No translated content text
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 124
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð
Ár 2025, föstudaginn 10. janúar var haldinn 124. fundur menningar- og íþróttaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir varamaður fyrir Pawel Bartoszek, Kristinn Jón Ólafsson, Kjartan Magnússon, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf og Stefán Pálsson Jafnframt: Frímann Ari Ferdinardsson varaáheyrnarfulltrúi ÍBR. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Steinþór Einarsson, Andrés B Andreasen, Atli Steinn Árnason, Helga Friðriksdóttir, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á Þjóðarhöll í Laugardal. MIR24100002
Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Rætt um fjármál íþróttafélaga – MIR24050009
Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikil vinna hefur átt sér stað í þéttu samstarfi fulltrúa menningar- og íþróttasviðs, ÍBR og Fjölnis við að leita leiða til að rétta við fjárhag félagsins sem stefndi í tvísýna stöðu í byrjun síðasta árs. Umfangsmikil gagnaöflun hefur átt sér stað og mikil vinna verið lögð í að bæta áætlanagerð og ná betri yfirsýn yfir fjármál félagsins og rekstrarhorfur. Niðurstaðan er sú að nú hyllir undir bjartari tíð í fjármálum félagsins og stefnan er að skila rekstrinum í jafnvægi á árinu. Öllum hlutaðeigandi eru færðar miklar þakkir fyrir afburða störf við að ná þessum árangri undanfarna mánuði. Ráðið mun áfram fylgjast grannt með gangi mála og gegna eftirlitshlutverki sínu hér eftir sem hingað til.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á áhrifum byggingar safnskóla á þríhyrningi í Laugardal á íþróttastarfsemi. MIR24120008
Gréta Þórsdóttir Björnsson frá skrifstofu framkvæmda og viðhalds tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur áherslu á að við fyrirhugaða uppbyggingu skólamannvirkja í Laugardal verði þess gætt að framkvæmdir þrengi ekki að starfandi íþróttafélögum eða möguleikum til framtíðaruppbyggingar íþróttamannvirkja á svæðinu. Eins mætti huga að því hvaða samlegðaráhrif gætu legið í skólabyggingu og þörfum íþróttastarfs af ýmsum toga.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir furðu og óánægju með vinnubrögð Reykjavíkurborgar vegna fyrirætlana um byggingu unglingaskóla á svokölluðum Þríhyrningi, milli íþróttavallar Þróttar og skautahallarinnar í Laugardal. Knattspyrnufélagið Þróttur hefur ótímabundin og samningsbundin afnot af umræddu svæði og hefur um árabil notað það til starfsemi sinnar. Er óviðunandi með öllu að borgin tilkynni með slíkum hætti að heill skóli verði byggður á svæðinu án samráðs eða samkomulags við Þrótt og fela slík vinnubrögð í sér óvirðingu við félagið. Ljóst er að fyrirætlanir borgarinnar fara gegn samkomulagi félagsins við borgina um svæðið frá árinu 1996. Sá afnotaréttur Þróttar er án kvaða og skal haldast svo lengi sem félagið hefur starfsemi í Laugardal. Reykjavíkurborg hefur því enga heimild til að ráðstafa umræddu svæði einhliða án samkomulags við Þrótt. Óskað er eftir því að fulltrúar borgarinnar hefji formlegt samráð við Þrótt um málið þar sem forsvarsmönnum þess verði jafnóðum veittar allar upplýsingar um framvindu þess innan borgarkerfisins. Jafnframt verði fallist á þá kröfu Þróttar að svæðinu verði ekki ráðstafað án samkomulags við félagið.
- kl. 10:25 víkur Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir af fundi.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á helstu verkefnum og markmiðum stýrihóps um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík. MSS24090132.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti ráðsins tekur undir með nálgun stýrihópsins að inngilding og þátttaka borgarbúa af erlendum uppruna séu mikilvægur þáttur á sviði menningar, íþrótta og útivistar. Nú þegar er sviðið að ávarpa málaflokkinn innan gildandi stefnumótunar og með fjölda verkefna sem styðjast t.d. við þjónustu bókasafna eða þátttöku barna af erlendum uppruna í íþróttum. Stefnumótun eins og þessi sem hér er um að ræða þarf að byggja á þekkingu og áskorunum menningar- og íþróttasviðs og er sviðinu þess vegna falið að taka virkan þátt í yfirstandandi vinnu.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgarinnar dags. 8. janúar 2025 vegna skipunar dómnefndar Barnabókarverðlauna Reykjavíkurborgar – trúnaðarmál. MIR24120001.
Samþykkt.
-
Lögð fram samþykkt fyrir menningar- og íþróttaráð sem samþykkt var á fundi Borgarstjórnar Reykavíkur 17. desember 2024. MSS23010279
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins árétta þá skoðun sína að við sameiningu málaflokka íþróttamála, menningarmála og tómstundamála, verði heiti hins nýja sviðs ,,íþrótta- og menningarsvið“. Heiti ráðsins verði ,,íþrótta- og menningarráð“.
Þegar um er að ræða samsett heiti á ráðum og sviðum í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, hafa gjarnan verið teknar pólitískar ákvarðanir um hvort heitið ætti að vera á undan miðað við vægi viðkomandi málaflokka en ekki stafrófsröð. Dæmi um þetta er umhverfis- og skipulagssvið, skóla- og frístundaráð og fjármála- og áhættustýringarsvið.
Með því að láta stafrófsröð ráða í heitinu væri lögð áhersla á að þessir mikilvægu málaflokkar séu jafnréttháir í starfsemi Reykjavíkurborgar. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar virðist hins vegar vera annarrar skoðunar.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á niðurstöðum viðhorfskönnunar um gufuböð í sundlaugum Reykjavíkur MIR24120007.
Jóhanna Garðarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Til að tryggja góða og aðgengilega þjónustu við íbúa er mikilvægt að hanna og skipuleggja fjölbreytta þjónustu Reykjavíkurborgar út frá þörfum íbúa í takt við þjónustustefnu borgarinnar. Í ljósi umræðu um gufuböð ákvað því meirihlutinn að setja í gang spretthóp sem hafði það hlutverk að hafa samráð við sundlaugagesti um viðhorf til gufubaðsþjónustu í öllum sundlaugum borgarinnar. Ánægjulegt er að sjá að 95% gesta sem svöruðu könnuninni eru mjög eða frekar ánægðir með sundlaugar Reykjavíkur. Þá leiddi viðhorfskönnunin bersýnilega í ljós að flestir gestir vilja fjölbreytt framboð af gufuböðum sem eru fyrir öll kyn, en um 75% gesta eru annaðhvort hlynntir að hafa gufuböð fyrir öll kyn eða eru hlutlausir. Hafa ber í huga að niðurstöðurnar eru frábrugðnar á milli sundlauga og má sjá að gestir þeirra lauga sem bjóða í dag aðgreindar gufur fyrir konur og karla, eða infrarauða gufu, leggja meiri áherslu á það en gestir annarra lauga og mikilvægt að hafa það í huga að núverandi innviðir og vani hafa mikið að segja. Búið er að stofna nýjan spretthóp með starfsfólki og gestum sem mun byggja næstu skref á þessum niðurstöðum og leita allra leiða til að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu í sundlaugum borgarinnar í takt við menningu og þarfir.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samráð um breytingar á gufubaðsstofu Vesturbæjarlaugar sem lögð var fram á fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs 8. nóvember 2024 liður 9. MIR24110009
Tillögunni er vísað frá með 4 atkvæðum meirihluta Samfylkinar, Pírata og Viðreisnar gegn 2 akvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svofellda bókun:
Tillögunni er vísað frá þar sem þegar hefur verið samþykkt tillaga meirihlutans um spretthóp sem m.a. hefur það hlutverk að hafa samráð við sundlaugagesti um fyrirkomulag gufubaðsþjónustu í sundlaugum borgarinnar, þar með talið í Vesturbæjarlaug. Sá hópur mun skila niðurstöðum í lok næsta mánaðar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrirliggjandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samráð um breytingar á gufubaðsstofu Vesturbæjarlaugar var lögð fram á fundi menningar-, íþrótta og tómstundaráðs 8. nóvember 2024. Í 7. grein samþykktar fyrir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar segir að heimilt sé að taka mál til meðferðar í ráðinu þótt ekki sé það tilgreint á útsendri dagskrá, en skylt er þá að fresta afgreiðslu þess til næsta fundar sé þess óskað. Samkvæmt samþykktinni hefði því átt að leggja tillöguna fyrir næsta reglulega fundi ráðsins, sem var haldinn 22. nóvember. Það var hins vegar ekki gert og tillagan fyrst tekin fyrir nú eftir meira en tveggja mánaða tilefnislausa frestun. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins átelja þessi vinnubrögð og óska eftir því að framvegis verði farið eftir samþykktum ráðsins varðandi meðferð slíkra tillagna.
-
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svofellda tilllögu:
Lagt er til að hafin verði vinna við uppfærslu forgangsröðunar í uppbyggingu íþróttamannvirkja í samræmi við gildandi stefnu í íþróttamálum Reykjavíkur til ársins 2030. Leitað verði eftir sjónarmiðum íþróttafélaganna í Reykjavík, jafnt hverfisíþróttafélaga sem sérgreinafélaga. Litið verði til þeirrar vinnu sem átti sér stað árið 2020 í samráði við Íþróttabandalag Reykjavíkur og byggt á þeim grunni. Menningar- og íþróttasviði er falið að undirbúa drög að erindisbréfi stýrihóps sem skipaður yrði fulltrúum ráðsins auk fulltrúa ÍBR og leggja fyrir næsta reglulega fund menningar- og íþróttaráðs. MIR25010007
Samþykkt með atkvæðum fulltrúa Samfylkinar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Tímamótavinna varðandi forgangsröðun verkefna sem tengjast uppbyggingu íþróttamannvirkja í borginni fór fram og var samþykkt árið 2020 með niðurstöðum sem skilaði skýrum forgangslista sem unnið hefur verið eftir síðan. Nú eru tæp 5 ár liðin og tímabært að rýna stöðu einstakra verkefna á listanum og uppfæra forgangsröðunina þar sem þörf krefur. Skipaður verður stýrihópur með fulltrúum ráðsins og ÍBR sem vinna mun að málinu næstu mánuði og skila niðurstöðu til ráðsins síðar á árinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Eðlilegt væri að tillögu um uppfærslu forgangsröðunar vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja í Reykjavík fylgdi yfirlit um framvindu gildandi forgangsröðunar, sem samþykkt var árið 2020. Staðreyndin er sú að aðeins ein af þeim átján framkvæmdum, sem þá var samþykkt er í raun komin til framkvæmdar, þ.e. gervigrasvellir í Laugardal, sem voru númer þrjú á forgangslistanum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir yfirliti um stöðu allra framkvæmda, sem eru á umræddum forgangslista. Þegar svo illa hefur verið staðið við samþykkta forgangsröðun frá 2020 vaknar sú spurning hvaða tilgangi uppfærsla á henni eigi að þjóna. Vera má að tilgangur meirihlutans sé sá að búa til nýja afsökun fyrir slælega frammistöðu í uppbyggingarmálum íþróttamannvirkja með því að setja þessi mál í einn eitt ferlið og stofna enn einn starfshópinn.
Fylgigögn
-
Lögð fram starfsáætlun menningar- og íþróttaráðs til vors 2025. MIR24080005
Samþykkt.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti ráðsins lagði fram starfsáætlun í haust sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði. Nú er lögð fram starfsáætlun vormisseris 2025 og kennir þar ýmissa grasa þ.m.t. um mikilvæga stefnumótun á sviði menningarmála, uppbyggingu íþróttamannvirkja og rýni á kostum og göllum þess að færa verkefni frá öðrum sviðum til MÍT s.s. varðandi tónlistarnám og samlegð almenningsbókasafna og skólabókasafna.
Fylgigögn
-
Rætt um opinn fund menningar- og íþróttaráðs 24. janúar 2025. MIR24090004
-
Lagt fram svar skrifstofustjóra íþróttaborginnar dags. 8. janúar 2025 við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna um þátttökuhlutfall fatlaðra barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi. MIR24090006.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Svar Menningar- og íþróttasviðs við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna um hlutfall fatlaðra ungmenna í íþróttum leiðir í ljós að sáralitlar upplýsingar liggja fyrir um þátttöku fatlaðra reykvískra barna og unglinga í íþróttastarfi, en miðað við tölur á landsvísu liggur beint við að áætla að hlutfallið sé herfilega lágt. Lagt er til að Menningar- og íþróttaráð skipi vinnuhóp sem geri tillögur um aðgerðir til úrbóta með það að markmiði að stórauka íþróttaþátttöku þessara ungmenna. Hópurinn skili af sér eigi síðar en í september 2025. MIR25010006
Frestað.
- kl. 11:30 víkur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir af fundi.
-
Fulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun um fundarsköp:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera athugasemd við að tillaga þeirra um málefni Íþróttafélagsins Fylkis, sem lögð var fram á fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs 13. sesember sl., skuli ekki vera á dagskrá þessa fundar. Í 7. grein samþykktar fyrir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar segir að heimilt sé að taka mál til meðferðar í ráðinu þótt ekki sé það tilgreint á útsendri dagskrá, en skylt er þá að fresta afgreiðslu þess til næsta fundar sé þess óskað. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins átelja þessi vinnubrögð og óska eftir því að framvegis verði farið eftir samþykktum ráðsins varðandi meðferð slíkra tillagna.
Fundi slitið kl. 11:40.
Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson
Sabine Leskopf Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir
Kjartan Magnússon Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Stefán Pálsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. janúar 2025