úr strikamerkjum í örflögur. (RMF13080006)

4. Sviðsstjóri kynnti stöðu vinnu við úttekt á mögulegum samrekstri Minjasafns Reykjavíkur, Ljósmyndasafns Reykjavíkur, Víkurinnar-Sjóminjasafns Reykjavíkur og Viðeyjar. (RMF13050025)

5. Lagt fram erindi dags. 20.8. 2013 frá Birnu Hafstein f.h.Bandalags sjálfstæðra atvinnuleikhúsa og Friðriki Friðrikssyni f.h. Menningarfélags Tjarnarbíós MTB um framtíðarsýn Tjarnarbíós ásamt erindum svipaðs efnis sem frestað var frá 194. fundi, með ársreikningi MTB 2012, áætlun um sviðlistasýningar leikárið 2013-2014 og áætlun MTB vegna rekstrar. Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs: Í ljósi framlagðra erinda til menningar- og ferðamálaráðs árið 2013 frá Sjálfstæðu leikhúsunum SL og Menningarfélagi Tjarnarbíós MTB samþykkir ráðið að veita SL til rekstrar Tjarnarbíós 2 m.kr. styrk árið 2013 til viðbótar þeim 2,4 m.kr. sem SL hefur þegar fengið úthlutað. Fjárveitingin færist af styrkjaramma ráðsins, kostnaðarstað 03113. Vegna framlags á árinu 2014 er vísað til almenns umsóknarferlis um styrkveitingar Reykjavíkurborgar með umsóknarfresti til 1. október n.k. (RMF13010016).

6. Lagt fram erindi skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 14.8. 2013 ásamt nýrri samþykkt um stjórn Reykjavíkur og fundarsköp borgarstjórnar. Óskað er eftir að tillögur að breytingum á efni viðauka um fullnaðarafgreiðslur menningar- og ferðamálaráðs berist skrifstofu borgarstjórnar sem fyrst. Sviðsstjóri lagði fram tillögu að umsögn vegna umrædds viðauka. Samþykkt. (RMF13080007).

7. Lagt fram minnisblað dags. 13.6.2013 frá forstöðumanni Höfuðborgarstofu, verkefnastjóra Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna og viðburðarstjóra á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara vegna bókunar menningar- og ferðamálaráðs þ. 27. maí sl. um hugmyndir að nýtingu á anddyri Ráðhúss Reykjavíkur til þess að veita ferðamönnum, innlendum og erlendum, upplýsingar um borgina, Strætó og hvar þeir leita sér frekari upplýsinga. Frestað. (RMF13050017)

8. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir dags. 31. júlí 2013 um jólaþorp í Árbæjarhverfi. (RMF13010001) Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs: Þessari hugmynd verður komið á framfæri við hverfisráð Árbæjar.

Fundi slitið kl. 15.50.

Einar Örn Benediktsson
Margrét Kristín Blöndal Ósk Vilhjálmsdóttir
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Menningar- og ferðamr-2608.pdf