Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 104

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2024, föstudaginn 5. janúar var haldinn 104. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:07. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Friðjón R Friðjónsson varamaður fyrir Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf og Stefán Pálsson.  Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Steinþór Einarsson og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 3. janúar 2024 vegna samstarfssamnings milli Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur.

    Samningurinn samþykktur með breytingum og vísað til staðfestingar borgarráðs.

     

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn fagnar nýjum samningi við Íþróttabandalag Reykjavíkur sem hefur það markmið að stuðla að fjölbreyttu og kraftmiklu íþróttastarf í borginni með sérstaka áherslu á íþróttir barna og ungmenna en líka afreksíþróttir, almenningsíþróttir og hreyfingu eldri borgara. Samningurinn er til þriggja ára og tryggir aukin framlög til íþróttafélaganna í borginni svo þau haldi verðgildi sínu en leggur jafnframt línur um endurskoðun á mikilvægum þáttum á borð við fyrirkomulag á samstarfi við og styrkjum til hverfisíþróttafélaga, endurskoðun á reglum um frístundastyrkinn með áherslu á að leita leiða til að auka þátttöku barna og ungmenna óháð efnahag og uppruna og samstarf um leðir til að auka þátttöku eldra fólks í hvers kyns hreyfingu og heilsurækt svo nokkuð sé nefnt en fleiri þættir verða rýndir á samningstímanum, s.s. gæðaeftirlit, meiriháttar viðhald íþróttamannvirkja og samstarf um leiðir til að draga úr brotthvarfi ungmenna úr íþróttastarfi.Varðandi eignarhald mannvirkja leggjum við áherslu á að greint verði hvaða eignarform henti best til lengdar eins og íþróttastefna Reykjavíkur leggur til að verði gert.

  2. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um og rökstuðningi fyrir þeirri nýlundu að hefja gjaldtöku af eldri borgurum á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins, sem þeir hafa haft frían aðgang að um langt skeið. Jafnframt er óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

    1.         Hve margir eldri borgarar hafa sótt skíðasvæðin árlega undanfarin ár?

    2.         Hversu lengi hafa þeir haft frían aðgang að skíðasvæðunum?

    3.         Hversu miklum tekjum er áætlað að gjaldtaka af eldri borgurum skili?

    4.         Af hverju var ekki haft samráð við Öldungaráð Reykjavíkur, Félag eldri borgara í Reykjavík og Samtök aldraðra um þá breyttu tilhögun að hefja umrædda gjaldtöku af eldri borgurum?

  3. Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram fyrirspurn um afdrif tillögu flokksins um að mótun heildarstefnu um hlutverk skólasafna í Reykjavík. Tillögunni var vísað af borgarráði til meðferðar ráðsins í mars á síðasta ári. Nýjustu fregnir af hnignandi lesfærni íslenskra ungmenna gera enn brýnna að vinna hratt og örugglega í málinu.   

Fundi slitið kl. 10:00

Skúli Helgason Pawel Bartoszek

Kristinn Jón Ólafsson Sabine Leskopf

Kjartan Magnússon Friðjón R. Friðjónsson

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 5. janúar 2024