Mannréttindaráð - Fundur nr. 6
Mannréttindaráð
Ár 2025, fimmtudaginn 5. júní var haldinn 6. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Borgarráði og hófst kl. 13.02. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Sabine Leskopf, Guðný Maja Riba, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Björn Gíslason og Þorkell Sigurlaugsson. Einnig sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks: Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, Ingólfur Már Magnússon og Katarzyna Kubiś. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Ásta Björg Björgvinsdóttir, Lilja Sveinsdóttir og Sigurbjörg H. Sigurgeirsdóttir. Einnig sátu fundinn eftirfarandi embættismenn og starfsfólk: Anna Kristinsdóttir, Valgerður Jónsdóttir og Aðalbjörg Traustadóttir með rafrænum hætti. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer umræða um aðgengilegt upplýsingaefni um heimilisofbeldi á vef Reykjavíkurborgar - aðgerð nr. 33 í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi – MSS24060082
Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Mannréttindaráð þakkar kynningu á aðgerð 33 í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi sem tekur fyrir upplýsingagjöf fyrir aldraða. Ráðið tekur undir mikilvægi markvissrar upplýsingargjafar fyrir aldraða varðandi heimilisofbeldi og fjárhagslegt ofbeldi sem lið í bæði forvörnum og aðgerðum gegn ofbeldi.
Fylgigögn
-
Lögð fram ársskýrsla aðgengisfulltrúa fyrir árið 2024. MSS24090014
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga samráðshóps í málefnum fatlaðs fólks dags. 6. maí 2025 um verðlaunahafa aðgengisviðurkenningar Reykjavíkur 2024, sem var fært í trúnaðarbók, sbr. 4. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 8. maí 2025 MSS25030095
Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Mannréttindaráð óskar Katarzyna Kubiś innilega til hamingju með að hafa hlotið Aðgengisviðurkenningu 2024 fyrir verkefnið upplýsingatorg sem ætlað er forráðafólki og aðstandendum fatlaðra barna.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning umhverfis- og skipulagssviðs um bílastæði hreyfihamlaðra í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar og verklag bílastæðavarða. MSS24020046
Rakel Elíasdóttir og Kristín Þórdís Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 14.10 víkur Katarzyna Kubiś af fundinum.Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir þakka kynningu á tillögu að lausn sem byrjar til reynslu. Tillagan er gerð til úrbóta á aðgengi fyrir handhafa stæðiskorta, sem og annarra til að leggja í bílahúsum borgarinnar.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning skrifstofu borgarstjóra og borgarritara um aðgengi á viðburðum Reykjavíkurborgar í sumar, 17. júní, Menningarnótt og Reykjavík Pride. MSS25050034
Björg Jónsdóttir og Aðalheiður Sveinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Aðgengi að Reykjavíkurborg og viðburðir hennar eiga að vera fyrir öll sem sækja þá. Mannréttindaráðið fagnar þeim aðgerðum sem hafa vel gengið til að bæta og auka aðgengi allra að viðburðum. Mannréttindaráð hlakkar til að sjá kynntar aðgerðir skila sér í aukningu á þátttöku og fjölbreytileika í sumar á hátíðum borgarinnar.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fundadagatal mannréttindaráðs. MSS25030087
Samþykkt að fella niður fund mannréttindaráðs þann 19. júní 2025.- Kl. 14.34 víkur Ásta Björg Björgvinsdóttir og aftengist fjarfundarbúnaði og Magnea Gná Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum.
- Kl. 14.36 víkja af fundi Valgerður Jónsdóttir, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson og Ingólfur Már Magnússon. Lilja Sveinsdóttir og Sigurbjörg H. Sigurgeirsdóttir aftengjast fjarfundarbúnaði. -
Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttindaráðs dags.2. júní 2025, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að mannréttindaráð samþykki að vísa niðurstöðum starfshóps um kortlagningu á vinnu borgarinnar gegn ofbeldi, til borgarráðs. Jafnframt er óskað eftir að borgarstjóri stofni stýrihóp sem hafi það hlutverk að móta tillögur gegn ofbeldi sem beinist að börnum og ungu fólki.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25030128
Samþykkt.Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir í mannréttindaráði fagna þeirri faglegu og yfirgripsmiklu vinnu sem unnin hefur verið við kortlagningu aðgerða mannréttinda- og velferðarstefnu er snýr að börnum og fjölskyldum í Reykjavík. Skýrslan sem nú liggur fyrir veitir mikilvæga yfirsýn yfir þá fjölbreyttu þjónustu sem borgin veitir, og sýnir að markvisst er unnið að jöfnuði, snemmtækum stuðningi og bættri samhæfingu úrræða. Aðgerðir sem snúa að börnum í viðkvæmri stöðu, börnum af erlendum uppruna og fjölskyldum með takmarkaðar bjargir eru sérstaklega mikilvægur þáttur í þeirri stefnu sem við viljum byggja á. Samstarfsflokkarnir leggja áherslu á að þessi kortlagning verði nýtt áfram sem lykilverkfæri í forgangsröðun verkefna mannréttinda og velferðarsviðs, með það að leiðarljósi að bæta lífsskilyrði barna og tryggja raunveruleg jöfn tækifæri fyrir öll börn í borginni – óháð uppruna, efnahag eða aðstæðum. Við teljum að þessi vinna styrki þann grundvöll sem félagslegt réttlæti borgarinnar byggir á – og verði mikilvægt leiðarljós í áframhaldandi þróun mannréttinda og velferðarstefnu Reykjavíkurborgar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um minnisvarða fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis. Jafnframt eru lagðar fram umsagnir frá Stígamótum dags. 25. mars, Hagsmunasamtökum brotaþola dags. 18. apríl, W.O.M.E.N samtökum kvenna af erlendum uppruna dags. 10. apríl og Kvenréttindafélags Íslands dags. 21. mars 2024, um tillöguna, sbr. 2. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 20. júní 2024.
Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að vísa tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna um minnisvarða fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis til endanlegrar afgreiðslu borgarráðs ásamt umsögnum hagsmunasamtaka um tillöguna.
Samþykkt. MSS24010173
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Ofangreindri tillögu var vísað til þáverandi Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs sem aflaði umsagna hagaðila en frestaði frekari afgreiðslu. Í umsögnum kemur fram gagnrýnin sýn að áherslur innan verksviðs ráðsins ættu fyrst og fremst að byggja á forvörnum frekar en samkeppni um listaverk. Fulltrúar samstarfsflokkanna í Mannréttindaráðinu taka undir mikilvægi forvarnarstarfs og valdeflingar þolanda en mæla með útfærslu verkefnisins á þeim forsendum. Árið 2025 er Kvennaárið þegar 50 ár eru liðin frá Kvennafrídegi þann 24. október 1975 og mikilvægt er að Reykjavíkurborg taki sýnilega þátt í þessu og gæti uppfærð útfærsla verkefnisins verið þáttur í því.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar tekur heilshugar undir mikilvægi þess að við sýnum þolendum ofbeldis samstöðu, hlustum á og bregðumst við reynslu þeirra. Hins vegar telur fulltrúinn ekki tímabært að reisa minnisvarða um ofbeldi sem enn er viðvarandi, þar sem við erum enn í miðjum átökum við að uppræta það. Minnisvarðar eru yfirleitt reistir til að minnast einhvers sem er að baki en baráttan gegn kynferðislegu ofbeldi er því miður enn óunnin. Í umsögnum sem borist hafa, meðal annars frá Stígamótum, Hagsmunasamtökum brotaþola og W.O.M.E.N., kemur fram skýr krafa um að fjármagn sé fremur varið í forvarnir, fræðslu, valdeflingu og úrræði fyrir bæði þolendur og þá sem beita ofbeldi. Fulltrúi Framsóknar deilir þeirri sýn. Ef setja á táknræn skilaboð í almannarými, þarf það að vera hluti af stærra átaki sem beinist að rótum vandans, gerendum, kerfinu sem bregst og samfélagslegri gerendameðvirkni. Þá má geta þess að í ár er kvennaár og mögulega mætti huga að því að byggja minnisvarða um kvennafrídaginn 1975 til að marka þessi tímamót og minnast þessum merka baráttudegi.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um fjármagn í stað minnisvarða í forvarnir og fræðslu gegn kynbundnu ofbeldi, sbr. 3. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 12. september 2024. Jafnframt er lögð fram afturköllun tillögunnar dags. 3. júní 2025. MSS24050119
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn mannréttindaráðs dags. 19. maí 2025 um drög að reglum Reykjavíkurborgar um styrki, sbr. 9. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 8. maí 2025. ÞON24080006
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga valnefndar dags. 5. maí 2025, um verðlaunahafa mannréttindaverðlauna Reykjavíkur 2025, sem var fært í trúnaðarbók, sbr. 10. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 8. maí 2025. MSS25030092
Mannréttindaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Mannréttindaráð óskar Afstöðu til hamingju með að hafa hlotið Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2025 fyrir störf sín síðastliðin tuttugu ár í þágu fanga og aðstandenda þeirra.
Fylgigögn
Fundi slitið kl.15.15
Sabine Leskopf Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir
Guðný Maja Riba Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns
Magnea Gná Jóhannsdóttir Björn Gíslason
Þorkell Sigurlaugsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttindaráðs frá 5. júní 2025