Menningar- og ferðamálaráð
Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar
Ár 2011, mánudaginn 9. maí, var haldinn 145. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ingólfsnausti, Vesturgötu 1 og hófst hann kl. 13:09. Viðstaddir: Einar Örn Benediktsson formaður, Stefán Benediktsson, Hugleikur Dagsson, Áslaug Friðriksdóttir, Jarþrúður Ásmundsdóttir og Davíð Stefánsson. Áheyrnarfulltrúi BÍL: Hrafnhildur Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir og Kristjana Nanna Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram tilkynning frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 19. apríl 2011 um að Davíð Stefánsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir taki sæti sem aðalmenn í menningar- og ferðamálaráði fyrir hönd VG og Sjálfstæðisflokks.
2. Lagt fram febrúaruppgjör Menningar- og ferðamálasviðs.
- Kl. 13:11 kom Eva Baldursdóttir á fundinn.
3. Borgarlistamaður 2011. Lagðar fram reglur um útnefningu borgarlistamanns og listi yfir borgarlistamenn frá 1980 – 2010. Samþykkt að fela skrifstofustjóra menningarmála að móta verklagsreglur vegna tilnefningar næsta árs. Lögð fram tillaga um borgarlistamann. Samþykkt. Trúnaðarmál.
4. Hugmynd um að flytja verk Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberann, ofan af holtinu hjá Veðurstofu Íslands og niður í Austurstræti. Lagt fram erindi safnstjóra Listasafns Reykjavíkur dags. 2. maí 2011, auk þess afgreiðslur skipulagsráðs dags. 27. apríl 2011 og umhverfis- og samgönguráðs dags. 26. apríl um málið.
Menningar- og ferðamálaráð gerir ekki athugasemdir við staðsetningu verksins en leggur áherslu á að verkið sé fært lengra frá götu og gengið verði þannig frá nánasta umhverfi verksins að það líti ekki út eins og vegatálmi. Menningar- og ferðamálaráð fagnar því að fá styttuna í miðbæinn þar sem henni var upphaflega ætlaður staður.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðslu málsins og óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu umsagnar vegna tilfærslu Vatnsberans. Fulltrúarnir telja margt jákvætt við að flytja styttuna svo sem meiri kynning á verkum Ásmundar Sveinssonar, það að sögulega liggur fyrir að styttan hafi upphaflega átt að standa á horni Bankastrætis og Lækjargötu, o.fl. Þau gögn sem fyrir menningar- og ferðamálaráði liggja gefa hins vegar ekki nógu greinagóða mynd af því hvernig styttan verður staðsett og hvernig skipulagi og umhverfi í kringum hana verður háttað, mörgum spurningum ósvarað eins og umsögn menningar- og ferðamálaráðs ber með sér. Fram hefur komið að setja eigi styttuna niður til reynslu í eitt ár og því muni gefast tími til að endurskoða þá hluti betur síðar. Hins vegar telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að vanda eigi til verksins nú, vilja sjá betur útfærðar hugmyndir ekki síst vegna þess að oft er hætta á því að bráðabirgðaframkvæmdir standi mun lengur óbreyttar en til stóð í upphafi.
Formaður menningar- og ferðamálaráðs fagnar bókun Sjálfstæðiflokksins.
5. Lagt fram erindi Gavin Lucas dósents í fornleifafræði í HÍ dags. 26. apríl 2011 um ósk um heimild til fornleifarannsókna í Viðey. Lögð fram umsögn Minjasafns Reykjavíkur dags. 28. apríl 2011. Samþykkt og sviðsstjóra falið að veita umbeðið leyfi.
6. Lagðar fram umsagnir Minjasafns Reykjavíkur dags. 9. maí 2011 um frumvarp til safnalaga þskj. 152 – 650. mál og frumvarp til laga um menningarminjar þskj. 1153 – 651. mál. Menningar- og ferðamálaráð tekur undir efnisatriði umsagnar Minjasafns Reykjavíkur. Sviðsstjóra falið að ganga frá umsögn í samráði við borgarlögmann.
- Kl. 14.25 vék Davíð Stefánsson af fundi.
7. Lögð fram til kynningar umsögn borgarlögmanns dags. 13. apríl 2011 um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn.
8. Lagt fram bréf dags. 29. apríl 2011 ásamt fylgigögnum um niðurfellingu á kröfu um endurgreiðslu styrks 2010 vegna verkefnis sem ekki varð af. Afgreiðslu frestað. Menningar- og ferðamálaráð óskar eftir nánari upplýsingum, þ.m.t. fjárhagslegu uppgjöri verkefnisins og bókhaldslegum fylgigögnum.
9. Lagðar fram 26 umsóknir um skyndistyrki til afgreiðslu menningar- og ferðamálaráðs á fundi 23. maí n.k.
Fundi slitið kl. 15:46
Einar Örn Benediktsson
Eva Baldursdóttir Stefán Benediktsson
Hugleikur Dagsson Áslaug Friðriksdóttir
Jarþrúður Ásmundsdóttir