Mannréttindaráð - Fundur nr. 59

Mannréttindaráð

Ár 2010, 3. nóvember, var haldinn 59. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.24. Fundinn sátu Margrét K. Sverrisdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Bjarni Jónsson, Heiða Kristín Helgadóttir, Ingibjörg Óðinsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir, og Elín Sigurðardóttir. Jafnframt sátu fundinn Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri og Jóna Vigdís Kristinsdóttir sem var fundarritari.

Þetta gerðist:

1. Mannréttindastjóri kynnti drög að fjárhagsáætlun mannréttindaráðs og mannréttindaskrifstofu 2011.

- 12.43 víkur Bjarni Jónsson af fundi og Eva H. Baldursdóttir tekur sæti á fundinum.

2. Samskipti leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa.
Lögð fram breytt tillaga fulltrúa Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri grænna um skólastarf í Reykjavík og trúar-og lífsskoðunarmál.
Fulltrúar Besta flokks og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Tillagan verði send til umsagnar menntaráðs, íþrótta- og tómstundaráðs og velferðarráðs. Umsagnarfrestur er til 19. nóv. nk. Að tveimur árum liðnum frá gildistöku reglna þessara um samstarf skóla og lífsskoðunarfélaga verði reynslan af reglunum metin og þær endurskoðaðar ef þörf krefur.
Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram eftirfarandi breytingartillögu við málsmeðferðartillöguna:
Tillagan verði eingöngu send til umsagnar menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs en ekki til velferðarráðs. Umsagnarfrestur er til 19. nóv. nk. Að tveimur árum liðnum frá gildistöku reglna þessara um samstarf skóla og lífsskoðunarfélaga verði reynslan af reglunum metin og þær endurskoðaðar ef þörf krefur.
Breytingartillögunni er vísað frá.
Fulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna fær ekki séð að vísa þurfi tillögu um samstarf skóla í Reykjavík við trúar-og lífskoðunarfélög til umsagnar velferðarráðs þar sem sú starfsemi sem tillagan fjallar um þ.e leik-og grunnskólar ásamt frístundaheimilum heyrir ekki undir starfsemi velferðarsviðs.
Málsmeðferðartillaga fulltrúa Besta flokks og Samfylkingar samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2.
Þá eru lögð fram viðmið þjóðkirkjunnar um samstarf kirkju og skóla frá árinu 2008 ásamt erindisbréfi starfshóps frá árinu 2007 um samstarf skóla og trúar-og lífsskoðunarhópa
Fulltrúar Sjálfstæðiflokks óska bókað:
Tillaga meirihluta Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri grænna endurspeglar því miður ekki umburðalyndi heldur einkennist af miðstýringu og boðvaldi þar sem skjólastjórnendum er ekki treyst til þess að taka ákvarðanir um samskipti trúar- og lífsskoðunarfélaga við skólasamfélagið. Fulltrúar meirihluta mannréttindaráðs og Vinstri grænna hyggjast nú senda tillögu sína til umfjöllunar hjá öðrum ráðum borgarinnar. Í því felst að fulltrúar þessara flokka í mannréttindaráði telja að tillagan hafi fengið vandaða og fullnægjandi umfjöllun í ráðinu. Í því felst jafnframt að þeir séu sáttir við tillöguna í þeirri mynd sem hún er nú. Vandaðri vinnubrögð væru hins vegar að hefja vinnu við að ná fram víðtækri samstöðu við foreldra, skóla, nemendur, fræðimenn, þjóðkirkju og trúar- og lífsskoðunarfélög með það að markmiði að leggja mat á hvort ástæða sé til þess að endurmeta samstarf trúar- og lífsskoðunarfélaga við grunnskóla og leikskóla í Reykjavíkurborg. Leiði samstarfið til tillagna af hálfu ráðsins verði þær sendar til annarra ráða og stofnana borgarinnar, bornar undir foreldra, auk trúar- og lífsskoðunarfélaga eins og Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar kveður á um. Ein af forsendum tillögu meirihlutans og Vinstri grænna var sú að fjölmargar kvartanir hefðu borist vegna heimsókna trúfélaga í skólana, ekki fylgdu þeirri staðhæfingu neinar tölulegar upplýsingar. Nú hafa þær verið lagðar fram og kemur í ljós að einungis 22 kvartanir hafa borist mannréttindaskrifstofu frá skólasamfélagi sem telur rúmlega tuttugu þúsund nemendur. Hins vegar hafa fulltrúum í mannréttindaráði borist nokkur hundruð kvartanir frá borgarbúum þar sem að umræddri tillögu meirihlutans er mótmælt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa sem fyrr andstöðu við framkomna tillögu og sjá enga ástæðu til þess að senda hana til umsagnar til annarra ráða enda hefur samráð og samstarf við foreldra ekki verið tryggt.

Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks um víðtækt samráð vegna úttektar á samstarfi skóla við trúar-og lífsskoðunarfélög.
Tillögunni vísað til umsagnar menntaráðs, íþrótta- og tómstundaráðs og velferðaráðs. Umsagnarfrestur er til 19. nóv. nk.
Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og fulltrúi Vinstri grænna óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingar, Besta flokks og Vinstri grænna, líta svo á að þetta víðtæka samráð hafi nú þegar farið fram og vísa til erindisbréfs stýrihóps um samstarf kirkju og skóla frá árinu 2007. Sá stýrihópur lagði fram skýrslu þar sem lagt var til að settar yrðu reglur um þessi samskipti. Meirihluti mannréttindaráðs telur sig vera að gera það og sér ekki ástæðu til að mynda enn annan stýrihópinn um nákvæmlega sama málefnið og hefja samráðsferli að nýju. Einnig er vert að benda á að viðmið þjóðkirkjunnar um samstarf kirkju og skóla frá árinu 2008 voru höfð til hliðsjónar við endurskoðun tillögunnar. Fulltrúar Samfylkingar, Besta flokks og Vinstri grænna munu nú senda tillöguna til umsagnar menntaráðs, velferðarráðs og íþrótta- og tómstundaráðs. Það er einlægur ásetningur fulltrúanna að taka tillit til þeirra umsagna sem þaðan kunna að berast.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Í skýrslu starfshóps frá 2007 er ekkert sem bendir til þess að starfshópurinn hafi talið ástæðu til þess að banna þurfi heimsóknir trúar- og lífsskoðunarhópa í leik- og grunnskóla heldur þvert á móti að gæta þurfi jafnræðis þeirra sem annarra. Eins og þau mótmæli sem send hafa verið á mannréttindaráð gefa sterklega til kynna er ekki sátt eða samstaða um núverandi tillögur og því ekki nóg að byggja áframhaldandi umræður og vinnu alfarið á skýrslunni frá 2007.
Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og fulltrúi Vinstri grænna óska bókað:
Fulltrúum trúar og lífsskoðunarhópa er ekki bannað að heimsækja grunnskóla og vísum við í c. lið tillögunar þar sem fram kemur að heimsóknir á skólatíma skulu fara fram undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir og í samræmi við gildandi aðalnámskrá og námsefni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Bent er á að með tillögunni er lagt til að bannaðar verði heimsóknir trúar-og lífsskoðunarhópa í leikskóla.

- Kl. 13.50 víkur Eva H. Baldursdóttir af fundi.

Fundi slitið kl. 14.05.

Margrét K. Sverrisdóttir

Margrét Kristín Blöndal Heiða Kristín Helgadóttir
Elín Sigurðardótti Ingibjörg Óðinsdóttir
Þórey Vilhjálmsdóttir