Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 93

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2023, föstudaginn 19. maí var haldinn 93. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 9:32. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Birkir Ingibjartsson varamaður fyrir Pawel Bartoszek, Helgi Áss Grétarsson varamaður fyrir Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Sabine Leskopf og Stefán Pálsson.  Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Steinþór Einarsson, María Rut Reynisdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á Þorpi skapandi greina í Gufunesi –  í framhaldi af fyrirspurn Vinstri grænna í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði sbr. 4. lið fundargerðar frá 28. febrúar 2023. ITR23030011.

    Hulda Hallgrímsdóttir og Óli Örn Eiríksson frá atvinnu- og borgarþróun taka sæti á fundinum með rafrænum hætti undir þessum lið.

  2. Fram fer kynning á Borgarbókasafni í Klébergsskóla.   MOF22110011

    Unnar Geir Unnarsson deildarstjóri hjá Borgarbókasafni tekur sæti á fundinum undir þessum lið.  

    Fulltrúar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikið fagnaðarefni að á 100 ára afmæli Borgarbókasafnsins verði bætt við nýju útibúi í minnsta hverfi borgarinnar, á Kjalarnesi. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem verður samrekið safn fyrir almenning og nemendur og starfsfólk Klébergsskóla. Safnið tekur við bókakosti Bókabílsins og fær viðbótarfjárveitingu til að byggja upp bókakostinn með nýjum bókum. Safnið verður opið á skólatíma og auk þess tvisvar sinnum í viku fyrir almenning til að byrja með a.m.k. Vonandi mælist þessi tilraun vel fyrir og skapar grunn að framtíð öflugs bókasafns á Kjalarnesi.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs og sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs dags. 17. maí 2023:

    Lagt er til að á menningar- og íþróttasviði verði til deild sem kennd er við útilífsborgina Reykjavík.  Þrjár skipulagseiningar yrðu þá settar fram í skipuriti sviðsins þ.e. menningarborgin, íþróttaborgin og útilífsborgin.  Þessar einingar ynnu þétt saman enda skarast sum málefni og þættir að vissu leiti.  Horft er til að sameina núverandi starfsemi sem tilheyrir menningar- og íþróttasviði þ.e. Fjölskyldu- og húsdýragarð, Siglunes og skíðabrekkur innan borgarmarkanna og starfsemi skóla- og frístundasviðs þ.e. Miðstöð útivistar og útináms og Frístundagarðsins sem nú tilheyra frístundamistöðinni Brúnni. Allar þessar starfseiningar hafa það sameiginlegt að þjónusta borgarbúa tengt útivist en jafnframt að veita fræðslu til barna- og ungmenna í skóla- og frístundastarfi ásamt því að vera í samstarfi við ýmsa hagsmunaaðila, s.s. íþróttafélög og önnur félagasamtök.

    Samþykkt.

    SFS23050012

    Fulltrúar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs leggja fram svohljóðandi bókun:

    Útilífsborgin er spennandi viðbót í fjölbreytta flóru menningar, íþrótta og útivistar í borginni en með stofnun þessarar nýju deildar sameinast á einum stað rekstur Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, starfsemi Sigluness í Nauthólsvík, skíðabrekkurnar í borgarlandinu og Miðstöð útivistar og útináms í Gufunesi sem hefur verið á vegum skóla og frístundasviðs en flyst nú yfir til hins nýja menningar- og íþróttasviðs. Útilífsborgin verður nú ein af þremur höfuðstoðum sviðsins við hliðina á menningarborginni og íþróttaborginni og skapast fjölmörg tækifæri til að sækja fram, nýta fjármuni betur og efla fjölbreytta valkosti fyrir fjölskyldufólk í borginni að njóta útivistar, náttúrufegurðar og hreyfingar í anda bættrar lýðheilsu og skemmtilegs mannlífs í borginni.

     

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um val á borgarlistamanni Reykjavíkur 2023. Lögð fram tilnefning um borgarlistamann 2023 sem útnefndur verður 17. júní 2023. Samþykkt. Trúnaðarmál fram að útnefningu.  MOF23030005

  5. Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun og gjaldskrá Siglunes sbr. fundargerð borgarráðs frá 27. apríl 2023 liður 6 og fundargerð borgarráðs frá 11. maí liður 8. FAS23050019, FAS23050017.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Siglinganámskeið fyrir börn og ungmenni í Siglunesi við Nauthólsvík hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár og eftirspurn verið langt umfram framboð. Kostnaður hefur hins vegar verið verulegur og farið fram úr áætlunum undanfarin misseri. Framtíð námskeiðanna var því óljós í samhengi við þröngan efnahag borgarsjóðs. Með tillögunni er tryggt að boðið verður upp á þessu vinsælu námskeið á komandi sumri en með breyttum formerkjum og umtalsvert lægri kostnaði fyrir borgarsjóð. Stöðugildum verður fækkað, dregið verulega úr yfirvinnu, heildartímabil námskeiðahalds stytt um eina viku og útgjöld lækkuð um tæpan helming frá raunkostnaði síðasta árs. Gjaldskrá hækkar um fjórðung milli ára sem er nauðsynleg forsenda þess að áfram verði hægt að bjóða börnum þennan valkost. Námskeiðagjöldin hafa ekki alltaf fylgt verðlagi á undanförnum árum og eru lægri en námskeiðagjöld fjölmargra sumarnámskeiða sem í boði eru í borginni og á vegum nærliggjandi sveitarfélaga.

    Fylgigögn

  6. Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvaða kostnaður var þegar fallinn eða mun falla á Reykjavíkurborg vegna framkvæmdanna við stækkun selalaugar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sem hætt hefur verið við í miðjum klíðum? Hvenær er fyrirséð að unnt gæti verið að taka upp þráðinn að nýju? Ef ekki verður ráðist í stækkun selalaugarinnar í fyrirsjáanlegri framtíð, mun þá þurfa að grípa til annarra aðgerða til að tryggja velferð dýranna?

Fundi slitið kl. 11:15

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 19. maí 2023