No translated content text
Mannréttindaráð
Ár 2011, 11. október, var haldinn 78. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.15. Fundinn sátu Margrét Sverrisdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Bjarni Jónsson, Þórey Vilhjálmsdóttir, Björn Gíslason, og Elín Sigurðardóttir. Jafnframt sátu fundinn Halldóra Gunnarsdóttir og Jóna Vigdís Kristinsdóttir sem var fundarritari.
Þetta gerðist:
1. Björg Jónsdóttir og Gunnar E. Sigurbjörnsson kynntu starfssemi Samfés.
2. Kynning á nýsköpunarsjóðverkefni námsmanna Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar „ Pornography as Work Culture and Cultural Phenomenon“. Thomas Brorsen Smidt kynnti.
3. Lögð fram drög að erindisbréfi starfshóps sem ætlað er að vinna gegn áhrifum staðlaðra kynjamynda dags.10.11.11 ( R-11100252). Fram komu ábendingar og mun Halldóra Gunnarsdóttir taka mið af þeim við áframhaldandi vinnu með starfshópnum.
4. Reglur um samskipti leik-og grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar við trúar-og lífsskoðunarfélög sem samþykktar voru í borgarstjórn 4. október sl. lagðar fram. (R-09030100).
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Með afgreiðslu borgastjórnar á tillögu að reglum um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðunarfélög lýkur langri og óskemmtilegri sögu þessa máls innan borgarkerfisins. Allur ferill málsins hefur einkennst af þekkingarleysi á stjórnsýslu og virðingarleysi gagnvart skólasamfélaginu og þeim fjölmörgu sem hafa boðið fram krafta sína í þeim tilgangi að ná sátt í þessu viðkvæma máli. Lögfræðilegt álit borgarlögmanns þess efnis að meirihluti mannréttindaráðs hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að setja leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum samskiptareglur undirstrikar bráðlæti meirihlutans í þessu máli. Þær reglur sem borgarstjórn hefur nú samþykkt hafa tekið nokkrum jákvæðum breytingum frá upphaflegum tillögum meirihluta mannréttindaráðs en eru þó unnar án þess að stofnað hafi verið til umræðu og samráðs við þá sem láta sig málið varða. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í mannréttindaráði ítreka að betur hefði verið farið aðeins hægar í sakirnar og unnið náið með hagsmunaaðilum, foreldrum og skólastjórnendum.
Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Flokkarnir þrír sem að tillögunni standa byggðu hana á skýrslu starfshóps frá árinu 2007 ,,Skýrsla starfshóps um samstarf kirkju og skóla“ þar sem kom fram að það væri samdóma álit starfshópsins að mikilvægt væri að móta starfsreglur um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa. Samráð var haft við alla helstu hagsmunaaðila í starfi þess starfshóps. Meginviðmið mannréttindaráðs er að beinar heimsóknir fulltrúa trúfélaga á skólatíma í þeim tilgangi að boða trú, séu ekki heimilar. Þetta er gert af virðingu við mannréttindi barna og foreldra og er á engan hátt beint gegn einu trúfélagi öðrum fremur. Í samþykktum mannréttindaráðs er skýrt kveðið á um að ráðinu beri að gera tillögur til borgarráðs eins og gert var í þessu tilviki. Enginn flýtir var viðhafður við vinnslu málsins og var því vísað til menntaráðs, íþrótta- og tómstundaráðs og velferðarráðs borgarinnar til umsagnar og tekið fullt tillit til þeirra athugasemda sem þaðan bárust. Rétt er að ítreka að námskrá í kristnum fræðum er og verður óbreytt og vandséð að kristni sé sett til hliðar í skólastarfi meðan svo er. Gjarnan hefur verið rætt um að samstarf skóla og lífskoðunarfélaga skuli vera á forsendum skólans og þær forsendur hafa ekki legið fyrir fyrr en nú.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskað bókað:
Í skýrslu Menntasviðs frá árinu 2007 um samstarf kirkju og skóla stendur: „Starfshópurinn velti fyrir sér í hverju samstarf milli leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa gæti verið fólgið. Aðalatriði að mati hópsins er eins og fram kemur í tillögunum að samstarfið byggi á skilningi og virðingu fyrir hlutverki hvors annars. Hvernig samstarfið mótast er í valdi hvers skóla (leik- og grunn) og þeirra stofnana sem þeir eiga samstarf við“. Það er með öðrum orðum ekki mælt með miðstýringu heldur að mið sé tekið af aðstæðum í hverjum skóla enda eru skólar borgarinnar margbreytilegir og samsetning nemenda ólík. Það er því augljóslega rangt sem haldið er fram í tillögu meirihluta mannréttindaráðs að lagt sé til í umræddri skýrslu að settar verði miðlægar reglur um samskipti skóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðunarfélög.
Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Í Mannréttindastefnu Reykjavíkur segir í greininni ,,Reykjavíkurborg sem miðstöð þjónustu“: ,,Þjónusta skal einkennast af jákvæðum, fordómalausum samskiptum og gagnkvæmri virðingu, óháð trú eða stjórnmálaskoðunum fólks. Í uppeldis- og tómstundastarfi, menntun og fræðslu skal tekið tillit til ólíkra siða er tengjast mismunandi trúarbrögðum. Ekki er gengið út frá því að allir aðhyllist sömu trú og mikilvægt er að ólík trúarbrögð séu kynnt með viðeigandi kennsluefni og áhersla sé lögð á fjölbreytileika þar sem því verður við komið.“ Mannréttindaráði ber að hafa þessa stefnu að leiðarljósi í störfum sínum og ástæða er til að ítreka að kennsla leik- og grunnskólabarna í Reykjavík er og verður samkvæmt aðalnámskrá og að borgaryfirvöld bera fullt traust til skólastjórnenda þó svo settur sé rammi um samstarf skóla við trúfélög.
Fundi slitið kl. 14.15
Margrét Sverrisdóttir
Björn Gíslason Margrét Kristín Blöndal
Þórey Vilhjálmsdóttir Bjarni Jónsson
Elín Sigurðardóttir