No translated content text
Mannréttindaráð
Ár 2011, 6. júní, var haldinn 74. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.15. Fundinn sátu Margrét K. Sverrisdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Bjarni Jónsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Elín Sigurðardóttir, Björn Gíslason og Stefán Benediktsson. Jafnframt sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Halldóra Gunnarsdóttir sem var fundarritari.
Þetta gerðist:
1. Aðgerðaráætlun í jafnréttismálum. Drög lögð fram til kynningar.
2. Starfsdagur mannréttindaráðs/mannréttindafulltrúa/mannréttindaskrifstofu vegna undirbúnings starfs og fjárhagsáætlunar á hausti komandi. Ákveðið að vera með starfsdaginn 23. september eftir hádegi.
3. Baráttudagur kvenna 19. júní. Mannréttindaráð minnir á samþykkt borgarráðs frá 6. júlí um að heiðra minningu baráttukvenna fyrir kvenfrelsi þann 19. júní í samstarfi við kvennasamtök.
4. Tillaga um kynjaða hagstjórn.
Frestað.
5. Styrkumsókn utan umsóknartíma frá NEI-Hreyfing gegn kynbundnu ofbeldi. Mannréttindaráð samþykkir samhljóða kr. 100.000 styrk til verkefnisins.
- Bjarni Jónsson víkur af fundi kl. 13.00 og í hans stað hans tekur sæti Stefán Benediktsson. Heiða Kristín Helgadóttir mætir á fundinn kl. 13.00.
6. Tillaga mannréttindaráðs um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Tillögunni vísað til borgarráðs.
Samþykkt með atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Besta flokks og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks voru á móti tillögunni.
Bókun fulltrúa Samfylkingar, Besta flokks og Vinstri grænna um skólastarf í Reykjavík og trúar- og lífsskoðunarmál:
Flokkarnir þrír byggja tillögu sína á skýrslu starfshóps frá árinu 2007 ,,Skýrsla starfshóps um samstarf kirkju og skóla“ þar sem kom fram að það væri samdóma álit starfshópsins að mikilvægt væri að móta starfsreglur um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa. Gjarnan hefur verið rætt um að samstarfið skuli vera á forsendum skólans og þær forsendur hafa ekki legið fyrir fyrr en nú. Meginviðmið mannréttindaráðs er að beinar heimsóknir fulltrúa trúfélaga á skólatíma og í þeim tilgangi að boða trú, séu ekki heimilar. Þetta er gert af virðingu við mannréttindi barna og foreldra og er á engan hátt beint gegn einu trúfélagi öðrum fremur. Tillagan byggir á Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, en þar segir m.a.: Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar byggir á mannréttindum og jafnræðisreglunni. Stefnan miðar að því að allir borgarbúar njóti jafns réttar, án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.
Í Mannréttindastefnunni segir einnig í greininni ,,Reykjavíkurborg sem miðstöð þjónustu: ,,Þjónusta skal einkennast af jákvæðum, fordómalausum samskiptum og gagnkvæmri virðingu, óháð trú eða stjórnmálaskoðunum fólks. Í uppeldis- og tómstundastarfi, menntun og fræðslu skal tekið tillit til ólíkra siða er tengjast mismunandi trúarbrögðum. Ekki er gengið út frá því að allir aðhyllist sömu trú og mikilvægt er að ólík trúarbrögð séu kynnt með viðeigandi kennsluefni og áhersla sé lögð á fjölbreytileika þar sem því verður við komið. “Mannréttindaráði ber að hafa þessa stefnu að leiðarljósi í störfum sínum og ástæða er til að ítreka að kennsla leik- og grunnskólabarna í Reykjavík er og verður samkvæmt aðalnámskrá og að borgaryfirvöld bera fullt traust til skólastjórnenda þó svo settur sé rammi um samstarf skóla við trúar og lífsskoðunarfélög.
Tillögunni var vísað til menntaráðs, íþrótta- og tómstundaráðs og velferðarráðs til umsagnar og nú til borgarráðs til afgreiðslu.
Mannréttindaráð leggur til að reglur þessar gildi í 2 ár frá og með skólaárinu 2011 til 2012 til reynslu og verði endurskoðaðar að þeim tíma liðnum ef þörf er á.
Fulltrúar Sjálfstæðiflokks óska bókað:
Tillaga meirihluta mannréttindaráðs um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar og lífsskoðunarfélög hefur vakið sterk viðbrögð meðal borgarbúa og verið harðlega gagnrýnd á opinberum vettvangi. Hún er sett fram án nokkurs sjáanlegs tilefnis og án nokkurs faglegs undirbúnings. Tillagan er illa unnin og vandlega haldið innan veggja borgarkerfisins. Öllu samstarfi við þá fjölmörgu sem hafa tjáð sig um málið hefur verið hafnað. Góð sátt hefur ríkt um samskipti skóla og trúar- og lífsskoðunarfélaga og því augljóslega engin ástæða til þess að þvinga fram breytingar með óskiljanlegum hraða í gegnum borgarkerfið og án alls utanaðkomandi samráðs. Vinnubrögð ráðsins hafa dregið úr trúverðugleika þess og virðingu meðal almennings. Þau hafa kallað fram umræðu um að baki búi aðrar hvatir en þær sem byggja á réttlæti og sanngirni. Í skýrslu Menntasviðs frá árinu 2007 um samstarf kirkju og skóla stendur: „Starfshópurinn velti fyrir sér í hverju samstarf milli leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa gæti verið fólgið. Aðalatriði að mati hópsins er eins og fram kemur í tillögunum að samstarfið byggi á skilningi og virðingu fyrir hlutverki hvors annars. Hvernig samstarfið mótast er í valdi hvers skóla (leik- og grunn) og þeirra stofnana sem þeir eiga samstarf við“. Það er með öðrum orðum ekki mælt með miðstýringu heldur að mið sé tekið af aðstæðum í hverjum skóla enda eru skólar borgarinnar margbreytilegir og samsetning nemenda ólík. Það er því augljóslega rangt sem haldið er fram í tillögu meirihluta mannréttindaráðs að lagt sé til í umræddri skýrslu að settar verði miðlægar reglur um samskipti skóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðunarfélög. Með tillögunni er verið að gera viðurkennt félagsstarf barna og unglinga sem fram fer á vegum trúar- og lífsskoðunarhópa tortryggilegt. Þetta starf stendur fjölskyldum til boða endurgjaldslaust og þúsundir barna og unglinga sem njóta góðs af á hverju ári. Allir sem bjóða börnum upp á uppbyggilegt og skipulagt starf eiga að sitja við sama borð. Gagnkvæm virðing þarf að ríkja í samstarfi borgarstofnana við alla þá sem koma að þjónustu og tómstundatilboðum til borgarbúa. Það er þó ekki skoðun mannréttindaráðs sem jaðarsetur tómstundastarf unglinga á vegum trúar og lífsskoðunarhópa. Fulltrúar Samfylkingar, Besta flokks og Vinstri grænna í mannréttindaráði sendu tillögur sínar til umsagnar velferðarráðs, íþrótta- og tómstundaráðs og menntaráðs. Ábendingum um að taka upp víðtækt samráð var hafnað. Umsagnir fagráðanna þriggja voru fyrirsjánalegar og fyrirfram gefnar. Sú leið sem valin var endurspeglar ekki virðingu fyrir mannréttindum. Hefði verið sannur vilji til þess að fjalla fordómalaust um samskipti skóla og trúfélaga og lífsskoðunarhópa hefði augljóslega átt að taka upp samvinnu við foreldra, skóla, nemendur, fræðimenn, þjóðkirkju og trúar- og lífsskoðunarfélög. Andstaða borgarbúa við vinnubrögð af þessu tagi hefur komið skýrt fram en ekki er sjáanlegur vilji til að virða skoðanir þeirra.
Fulltrúar Samfylkingar, Besta flokks og Vinstri grænna óska bókað:
Ekki er hægt að tala um skort á samráði við vinnslu tillögu um skólastarf í Reykjavík og trúar- og lífsskoðunarmál. Fjölmargir áttu sæti í starfshópi um samstarf kirkju og skóla árið 2007 m.a. fulltrúar frá kennurum, skólastjórnendum, Biskupsstofu, Alþjóðahúsi auk þess sem fjölmargir aðrir hagsmunaaðilar með sérþekkingu á viðfangsefninu voru kallaðir til samráðs. Auk þess áttu eftirtaldir aðilar fulltrúa í menntaráði þegar umsögn um tillöguna var unnin; SAMFOK, félag Skólastjórnenda, Börnin okkar (samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík), Kennarafélag Reykjavíkur, fulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks leikskóla. Það er fráleitt að tala um flýtimeðferð þessarar tillögu þar sem mikil vinna var lögð í að endurskoða tillöguna með tilliti til framkominna umsagna fagráða og athugasemda. Ráðum var gefinn óvenju rúmur frestur til að skila inn umsögnum um tillöguna.
Fulltrúar Sjálfstæðiflokks óska bókað:
Skýrsla starfshóps um samstarf skóla við trúar- og lífsskoðunarhópa var unnin á grundvelli hlutleysis og víðtæks samráðs. Mannréttindaráð hefði átt að taka sér til fyrirmyndar það vinnuferli sem menntaráðs samþykkti árið 2006 og starfshópurinn vann eftir. Sá starfshópur byggði niðurstöður sínar m.a. á skoðanakönnun í leik- og grunnskólum borgarinnar og undirbjó sínar niðurstöður vandlega. Tímabært er að gera sambærilega könnun í leik og grunnskólum nú og vinna úr þeim. Eina ástæðan fyrir því tillaga meirihluta mannréttindaráðs og fulltrúa VG hefur ekki farið svo hratt í gegnum borgarkerfið eins og að var stefnt eru þau mjög sterku og neikvæðu viðbrögð sem það hefur fengið meðal borgarbúa. Mál sem þetta þarf að vinna af yfirvegun og af sönnum vilja til samráðs og samtals.
Fundi slitið kl.14.05
Margrét K. Sverrisdóttir
Margrét Kristín Blöndal Júlíus Vífill Ingvarsson
Elín Sigurðardóttir Björn Gíslason
Heiða Kristín Helgadóttir Bjarni Jónsson
Stefán Benediktsson