No translated content text
Menningar- og ferðamálaráð
Fundargerð menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar
Ár 2012, mánudaginn 13. ágúst, var haldinn 170. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13.38. Viðstaddir: Einar Örn Benediktsson formaður, Margrét Kristín Blöndal, Stefán Benediktsson, Eva Baldursdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir og Davíð Stefánsson. Áheyrnarfulltrúi BÍL: Hrafnhildur Sigurðardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir. Áheyrnarfulltrúi SAF: Þórir Garðarsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Berglind Ólafsdóttir og Kristjana Nanna Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Sif Gunnarsdóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu kynnti dagskrá Menningarnætur sem haldinn verður 18. ágúst 2012. (RMF12060009)
2. Þorsteinn Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri RR og Sif Gunnarsdóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu kynntu stöðuna hjá Ráðstefnuborginni Reykjavík.
3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjórnar dags. 23. maí 2012 um tillögu borgarstjórnar um flutning Járnsmiðsins eftir Ásmund Sveinsson á hafnarsvæðið milli Sjóminjasafnsins, Slippsins og Nýlendugötu. Jafnframt lögð fram umsögn safnstjóra Listasafns Reykjavíkur dags. 10. ágúst 2012 um málið. Samþykkt með fimm atkvæðum að fela safnstjóra Listasafns Reykjavíkur að vinna að nýrri staðsetningu í samvinnu við Skipulagssvið. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni. (RMF12050005)
4. Lagt fram bréf safnstjóra Listasafns Reykjavíkur dags. 13. júní 2012 þar sem lögð er til ný staðsetning fyrir Svörtu keiluna – minnisvarða um borgaralega óhlýðni eftir Santiago Sierra á hellulögðu torgi á horni Kirkjustrætis og Thorvaldsenstrætis. Jafnframt lögð fram afgreiðsla skipulagsráðs á erindinu dags. 27. júní 2012. Samþykkt að fá álit forsætisnefndar Alþingis að nýju á nýrri staðsetningu. (RMF12030001)
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í MOF fagnar tillögu að nýrri staðsetningu á listaverki Santiago Sierra, Svörtu keilunni, á gangstétt við Austurvöll, en Listasafn Reykjavíkur fékk verkið að gjöf frá listamanninum árið 2012. Jafnvel þótt koma verksins hingað hafi staðið í nokkru samhengi við Búsáhaldabyltinguna árið 2009 hefur það miklu breiðari sögulega skírskotun. Svarta keilan er fallegur og nauðsynlegur minnisvarði um borgaralega óhlýðni og þar með um sameiningarkraft einstaklinga gagnvart ríki og yfirvöldum.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir óskaði bókað:
Austurvöllur er í miðri Kvosinni sem er einn sögufrægasti staður þjóðarinnar ásamt Þingvöllum þar sem er ekkert annað en blóm, tré og gras ásamt styttu af Jóni Sigurðssyni sem er og var sameiningartákn og ekki er við hæfi að staðsetja sundrungartákn á þessum sögufræga stað þjóðarinnar.
5. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra fjármála og rekstrar dags. 13. ágúst 2012 um stöðuna á framkvæmdum í Tjarnarbíói. (RMF06010003)
6. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kvikmyndamál sem lögð var fram á 167. fundi. (RMF1208002)
7. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks um styrki til Bíó Paradís sem lögð var fram á 169. fundi. (RMF1208002)
8. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menningarmál dags. 31.6.2012 um sölumarkað fyrir listamenn um helgar í miðbænum. Frestað. (RMF12020001)
9. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum ferðamál dags. 31.7.2012 um að setja á fót sýningu um leiðtogafundinn í Höfða. Frestað. (RMF12020001)
10. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum ferðamál dags. 31.7.2012 um að gera Reykjavík að jólaþorpi (jólaborg). Frestað. (RMF12020001)
Fundi slitið kl. 15.40
Einar Örn Benediktsson
Margrét Kristín Blöndal Stefán Benediktsson
Eva Baldursdóttir Áslaug Friðriksdóttir
Marta Guðjónsdóttir Davíð Stefánsson