Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 36

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2020, mánudaginn 27. apríl var haldinn 36. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í gegnum fjarfundabúnaðinn Webex og hófst hann kl. 13.34. Viðstödd voru: Hjálmar Sveinsson, Pawel Bartoszek, Dóra Magnúsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Baldur Borgþórsson og Erling Jóhannesson áheyrnarfulltrúi BÍL. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn:  Huld Ingimarsdóttir skrifstofustjóri fjármála og rekstrar hjá MOF, Sif Gunnarsdóttir skrifstofustjóri menningarmála, Arna Schram sviðsstjóri MOF og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri hjá ÍTR sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á skuldbindingum og áhættu í rekstri MOF 2021-2025.

  2. Viðspyrna vegna menningar og lista vegna Covid-19.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks leggja fram eftirfarandi bókun:

    Í fyrstu aðgerðum Reykjavíkurborgar, vegna Covid-19 faraldursins, sem samþykktar voru í borgarráði 26. mars sl. er kveðið á um að unnar verði tillögur um aðgerðir og viðspyrnu í menningar- og listalífi. Samkvæmt upplýsingum frá Bandalagi íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar Íslands hefur samkomubann vegna COVID 19 haft gríðarleg áhrif á umhverfi sjálfstætt starfandi listamanna og hönnuða og þar með á afkomu þeirra. Fulltrúarnir telja brýnt að gripið verði til aðgerða og að settir verði auknir fjármunir í menningarpott borgarinnar vegna ársins 2020. Umsóknarfrestur verði í byrjun maí og úthlutun undir lok þess mánaðar. Úthlutunarreglur verði einfaldar og veittir verða styrkir til verkefna sem örva sköpunargleði og listræn verkefni, samræður og menningarlegt framboð í borginni næstu mánuði. Sjóðurinn verði ætlaður sjálfstætt starfandi listamönnum. Faghópi með fulltrúum frá Bandalagi íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar Íslands verði falið að meta umsóknir og gera tillögur til menningar-, íþrótta – og tómstundaráðs um úthlutun. 

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:

    Samkvæmt upplýsingum frá Bandalagi íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar Íslands hefur samkomubann vegna COVID 19 haft gríðarleg áhrif á umhverfi sjálfstætt starfandi listamanna og hönnuða og þar með á afkomu þeirra. Fulltrúi Miðflokksins vill af þessu tilefni benda Bandalagi íslenskra listamanna á að sjálfstætt starfandi listamenn og hönnuðir eiga rétt á atvinnuleysisbótum vegna samdráttar í tekjum eins og fram kemur á heimasíðu Vinnumálastofnunar vegna sérstakra laga vegna Covid-19: Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta nýtt sér úrræði laganna enda hafi þeir tilkynnt skattayfirvöldum um samdrátt í rekstri (eyðublað RSK 5.02). Sótt er um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun og ásamt því að tilkynning til Skattsins er send á stofnskra@rsk.is. Fulltrúi Miðflokksins telur eðlilegt að listamenn og hönnuðir fari þessa leið til að tryggja afkomu sína meðan ástandið varir. Það hafa þúsundir annara sjálfstætt starfandi samlanda okkar þegar gert. Fulltrúi Miðflokksins leggur hinsvegar til, að Reykjavíkurborg felli niður leigu og afnotagjald þar sem slíku verður við komið. Jafnframt skuli áður samþykktir styrkir og samningar vegna ársins 2020 halda sér og aðilar fái heimild til að fresta og breyta viðburðum án þess að verða fyrir skerðingum.

  3. Fram fer yfirferð á stöðu verkefna menningar- og ferðamálasviðs á tímum Covid-19

    -    kl. 14:40 véku Erling Jóhannesson, Sif Gunnarsdóttir, Huld Ingimarsdóttir og Arna Schram af fundi. 
      
    -    kl. 14:41 komu Ómar Einarsson sviðsstjóri ÍTR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri ÍTR og Andrés B. Andreasen fjármálastjóri ÍTR á fundinn.

  4. Fram fer kynning á skuldbindingum og áhættu í rekstri ÍTR 2021-2025.

  5. Fram fer yfirferð á stöðu verkefna ÍTR á tímum Covid-19.

Hjálmar Sveinsson Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
mit_2704.pdf