Menningar- og ferðamálaráð - Fundur nr. 134

Menningar- og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar

Ár 2010, fimmtudaginn 18. nóvember, var haldinn 134. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ingólfsnausti, Vesturgötu 1 og hófst hann kl. 9:20. Viðstaddir: Einar Örn Benediktsson, Harpa Elísa Þórsdóttir, Eva Baldursdóttir, Stefán Benediktsson, Davíð Stefánsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Áslaug Friðriksdóttir. Áheyrnarfulltrúi BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Signý Pálsdóttir, Berglind Ólafsdóttir og Hildur Sif Arnardóttir sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fjárhagsáætlun 2011, tillögur að breytingum á gjaldskrá og greinargerð. Afgreitt og vísað til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og ferðamálaráði þakka starfsmönnum menningar- og ferðamálaráðs mikla vinnu og ágætt samráð um hugmyndir vegna hagræðingarkröfu borgarstjórnar. Nú þegar tillögur liggja fyrir um niðurskurð á menningar- og ferðamálasviði er mikilvægt að ítreka að málaflokkurinn er nú þegar búinn að skera niður töluvert og að þær tillögur sem liggja fyrir eru sumar afar erfiðar þó aðrar feli í sér tækifæri. Það er sérstaklega áberandi að samstarfssamningar sviðsins eru að fá á sig miklu lægri hagræðingarkröfu en stofnanir sviðsins og á þetta við um borgina í heild. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki vera nóg að gert í að semja við þessa aðila um hagræðingu en nú er. Í þessu samhengi er mikilvægt að nefna að sú hagræðingartala sem miðað er við í niðurskurði í borginni, 4,5 m kr., er aðeins að litlum hluta tekjutap borgarinnar sem er 700 m kr. Þetta gefur tilefni til að huga að öllum þeim viðbótarrekstri sem áætlað er að falli til á nýju ári og á kjörtímabilinu hjá Reykjavíkurborg. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og ferðamálaráði telja að betur hefði þurft að standa að undirbúningsvinnu vegna fjárhagsáætlunar eigi hún að skila borgarbúum góðum og farsælum lausnum. Sú staðreynd að skýra forgangsröðun skortir, engin aðgerðaráætlun er í gildi, og fundir aðgerðarhóps tilviljanakenndir gerir það að verkum að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki stutt áætlanir þegar engin yfirsýn liggur fyrir. Varðandi sérstakar tillögur í menningar- og ferðamálaráði þá leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og ferðamálaráði áherslu á að skerða sem minnst verkefna- og samstarfsstyrki í styrkjapotti til einstakra verkefna, vilja endurskipuleggja hátíðir á vegum borgarinnar þannig að þær dreifist jafnt á annað hvort ár og telja ónæga umræðu hafa farið fram um tækifæri til tekjuöflunar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka nauðsyn þess að tíminn framundan verði vel nýttur og komandi fjárhagsáætlun endurspegli öfluga forgangsröðun í þágu íbúa, áframhaldandi góða grunnþjónustu og skilning á því að verkefnið verður ekki leyst með auknum álögum á íbúa sem treysta því að borgin standi áfram með þeim á erfiðum tímum.

Fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir að á fundi menningar- og ferðamálaráðs verði ítarlega farið yfir skipulag og reikningslíkan innri leigu stofnana og fjárfestinga, þ.m.t. Borgarleikhús, og eignir sviðsins, og hvernig leigugreiðslum er háttað. Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir útreikningi á því hvað raunniðurskurður er mikill sundurliðað fyrir hverja stofnun með og án innri leigu. Að auki óska fulltrúarnir að sérstök kynning verði haldin fyrir ráðið um Hörpu, samning Reykjavíkur við tónlistarhúsið og rekstrarumhverfið.
2. Þjónustukaup tengd Viðey – fyrirkomulag 2011-2012. Frestað á fundi 8. nóvember. Samþykkt að óska eftir því við borgarráð að auglýsa samningskaup til 5 ára.
Fundi slitið kl 10:46

Einar Örn Benediktsson
Harpa Elísa Þórsdóttir Eva Baldursdóttir
Stefán Benediktsson Davíð Stefánsson
Áslaug Friðriksdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir