No translated content text
Mannréttindaráð
MANNRÉTTINDANEFND
Ár 2006, miðvikudaginn 18. október, hélt mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar 6. fund sinn. Var fundurinn haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:00. Viðstaddir voru: Marsibil J. Sæmundardóttir, Sif Sigfúsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sóley Tómasdóttir og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir. Jafnframt sat fundinn Halldóra Gunnarsdóttir, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Sumarskólinn, aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi, kynning.
Björg Árnadóttir, Helga Björnsdóttir og Eyrún Björk Valsdóttir kynntu verkefnið. Unnin var skýrsla um verkefnið og er hana að finna á vef Námsflokkanna.
2. Landnemaskólinn, kynning.
Martha Árnadóttir og Björk Ólafsdóttir kynntu verkefnið ,,Skóli fyrir landnema”. Lagðar fram upplýsingar um verkefnið.
3. Ráðning mannréttindaráðgjafa Reykjavíkurborgar.
Lagður fram listi yfir umsækjendur um starf mannréttindaráðgjafa. Formaður nefndarinnar gerði grein fyrir því að Þórhildur Líndal hefði verið ráðin.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óska bókað vegna ráðningar í stöðu mannréttindaráðgjafa Reykjavíkurborgar:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óska eftir upplýsingum um menntun og fyrri störf nýráðins mannréttindaráðgjafa Reykjavíkurborgar. Jafnframt óska fulltrúarnir eftir upplýsingum um hvaða umsækjendur töldust hæfir og útskýringum á því hvað réði úrslitum um ráðningu. Óskað er eftir að upplýsingarnar berist fulltrúum fyrir lok vikunnar.
4. Lögð fram til afgreiðslu tillaga fulltrúa Vinstri grænna um stofnun starfshóps til eflingar móðurmálskennslu fyrir tvítyngd börn:
Fulltrúi Vinstri grænna í Mannréttindanefnd leggur til að settur verði á laggirnar starfshópur sem vinni tillögur til eflingar móðurmálskennslu fyrir tvítyngd börn í grunnskólum Reykjavíkur. Starfshópurinn verði skipaður pólítískum fulltrúum frá mannréttindanefnd og menntaráði, einum starfsmanni beggja sviða og fulltrúa frá Alþjóðahúsi.
Frestað að beiðni fulltrúa Vinstri grænna í mannréttindanefnd.
5. Lögð fram til afgreiðslu tillaga fulltrúa Vinstri grænna um þýðingu kjarasamninga á helstu tungumál innflytjenda:
Fulltrúi Vinstri grænna í mannréttindanefnd leggur til að kjarasamningar Reykjavíkurborgar við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Eflingu og önnur stéttarfélög sem borgin hefur samið við verði þýddir yfir á helstu tungumál innflytjenda í Reykjavík.
Tillögunni vísað frá.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Stéttarfélög sjá um útgáfu kjarasamninga og kynningu á þeim. ASÍ er að vinna bækling á ýmsum tungumálum um réttindi og skyldur starfsmanna og í bígerð er hjá BSRB að gera slíkt hið sama. Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks telja æskilegt að fá upplýsta umræðu um málið í nefndinni og óska eftir því að fá á sinn fund fulltrúa stéttafélaganna.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óska bókað vegna tillögu um þýðingu kjarasamninga yfir á erlend tungumál:
Vissulega er jákvætt að fá fulltrúa stéttarfélaganna inn á fund nefndarinnar til að upplýsa fulltrúa um stöðu mála. Aftur á móti er afar mikilvægt að mannréttindanefnd beiti sér fyrir því að kjarasamningar séu þýddir. Þó svo þýðingin ætti að vera á herðum stéttarfélaga ætti Reykjavíkurborg sem atvinnurekandi að taka málin í sínar hendur, standi þau ekki að sómasamlegri kynningu fyrir þennan hóp starfsfólks. Fulltrúum Vinstri grænna og Samfylkingar þætti því eðlilegra að fresta tillögunni þar til eftir kynningu frá stéttarfélögunum en að vísa henni frá.
6. Lögð fram til afgreiðslu tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar um ósk þess efnis að Menntasvið geri úttekt á stöðu túlkaþjónustu:
Fulltrúi Samfylkingarinnar í mannréttindanefnd óskar eftir að Menntasviði verði falið að gera úttekt á stöðu túlkaþjónustu fyrir grunnskólabörn í Reykjavík. Borið hefur á því að börn sem hefja skólagöngu sína án þess að kunna íslensku hafa ekki fengið fullnægjandi túlkaþjónustu. Mikilvægt er að börn að erlendum uppruna nái fljótt og vel að fóta sig í gunnskólakerfi borgarinnar og er það í samræmi við nýsamþykkta mannréttindastefnu borgarinnar þar sem m.a. segir í grein 8.3.1 ,,Allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og fræðsla á vegum borgarinnar taki mið af þörfum fólks af erlendum uppruna og veiti þeim sérstakan stuðning og íslenskukennslu til þess að þau fái notið þess til jafns á við önnur börn. Niðurstaða úttektarinnar verði lögð fyrir bæði mannréttindanefnd svo og menntaráð til frekari umræðu.
Tillögunni vísað frá.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Það er ekki á valdi Mannréttindanefndar að fela Menntasviði að gera úttektir. Samkvæmt upplýsingum frá Menntasviði er foreldrum leik- og grunnskólabarna sem ekki tala íslensku alltaf boðin túlkaþjónusta sem greidd er af skólunum. Þetta á m.a. við um upphaf skólagöngu. Ef reyndin er önnur þarf að skoða þau tilvik áður en farið er í kostnaðarsama úttekt. Mannréttindanefnd felur starfsmanni nefndarinnar að senda fyrirspurn til Menntasviðs um hvort slík tilvik hafi komið upp og þá hvers vegna.
7. Lögð fram til afgreiðslu tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar um stofnun starfshóps til að framfylgja grein 8.2.3 í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar:
Fulltrúi Samfylkingarinnar í mannréttindanefnd leggur til að starfshópur verði stofnaður til að leggja á ráðin um hvernig best verði að framfylgja gein 8.2.3. en í henni segir m.a. ...”Innflytjendum sé gefinn kostur á starfstengdu íslenskunámi eftir því sem þörf er á og fái fræðslu um starfsáætlun, þjónustumarkmið og menningu vinnustaðarins.”
Eins og ítrekað hefur komið fram hjá hagsmunahópum innflytjenda og sérfræðingum hjá Alþjóðahúsi þá er íslenska lykilinn að því að fólk af erlendum uppruna nái að aðlagast. Reykjavíkurborg hefur fyrst sveitafélaga tryggt starfsmönnum sínum starfstengdra íslenskukennslu með nýrri mannréttindastefnu. Það er brýnt að strax verði hafist handa við að finna með hvaða hætti er best að bjóða upp á kennsluna og kynna starfsmönnum möguleika sína á íslenskukennslu. Þá er mikilvægt að bjóða upp á íslenskukennslu á vinnutíma en eins og oft hefur verið bent á vinnur mikill fjöldi innflytjenda langan vinnudag auk þess sem það er hagur borgarinnar að allir starfsmenn skilji hvorn annan.
Ákvæði í stefnu :
8.2.3 Reykjavíkurborg komi í veg fyrir mismunun hvað varðar starfsaðstæður, starfsþróun og símenntun fólks af erlendum uppruna. Innflytjendur og fólk af erlendum uppruna njóti jafnra tækifæra á við aðra starfsmenn til starfsframa og starfsþróunar. Innflytjendum sé gefinn kostur á starfstengdu íslenskunámi eftir því sem þörf er á og fái fræðslu um starfsáætlun, þjónustumarkmið og menningu vinnustaðarins.
Fulltrúar framsoknarflokks og Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að fylgja eftir þessari grein mannréttindastefnunnar en líta svo á að þetta eigi heima í þeirri verkáætlun sem mannréttindanefnd er að fara að vinna ásamt öllum fagsviðum borgarinnar og því óþarft að stofna sérstakan starfshóp til að framfylgja greininni.
Samþykkt samhljóða
Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað að hann fellst á þessa afgreiðslu málsins.
8. Lögð fram til afgreiðslu tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar um að mannréttindanefnd samþykki áskorun á þingmenn landsins vegna réttindaleysis kvenna af erlendum uppruna sem hafa sætt ofbeldi í hjónabandi:
Fulltrúi Samfylkingarinnar í mannréttindanefnd leggur til að mannréttindanefnd samþykki eftirfarandi áskorun á þingmenn landsins.
Í framhaldi af þeirri umræðu sem verið hefur í fjölmiðlum undafarið um réttindaleysi þeirra kvenna af erlendum uppruna sem fá dvalarleyfi vegna hjónabands við íslenska karlmenn og sæta ofbeldi af þeirra hálfu. Þær konur sem þessu sæta og fara fram á hjónaskilnað innan tveggja ára frá því hjónaband þeirra hófst eiga það á hættu að vera sendar rakleiðis úr landi. Á þetta við konur sem eru með ríkisfang utan EES. Með þessu móti geta makar þessara kvenna nýtt sér réttindaleysi þeirra til frekar kúgunar í skjóli þess að þær eigi yfir höfði sér brottvísun úr landi vilji þær losna úr prísundinni. Það er skylda íslenska ríkisins að tryggja öllum þegnum og þeim sem hér dvelja jöfn mannréttindi og landi og þjóð til skammar að enn skuli vera til staðar slík mismunun í íslensku réttakerfi. Sérfræðingar sem unnið hafa með konum sem sæta heimilisofbeldi hafa bent á að konur af erlendum uppruna eiga oft erfiðar um vik að losna við ofbeldismanninn vegna skorts á upplýsingum um þá aðstoð sem býðst í íslensku samfélagi. Sérstaklega hefur verið reynt að ná til þessara kvenna með þýðingum á upplýsingaplöggum og í gegnum túlka og það hlýtur því að skjóta skökku við að þegar loks er hægt að ná til þeirra til að tilkynna þeim rétt sinn og leiðir út úr ástandinu er þeim sagt að þær muni missa dvalaleyfi sitt og verði sendar úr landi ætli þær að komast undan ofbeldinu. Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar skorar á þingheim leiðrétta þá annmarka sem eru á lögum nr. 96/2002 um útlendinga og á lögum 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga strax.
Tillagan felld með 3 atkv. gegn 2.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja til að nefndin samþykki eftirfarandi ályktun:
Mannréttindanefnd lýsir áhyggjum sínum af stöðu kvenna af erlendum uppruna sem búa við heimilisofbeldi. Nefndin fagnar því að verið sé að skoða málefni þessarra kvenna á vegum félagsmálaráðuneytisins í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun. Nefndin telur jafnframt brýnt að þeirri vinnu ljúki sem fyrst. Starfsmanni nefndarinnar er falið að skoða og upplýsa nefndina hvernig vinnunni miðar.
Samþykkt samhljóða.
9. Lögð fram til afgreiðslu tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar um að komið sé á fót samstarfshópi til að útfæra þróunarverkefnið ,,trúnaðarvinkonur#GL:
Fulltrúi Samfylkingarinnar í mannréttindanefnd leggur til að farið verði í þróunarverkefni sem getur hlotið vinnuheitið “Trúnaðarvinkonur”. Til að útfæra þróunarverkefnið verði settur á fót samstarfshópur Alþjóðahúss, Kvennaathvarfsins, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða (miðstöð þróunarverkefna fyrir innflytjendur) og Rauða Kross Íslands. Auk þess sem annar starfsmanna mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar ætti þar sæti. Trúnaðarvinkona er kona sem hefur reynslu og fundið leið út úr sambandi við ofbeldismann og þekkir einangrunina, skömmina og allan sársaukann sem því fylgir. Hún væri bundin fullum trúnaði gagnvart þeirri konu sem hún gerðist trúnaðarvinkona fyrir og þeirri konu ber engin skylda til þess að yfirgefa viðkomandi ofbeldismann eða tilkynna ofbeldið til lögreglu frekar en hún vill. Trúnaðarvinkonan er fyrst og fremst hugsuð sem stuðningur og einhver til þess að vera viðkomandi konu upplýsingaveita um mögulegar leiðir út úr ástandinu svo og réttindastöðu hennar. Trúnaðarvinkonan má aldrei grípa fram fyrir hendurnar á vinkonu sinni með einum eða öðrum hætti nema þeim sem lög kveða á um. Markmið verkefnisins sem er þó á algjöru frumstigi er að veita konum af erlendum uppruna sambærilegt tengslanet og íslenskar konur búa flestar við. Gera þeim auðveldara að losna við ofbeldismanninn og byggja sjálfar sig upp í kjölfarið. Trúnaðarkonan virkar því bæði sem stuðningur og tengill inn í íslenskt samfélag.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja til að tillögunni verði vísað til umsagnar hjá Velferðasviði sem hefur þekkingu og reynslu á sambærilegum verkefnum.
Samþykkt samhljóða.
10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna og fulltrúa Samfylkingar um að staða jafnréttisráðgjafa verði endurvakin:
Fulltrúar VG og Samfylkingar í Mannréttindanefnd leggja til að staða jafnréttisráðgjafa hjá Reykjavíkurborg verði endurvakin samhliða fyrirhugaðri ráðningu mannréttindaráðgjafa svo að hægt sé að vinna samkvæmt nýsamþykktri Mannréttindastefnu borgarinnar og koma í veg fyrir að kynjajafnrétti falli í skuggann af vinnu með öðrum minnihlutahópum.
Tillagan felld með 3. atkv. gegn 2.
Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Nýbúið er að ráða í starf mannréttindaráðgjafa. Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks telja óskynsamlegt að ráða í aðrar stöður fyrr en reynsla er komin af starfsemi nýrrar mannréttindaskrifstofu.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óska bókað vegna tillögu um endurráðningu jafnréttisráðgjafa:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar harma að ekki skuli hafa náðst samstaða um þessa grundvallarforsendu mannréttindastefnu borgarinnar. Í mannréttindastefnunni hefur kynjajafnrétti aukið vægi á við aðra þætti og taka þarf tillit til þess við mönnun skrifstofunnar. Það brýtur í bága við stefnuna að auglýsa ekki eftir sérfræðiþekkingu á sviði kynjajafnréttis.
Löngu var ljóst að staða mannréttindaráðgjafa myndi ekki duga til að þjónusta alla þá minnihlutahópa sem mannréttindastefnan nær til. Réttara hefði því verið að auglýsa báðar stöðurnar í einu. Þannig hefði verið hægt að auglýsa eftir sérhæfðari þekkingu á sviði mannréttinda annars vegar og kynjajafnréttis hins vegar.
11. Lögð fram að nýju til afgreiðslu tillaga fulltrúa Vinstri grænna og fulltrúa Samfylkingar um að mannréttindastefna Reykjavíkurborgar verði gefin út á helstu tungumálum innflytjenda í Reykjavík, íslensku táknmáli og blindraletri:
Fulltrúar VG og Samfylkingar í Mannréttindanefnd leggja til að nýsamþykkt Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar verði gefin út á helstu tungumálum innflytjenda í Reykjavík, íslensku táknmáli og blindraletri til að tryggja að þeir hópar sem stefnan fjallar um hafi aðgang að henni.
Frestað.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks telja mikilvægt að byrjað verði á að þýða áttunda kafla stefnunnar um Uppruna og þjóðerni á helstu tungumál innflytjenda. Farið verði í greiningu á því hvort þýðingar á öðrum hlutum hennar séu mikilvægir. Eitt af markmiðum mannréttindanefndar er að tryggja hagkvæma nýtingu fjármuna. Því er nauðsynlegt að greina nákvæmlega hvaða þýðingar eru gagnlegar og meta kostnaðinn við þær og felur nefndin starfsmanni nefndarinnar að taka þær upplýsingar saman og leggja fyrir nefndina.
Fulltrúi Vinstri grænna og fulltrúi Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar telja afar brýnt að allir kaflar mannréttindastefnunnar verði þýddir yfir á þau tungumál sem tillagan nær til. Ljóst er að innflytjendur þurfa að þekkja rétt sinn á fleiri sviðum en þeim sem fjalla um uppruna og þjóðerni. Kostnaður við þýðingu og útgáfu í hvaða formi sem það verður er óverulegur í samanburði við önnur útgjöld borgarinnar og því teljum við það einkennilegan fyrirslátt að beita fyrir sig fjárhagsástæðum til frekari frestunar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Ítrekað er mikilvægi þess að gera kostnaðar- og þarfagreiningu áður en ákvörðun er tekin um hvernig þýðingum og útgáfu á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar verði háttað. Jafnframt er mikilvægt að útfæra í hvaða formi útgáfan á að vera og hvert upplag stefnunnar á að vera.
12. Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Mannréttindanefnd telja það gott og gilt að fulltrúar Samfylkingar og Vinstri Grænna séu ötulir við að koma með mál inn á borð nefndarinnar. Nýsamþykkt starfsáætlun nefndarinnar fyrir næsta ár ber merki þess að nefndin er ný og helstu áherslur næsta árs því að kynna sér stöðuna í málaflokknum m.a. með samráði við hagsmunaaðila sem og með því að afla sér faglegrar þekkingar á árangursríkum aðferðum hér heima og erlendis. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks telja það hins vegar ekki vera málaflokknum eða starfi nefndarinnar til framdráttar að leggja fram fjölda tillagna, sem margar hverjar eru við nánari skoðun annað hvort ekki á valdsviði nefndarinnar, illa ígrundaðar og/eða óþarflega kostnaðarsamar, eins og fulltrúi Vinstri grænna og fulltrúi Samfylkingarinnar gerðu á fundinum. Það hlýtur jafnframt að vera ábyrgð allra nefndarmanna að leggja fram vel ígrundaðar tillögur til að fjármunir sem og tími hennar nýtist sem best.
13. Þakkir.
Mannréttindanefnd vill þakka Halldóru Gunnarsdóttur fyrir framúrskarandi og óeigingjarnt starf fyrir nefndina.
Fundi slitið kl. 14:55
Marsibil J. Sæmundardóttir
Sif Sigfúsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Sóley Tómasdóttir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir