Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð
Ár 2023, föstudaginn 15. desember var haldinn 103. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:32. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Stefán Pálsson og Frímann Ari Ferdinandsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Steinþór Einarsson, María Rut Reynisdóttir, Inga María Leifsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagður fram til kynningar samningur við Knattspyrnufélagið Val um samkomulag um uppbyggingu á reit A og J sem samþykktur var í borgarráði 14. des. 2023. MSS23120070.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkomulagið felur í sér uppbyggingu á fjölnota íþróttahúsi og endurbyggingu gervigrasvalla á svæði Vals að Hlíðarenda. Gönguleiðir iðkenda yfir fyrirhugaðan ás Borgarlínu verða tryggðar. Fyrirhugaðri uppbyggingu íbúða á svæðinu er ætlað að fjármagna gerð íþróttamannvirkja sem renna að því búnu til Reykjavíkurborgar. Við fögnum þessu samkomulagi sem mun gera góða aðstöðu fyrir iðkendur á svæðinu enn betri.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á samningi Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélagsins Vals vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja að Hlíðarenda og skipulags á A- og J-reit, nánar tiltekið á lóðum við Arnarhlíð 3 og Hlíðarenda 14. Ánægjulegt er að slíkt samkomulag hafi náðst og ljóst að þær framkvæmdir, sem kveðið er á um samkvæmt því, munu stórbæta aðstöðu til íþróttaiðkunar í Hlíðahverfi.
Eins og fram hefur komið í umræðum hér á fundinum, hefði verið æskilegt að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð fengi tækifæri til að kynna sér samninginn og gefa umsögn um hann áður en hann hlaut endanlega samþykkt í borgarráði. Enn skal minnt á að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð hefur það hlutverk að móta stefnu í íþrótta- og tómstundamálum og vera borgarráði til ráðgjafar hvað varðar verksvið þess eins og kveðið er á um í samþykkt fyrir ráðið.
Samkvæmt samkomulaginu er fyrirhugað að umferðargata verði lögð yfir íþróttasvæði barna og ungmenna og er slíkt líklega einsdæmi. Það er því afar mikilvægt að við lokahönnun svæðisins verði mikil áhersla lögð á að tryggja umferðaröryggi ungra iðkenda eins vel og kostur er. Ljóst er að það verður best gert með því að láta fyrirhugaða götu í göng undir svæðið þannig að allar gönguleiðir um íþróttasvæðið yrðu ofan jarðar.
Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna lýsir ánægju með þá megindrætti sem fram koma í samkomulagi Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélagsins Vals. Það vekur engu að síður nokkrar áhyggjur að gert sé grein fyrir því að íþróttasvæðið sé þverað með aksturbraut og er afar mikilvægt að við lokahönnun verði þess gætt að það skerði ekki nýtingu svæðisins. Eins vakna spurningar um hvort vellirnir á svæðinu verði nægilega margir miðað við ört vaxandi hverfi, t.d. er ekki gert ráð fyrir neinum grasvelli eða grasæfingarsvæði.
Sonja Wiium frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara situr fundinn undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 7. desember 2023 þar sem fram kemur að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir taki sæti sem varamaður í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Jóhönnu Dýrunnar Jónsdóttur. MSS22060045
- kl. 09:50 tekur Erling Jóhannesson áheyrnarfulltrúi BÍL sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 13. desember 2023 ásamt tillögum og greinargerð faghóps um styrkveitingar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til menningarmála 2024. Trúnaðarmál fram að úthlutun. MIR23120007
Samþykkt.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 13. desember 2023 ásamt upplýsingapakka til handhafa menningarstyrkja 2024 með upplýsingum um menningarstefnu Reykjavíkurborgar og leiðbeiningum og gátlistum um aðgengi, innigildingu og græn skref við skipulagningu viðburða. MIR23120004.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning skrifstofustjóra menningarborgar á vinnu við endurskoðun á menningarstyrkjum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 13. desember 2023 varðandi rekstrarsamninga við sjálfstætt starfandi aðila í menningarlífi borgarinnar. Lagðir fram til samþykktar rekstrarsamningar til þriggja ára við Dansverkstæðið, Heimili kvikmyndanna ses, Kling og Bang ses. og Nýlistasafnið. MIR23120005
Samþykkt.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga meirihlutans um hækkun fimm rekstrarsamninga var samþykkt í seinni umræðu fjárhagsáætlunar 2024 í síðustu viku. Samningarnir eru við aðila sem haldið hafa uppi merki grósku, frumsköpunar og framsækni í sköpun og miðlun lista og menningar í borginni á undanförnum árum og hafa ekki síst verið mikilvægur vettvangur yngstu kynslóðanna. Samningarnir eru við Kling og Bang, Nýlistasafnið, Tjarnarbíó, Dansverkstæðið og Bíó Paradís og hækka framlög borgarinnar til þessara aðila um samtals 18 m. kr á ári sem mun treysta rekstrargrundvöll þessara lykilaðila í menningarlífi borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 13. desember 2023 vegna skipunar dómnefndar Barnabókarverðlauna Reykjavíkurborgar – trúnaðarmál. MIR23120006.
Samþykkt.
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 13. desember 2023 varðandi viðauka við samninga Reykjavíkurborgar við borgarhátíðir 2023-2025 (Iceland Airwaves, Hinsegin dagar, Hönnunarmars, Óperudagar, Reykjavík Dance Festival og Reykjavík International Film Festival).
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagður fram til kynningar samningur við Hestamannafélagið Fák vegna framkvæmda á svæði félagsins vegna Landsmóts hestamanna í Víðidal 2024.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svofellda tillögu:
Menningar- íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að fallist verði á framkomna hugmynd Fjölnis um lagningu keppnisvallar og uppbyggingu áhorfendaaðstöðu við Egilshöll og leigusamning um þau mannvirki. Ljóst er að umræddar framkvæmdir munu bæta aðstæður til íþróttaiðkunar í Grafarvogi verulega og fullnægja gildandi kröfum KSÍ um leyfisveitingar vegna keppnisvalla. Þá liggur fyrir álit skipulagsstjóra um að þessar hugmyndir gangi upp skipulagslega.
Frestað
Fundi slitið kl. 11:20
Skúli Helgason Pawel Bartoszek
Kristinn Jón Ólafsson Sabine Leskopf
Stefán Pálsson Kjartan Magnússon
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. desember 2023