Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 102

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2023, föstudaginn 8. desember var haldinn 102. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:37. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Kjartan Magnússon, Helgi Áss Grétarsson varamaður fyrir Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Stefán Pálsson og Ingvar Sverrisson áheyrnarfulltrúi ÍBR.  Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Steinþór Einarsson og María Rut Reynisdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra stjórnsýslu dags. 5. desember 2023 um endurbætur á Sundhöll Reykjavíkur ásamt tillögu um breytingar á Sundhöll Reykjavíkur. R22080020

    Samþykkt.

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sundhöll Reykjavíkur eitt af mörgum glæstum mannvirkjum Guðjóns Samúelssonar hefur verið í notkun í heil 86 ár. Löngu tímabært er að gera endurbætur á gamla laugarkerinu og liggur nú fyrir endanleg tillaga um hönnun mannvirkisins sem mun skila endurbyggðu laugarkeri í innilaug, nýjum pottum á austursvölum og tveimur nýjum gufuböðum, þurrgufu og infrarauðri gufu á neðri hæð. Með þessari nýju tillögu er í öllum meginatriðum fylgt upprunalegri hönnun Guðjóns Samúelssonar í mannvirki sem hefur verið friðað í tæp 20 ár.

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja tillögu um endurbætur á Sundhöll Reykjavíkur. Ánægjulegt er að komið hafi verið á móts við ábendingar Hollvinasamtaka Sundhallarinnar um endurbæturnar. Er lagt til að áframhaldandi samráð verði haft við hollvinasamtökin um málið, t.d. með því að gefa þeim kost á að skila umsögn um fyrirliggjandi tillögu áður en verkið verður boðið út á nýju ári.

     

    Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Vinstri grænna lýsir ánægju með þær tillögur sem kynntar hafa verið að úrbótum á Sundhöllinni í Reykjavík. Þó er minnt á að á fyrri stigum máls fluttu Vinstri græn tillögu um að við hönnunarvinnu yrði litið til framkominna tillagna hóps hinseginungmenna um breytingar á búningsklefamálum laugarinnar. Tillögunni var vísað frá af meirihlutanum með þeim rökum að einungis væri ætlunin að lagfæra sjálft laugarkarið að þessu sinni. Ljóst mátti þó vera að endurbæturnar myndu vinda upp á sig og ná til fleiri þátta, líkt og í ljós hefur komið. Hér fór því gott tækifæri forgörðum til að bregðast við ágætum ábendingum ungmennanna.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf sviðstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 6. desember 2023 vegna samnings við Íþróttafélagið Leikni og Aþenu um rekstur íþróttamannvirkja í Efra-Breiðholti. MSS231200002

    Samningsdrögin samþykkt.

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ráðið fagnar því að samningur hafi náðst við íþróttafélögin Leikni og Aþenu um þríhliða samstarf varðandi rekstur íþróttamannvirkja í Efra-Breiðholti. Samningurinn felur í sér útvíkkun á gildandi samningi við Leikni þar sem íþróttahúsið að Austurbergi 3 bætist við samninginn og aðkoma Aþenu er formlega tryggð í samningi. Samkomulagið er mikilvægur liður í því að tryggja aukna fjölbreytni og stuðla að jafnrétti og inngildingu varðandi tækifæri til íþróttaiðkunar í hverfinu.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf Íþróttabandalags Reykjavíkur dags. 6. desember 2023 þar sem fram kemur að samþykkt hafi verið að veitt yrðu verðlaun í flokki íþróttakvára við val á íþróttafólki Reykjavíkur. 

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í ár eru 10 ár frá því þegar brugðið var út af gömlum vana að velja einungis íþróttamann Reykjavíkur og byrjað var að velja íþróttakarl, íþróttakonu og íþróttalið. Fögnum við fjölbreytileikanum og því skrefi sem að ÍBR hefur nú stigið til að stuðla að inngildingu fyrir öll með því að opna fyrir tilnefningar kynsegin fólks fyrir góðan árangur í íþróttum og að veita í fyrsta sinn verðlaun fyrir íþróttakvár Reykjavíkur árið 2023. Þökkum við ÍBR fyrir að taka tillögu Reykjavíkurborgar áfram frá 100. fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs þann 10. nóv. og fyrir skjóta afgreiðslu málsins. Viljum við einnig nýta tækifærið og þakka íþróttaráði Kópavogs fyrir að vera fyrirmynd í þessum málaflokki þar sem þann 19. okt. síðastliðinn uppfærðu þau reglugerð sína um kjör á íþróttafólki Kópavogs og opnuðu fyrir tilnefningar kynsegin fólks. Hlökkum við til að fagna með íþróttahreyfingunni og borgurum í Ráðhúsinu þann 13. des. næstkomandi við val á íþróttaliði, íþróttakonu, íþróttakarli og í fyrsta sinn íþróttakvári Reykjavíkur.

    • kl. 10:30 taka Erling Jóhannesson áheyrnarfulltrúi BÍL og Frímann Ari Ferdinandsson varaáheyrnarfulltrúi ÍBR sæti á fundinum.
    • kl. 10:30 víkur Ingvar Sverrisson af fundi.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 6. desember 2023 varðandi endurskoðun aðgerðaráætlunar menningarstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2030.    

    Fylgigögn

  5. Rætt um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024 og helstu atriði sem snúa að menningar- og íþróttasviði. 

    Fylgigögn

  6. Ráðinn hefur verið skrifstofustjóri menningarborgarinnar, Arnfríður Sólrún Valdimardóttir.

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Breytingar verða á forystu Menningarborgarinnar um áramótin þegar María Rut Reynisdótir hverfur til annarra starfa eftir afar farsælan feril í þágu menningarmála í borginni. Eftirmaður hennar verður Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneyti. Ráðið þakkar Maríu Rut fyrir vel unnin störf í þágu menningarmála í borginni og óskar henni velfarnaðar í nýju starfi. Arnfríður Sólrún er boðin innilega velkomin til borgarinnar að nýju og ráðið sendir henni sömuleiðis árnaðaróskir og hlakkar til samstarfsins.

    -           kl. 10:47 víkur Erling Jóhannesson af fundi.

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gervigrasvöll hjá ÍR við Skógarsel sbr. 101. fund menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. nóvember 2023 lið 10.

    Tillögunni er vísað frá með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar gegn 2 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá. 

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ítarleg vinna við forgangsröðun íþróttamannvirkja fór fram á seinasta kjörtímabili og lauk árið 2020. Niðurstaðan var sameiginleg niðurstaða ÍBR og Reykjavíkurborgar og unnið hefur verið eftir henni. Eðlilegt er að rýna þá forgangsröðun reglulega og er eðlilegt að þessi hugmynd og aðrar óskir íþróttafélaga verði teknar fyrir í næstu endurskoðun. Ekki þykir hins vegar rétt að taka einstaka óskir fram fyrir röðina áður en sú vinna fer af stað og er tillögunni því vísað frá.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir fundinum lá tillaga Sjálfstæðisflokksins um lagningu gervigrasvallar á svæði Íþróttafélags Reykjavíkur við Skógarsel. Brýn þörf er fyrir slíkan völl vegna mikils og vaxandi fjölda knattspyrnuiðkenda hjá ÍR, sem rekur nú eina fjölmennustu knattspyrnudeild landsins. Þá er ljóst að núverandi keppnisvöllur  stenst ekki kröfur, sem Knattspyrnusamband Íslands gerir til leikjaumgjarðar í Lengjudeildinni og er því brýnt að tryggja að ÍR geti leikið heimaleiki sína á eigin félagssvæði. Það veldur því vonbrigðum að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar skuli kjósa að vísa tillögunni frá og gefa þannig til kynna að málið sé ekki einu sinni á dagskrá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvetja meirihlutann til að endurskoða afstöðu sína til málsins, hefja undirbúning að umræddri vallarlagningu og koma henni til framkvæmdar sem fyrst. 

  8. Lögð fram útskrift úr fundargerð borgarráðs frá 23. nóv. 2023 um breytingu á rekstrarfyrirkomulagi íþróttahúsa í eigu Reykjavíkurborgar.

    Fylgigögn

  9. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að hafinn verði undirbúningur að byggingu hálfs knatthúss ásamt áhaldahúsi á félagssvæði Knattspyrnufélagsins Fram, sem þjónar íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal, eins og kveðið er á um í gildandi samningi milli félagsins og Reykjavíkurborgar frá 8. september 2017. Miðað skal við að byggingarframkvæmdir hefjist á árinu 2025 og að knatthúsið verði tilbúið til notkunar á árinu 2026. En í framkvæmdaáætlun, sem gerð var í tengslum við áðurnefndan samning, var gert ráð fyrir að knatthúsið yrði byggt 2019-2020.

    Frestað.

  10. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Menningar- íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að gervigras verði endurnýjað á æfingavelli Knattspyrnufélagsins Fram, sem þjónar íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal. Ekki hefur verið skipt um gervigras á vellinum síðan hann var lagður árið 2011 og er slík endurnýjun því orðin afar brýn.

    Frestað.

Fundi slitið kl. 11:30

Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson

Pawel Bartoszek Sabine Leskopf

Kjartan Magnússon Helgi Áss Grétarsson

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. desember 2023