Mannréttindaráð
Ár 2012, 11. september var haldinn 98. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.15. Fundinn sátu Margrét K. Sverrisdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Magnús Þór Gylfason, Ingibjörg Stefánsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir, Elín Sigurðardóttir, og SJÓN. Jafnframt sátu fundinn Anna Kristinsdóttir og Halldóra Gunnarsdóttir sem var fundarritari.
Þetta gerðist:
1. Bæklingnum Við og börnin okkar dreift á fundinum. Mannréttindaráð fagnar útgáfu bæklingsins og þakkar starfsfólki mannréttindaskrifstofu fyrir vinnuna við hann.
2. Fjárhagsrammi mannréttindaskrifstofu fyrir árið 2013 kynntur.
3. Tölvufærninámskeið - samstarf kynslóða. Bjarndís Arnardóttir mætti á fundinn og kynnti stöðu verkefnisins. Mannréttindaráð fagnar því hversu vel hefur tekist til að með samstarf kynslóða í tölvufærninámskeiðum og óskar eftir að leitað sé leiða til að efla slíkt samstarf enn frekar.
4. Tekin fyrir tillaga frá samráðsvefnum Betri Reykjavík frá 31.08.2012 um að leyfa Gídeon mönnum að koma aftur inn í skóla borgarinnar.
Borgarráð samþykkti á síðastliðnu ári tillögu mannréttindaráðs að reglum um samskipti skóla og trúfélaga. Heimsóknir Gídeonfélaga falla þar undir greinina um trúboð í skólum. Ákveðið var að skólar borgarinnar myndu starfa samkvæmt reglunum í eitt ár. Að því loknu mun starfshópur á vegum Skóla- og frístundasviðs meta reynsluna af því fyrirkomulagi og verður þessari tillögu komið á framfæri við hann.
5. Ferðaþjónusta fatlaðra. Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að mannréttindaráð óski þess að borgarráð sendi tillögur vinnuhóps Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um sameiginlegt útboð sveitarfélaga á akstri vegna ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk til umsagnar mannréttindaráðs þar sem sú þjónusta sem um ræðir er brýnt mannréttindamál fatlaðs fólks.
Greinargerð:
Fulltrúi VG í mannréttindaráði telur brýnt að tillaga vinnuhóps Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um útboð á ferðaþjónustu fatlaðs fólks komi til umsagnar ráðsins. Mikilvægt er að mannréttindaráð fái tillöguna til umsagnar í ljósi þess að hún varðar þjónustu sem fjallað er um í Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar en þar segir meðal annars; Reykjavíkurborg sem miðstöð þjónustu skal tryggja jafnan aðgang að þjónustu fyrir fatlaða og ófatlað fólk. Það virðist oft verða þannig að margir líti á þjónustu Reykjavíkurborgar við fatlað fólk einungis sem velferðarmál, en gleymi þeim mikilvægu mannréttindasjónarmiðum sem þjónustunni fylgir.
Tillögunni frestað til næsta fundar en þá mun kynning á málinu fara fram.
6. Kynbundinn launamunur. Fulltrúar Sjálfsæðisflokksins óska eftir umræðu um kynbundin launamun hjá Reykjavíkurborg á fyrsta fundi í október.
Fundi slitið kl. 13.08.
Margrét K. Sverrisdóttir
Þórey Vilhjálmsdóttir SJÓN
Magnús Þór Gíslason Ingibjörg Stefánsdóttir
Elín Sigurðardóttir Margrét Kristín Blöndal