Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 76

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2022, mánudaginn 27. júní var haldinn 76. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í borgarráðsherbergi og hófst hann kl. 13:34. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Ásta Björg Björgvinsdóttir varamaður fyrir Sabine Leskopf, Kjartan Magnússon, Þorkell Sigurlaugsson varamaður fyrir Björn Gíslason, Kristinn Jón Ólafsson og Pawel Bartoszek. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Steinþór Einarsson skrifstofustjóri hjá ÍTR, Ómar Einarsson sviðsstjóri ÍTR, Signý Leifsdóttir verkefnastjóri hjá menningar- og ferðamálasviði og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri á skrifstofu sviðsstjóra ÍTR sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 24. júní 2022 þar sem fram kemur að Sabine Leskopf taki sæti í ráðinu í stað Aðalsteins Hauks Sveinssonar. MSS22060045

    Fylgigögn

  2. Lagt er til að Kristinn Jón Ólafsson verði kosinn varaformaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MSS22060045

    Samþykkt. 

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um hækkun frístundastyrks: ITR22060009

    Lagt er til að frístundastyrkur hækki í 75 þúsund krónur fyrir hvert barn þann 1. janúar 2023.

    Samþykkt.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Frístundastyrkurinn hefur það mikilvæga markmið að stuðla að virkri þátttöku allra barna í formlegu frístundastarfi. Tillagan felur í sér að frístundastyrkurinn hækkar um 50% fyrir hvert barn og verður 75 þúsund krónur á ári. Samhliða hækkuninni verður Íþróttabandalagi Reykjavíkur falið að gæta þess að hækkun renni fyrst og fremst til foreldra og forráðamanna viðkomandi barna til að auka þátttökuna í frístundum og létta heimilum róðurinn á tímum vaxandi verðbólgu. Þess verði gætt að hækkunin leiði ekki sjálfkrafa til samsvarandi hækkunar á iðkendagjöldum íþróttafélaganna.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um frítt í sund fyrir börn á grunnskólaaldri: ITR22060010

    Lagt er til að frítt verði í sund fyrir börn á grunnskólaaldri frá og með 1. ágúst 2022.

    Samþykkt.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Almenn þátttaka fjölskyldna í sundi er brýnt lýðheilsumál og það er stefna meirihlutans að stuðla að því að sem flestir nýti sér hinar frábæru sundlaugar í borginni. Með þessari tillögu tryggjum við að frítt verður í sund fyrir börn á grunnskólaaldri. Sömuleiðis verður boðið upp á endurgreiðslu á kortum sem foreldrar og forráðamenn hafa keypt, jafnt 10 miða kortum og 6 eða 12 mánaða kortum fyrir börn. Breytingin tekur gildi 1. ágúst og kemur því fjölskyldum til góða í sumar.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um Miðnæturopnun í sund: ITR22060011

        

    Lagt er til að sett verði af stað tilraunaverkefni í Laugardalslaug með miðnæturopnun á fimmtudagskvöldum frá og með 4. ágúst. n.k. og að þá verði opið til miðnættis eða til kl. 24:00. Um verði að ræða tilraun til áramóta en lagt verði mat á reynsluna við undirbúning fjárhagsáætlunar 2023.

    Samþykkt.

    Vísað til borgarráðs. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt eins og tillagan um hækkun frístundastyrks og frítt í sund fyrir börn er tillagan um miðnæturopnun í sund í einni sundlaug hluti af fyrstu aðgerðum meirihlutans skv. meirihlutasáttmálanum. Þetta er skemmtileg hugmynd sem mun gera góða sundlaugamenningu borgarinnar enn litskrúðugri. Ákveðið hefur verið að miðnæturopnun verði í Laugardalslaug á fimmtudagskvöldum fram til áramóta til að byrja með og reynslan síðan metin. Fyrsta miðnæturopnunin verður 4. ágúst næstkomandi og nýtist því sundlaugargestum strax í sumar.

    Fylgigögn

  6. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Um það leyti sem Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Píratar og Viðreisn efndu til meirihlutasamstarfs í borgarstjórn Reykjavíkur, birtust fregnir um það í fjölmiðlum að nýr meirihluti myndi sameina íþrótta- og tómstundasvið og menningar- og ferðamálasvið borgarinnar í eitt svið. Jafnframt yrðu ferðamál færð til forsætisnefndar borgarstjórnar. Um er að ræða viðamiklar breytingar á rekstri umræddra málaflokka og fyrir starfsmenn viðkomandi sviða. Eftir því sem næst verður komist voru starfsmenn þessara fagsviða ekki upplýstir um fyrirhugaðar breytingar fyrr en þeir heyrðu af þeim í fjölmiðlum og síðan hefur upplýsingagjöf til þeirra verið af mjög skornum skammti.Óskað er eftir ýtarlegum upplýsingum um hvort hafin sé vinna að sameiningu umræddra sviða og ef svo er, hvernig staðið sé að henni. Hefur samráð verið haft við starfsmenn sviðanna frá því nýr meirihluti tilkynnti um ákvörðunina fyrir um þremur vikum? Hefur yfirmönnum sviðanna verið falið að vinna að sameiningunni eða verður leitað til utanaðkomandi ráðgjafa og þá hverra? Hvernig verður staðið að upplýsingagjöf til starfsmanna og verður unnið að umræddum breytingum í góðu samráði við þá? ITR22060012

Fundi slitið klukkan 14:30

Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson

Pawel Bartoszek Ásta Björg Björgvinsdóttir

Kjartan Magnússon Þorkell Sigurlaugsson

PDF útgáfa fundargerðar
76._fundargerd_menningar-_ithrotta-_og_tomstundarads_fra_27._juni_2022.pdf