Mannréttindaráð
Ár 2012, 18. september var haldinn 99. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.19. Fundinn sátu Margrét K. Sverrisdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Magnús Þór Gylfason, Ingibjörg Stefánsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir, Elín Sigurðardóttir, og Heiða K. Helgadóttir. Jafnframt sátu fundinn Anna Kristinsdóttir og Jóna Vigdís Kristinsdóttir sem var fundarritari.
Þetta gerðist:
1. Útboð á akstri vegna ferðaþjónustu fatlaðra.
Umsögn fulltrúa Samfylkingar, Besta flokks og Sjálfstæðisflokks um tillögur vinnuhóps Sambands sveitarfélaga um sameiginlegt útboð sveitarfélaga á akstri vegna ferðaþjónustu við fatlað fólk.
Ferðaþjónusta fatlaðs fólks er lögboðin þjónusta sveitarfélaga (lög nr. 59/1992). Markmið laganna er ,,að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til að lifa eðlilegu lífi“.
Mannréttindaráð Reykjavíkur leggur ríka áherslu á að mannréttinda fatlaðs fólks verði gætt sérstaklega í þessu ferli og að unnið verði að þjónustu við fatlað fólk í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.
Markmið fyrirhugaðra breytinga er að þróa þjónustuna í takt við þarfir notenda, gera hana sveigjanlegri og að þjónustustig verði eflt. Notendur verði hafðir með í ráðum við gerð útboðsgagna þar sem þjónustuviðmið verða skilgreind.
Mannréttindaráð leggur áherslu á þau sjálfsögðu mannréttindi fatlaðs fólks að almenningssamgöngur skuli vera öllum aðgengilegar en minnir jafnframt á að 35. gr. laga um ferðaþjónustu fatlaðs fólks þar sem segir: ,,Sveitarfélög skulu gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks er að gefa þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda“.
Meðan almenningssamgöngur geta ekki mætt þörfum stórs hóps fatlaðs fólks felst virðing við hópinn í því að viðurkenna að hann þarfnist sértækra úrræða og leita leiða til að mæta þeirri þörf.
Umsögnin var samþykkt með fimm atkvæðum gegn einu. Enn fulltrúi sat hjá.
Fulltrúi vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu að umsögn:
Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir; Reykjavíkurborg sem miðstöð þjónustu skal tryggja jafnan aðgang að þjónustu fyrir fatlaða og ófatlað fólk. Þjónusta skal taka mið af þörfum ólíkra hópa fatlaðs fólks.
Í ljósi þessa telur fulltrúi Vinstri grænna í mannréttindaráði mikilvægt að Reykjavíkurborg móti sér þá framtíðarsýn að ferðaþjónusta fatlaðs fólks verði sjálfssagður hluti almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í mannréttindastefnu Reyjavíkurborgar er tekið fram að óheimilt sé að mismuna fólki vegna fötlunar og að unnið skuli markvisst að því að gera fötluðum kleift að taka virkan þátt í borgarsamfélaginu. Með því að nýta fyrirtækið Strætó b.s sem er í almannaeigu til að sinna þessarri þjónustu er hægt að vinna markvisst gegn samfélagi aðsilnaðar á höfuðborgarsvæðinu. Ef að Strætó b.s fær að sinna ferðaþjónustu við fatlað fólk til framtíðar myndi það einnig virka hvetjandi fyrir fyrirtækið til þess að gera vagnana aðgengilegri ýmsum hópum fatlaðra en ella myndi verða. Með því að Strætó b.s sinni þessarri þjónustu skapast einnig aðstæður til að samræma þjónustuna á höfuðborgarsvæðinu og endurskoða reglur um ferðaþjónustu fatlaðs fólks og að eitt þjónustuver sinni öllum sveitarfélögunum.
Tillagan var felld með fimm atkvæðum gegn tveimur.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Tillaga SSH gengur út á það að ferðaþjónusta fyrir fatlaða verði boðin út á starfssvæði samtakanna en um er að ræða Reykjavík, Kópavog, Hafnarfjörð, Garðabæ, Álftanes, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu reka byggðasamlagið Strætó en meginhlutverk þess er a sinna almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. „Undir þetta hlutverk fellur rekstur almenningsvagna (strætó), ferðaþjónusta fatlaðra og ferðaþjónusta eldri borgara”. Segir m.a um hlutverk fyrirtækisins á heimasíðu þess. Í þessari skilgreiningu Strætó b.s felst sú hugsun að almenningssamgöngur séu grunnþjónusta fyrir alla, án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðanna, kynferðis, kynhneigðar, efnahags, ætternis, heilsufars, fötlunar eða aldurs. Fulltrúi Vinstri grænna í mannréttindaráði leggst gegn hugmyndum um útvistun á grunnþjónustu við fatlað fólk í Reykjavík og ítrekar að í mannréttindastefnu borgarinnar kemur fram að Reykjavíkurborg beri sem miðstöð þjónustu að tryggja jafnan aðgang fatlaðra og ófatlaðra að þjónustu borgarinnar þ.m.t almenningssamgöngum.
Lögð fram yfirlýsing frá Sjálfsbjörgu, landssambandi fatlaðra dags. 13.09.12
Fundi slitið kl. 13.09
Margrét K. Sverrisdóttir
Þórey Vilhjálmsdóttir Heiða Kristín Helgad
Magnús Þór Gylfason Ingibjörg Stefánsdóttir
Elín Sigurðardóttir Margrét Kristín Blöndal