Mannréttindaráð
Ár 2010, 12. október, var haldinn 57. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.15. Fundinn sátu Margrét K. Sverrisdóttir, Bjarni Jónsson, Jörundur Ragnarsson, Marta Guðjónsdóttir, Björn Gíslason og Elín Sigurðardóttir. Jafnframt sátu fundinn Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri og Jóna Vigdís Kristinsdóttir sem var fundarritari.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 6. þ.m., þar sem tilkynnt er að Heiða Kristín Helgadóttir tekur sæti Karls Berndsen sem varafulltrúi í mannréttindaráði. (R10060077)
2. Lögð fram skýrsla Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða fyrir tímabilið 3. ágúst - 29. september um þjónustu við innflytjendur.
3. Lagt fram bréf frá ÍTR dags. 30. sept. þar sem þess er farið á leit að mannréttindaskrifstofa geri úttekt á jafnrétti í íþróttafélögum. (R10090196)
4. Kynnt er handbók um móttöku fatlaðra nemenda í grunnskólum.
- Kl. 13.45 tekur Heiða Kristín Helgadóttir sæti á fundinum
5. Farið yfir drög starfsáætlunar í mannréttindamálum fyrir árið 2011.
6. Lögð fram tillaga fulltrúa Samfylkingar, Besta flokksins og Vinstri Grænna að reglum um samskipti leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar og trúar- og lífskoðunarhópa. Greinargerð fylgir tillögunni.
Málinu frestað milli funda.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks benda á þá staðreynd að Bjarni Jónsson fulltrúi í mannréttindaráði er varaformaður Siðmenntar sem gerir hann vanhæfan að sitja fund ráðsins við afgreiðslu þessa máls. Það er með ólíkindum að meirihluti mannréttindaráðs skuli ekki huga að því að hér er verið að brjóta jafnræði skv. mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar á grófan hátt þar sem fulltrúar annarra trúar-og lífskoðunarhópa hafa ekki möguleika á að sitja fundinn. Hér er varaformaður Siðmenntar og fulltrúi í mannréttindaráði að notfæra sér aðstöðu sína sem kjörinn fulltrúi til að koma baráttumálum Siðmenntar áfram.
Fram fer atkvæðagreiðsla um hæfi Bjarna Jónssonar við meðferð málsins. Bjarni Jónsson er talinn hæfur með 3 atkvæðum Margrétar Sverrisdóttur, Jörundar Ragnarssonar og Heiðu Kristínar Helgadóttur, gegn 2 atkvæðum Mörtu Guðjónsdóttur og Björns Gíslasonar. Elín Sigurðardóttir og Bjarni Jónsson sitja hjá.
Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokks óska bókað:
Í mannréttindaráði situr fólk sem hefur ólíkar trúar- og lífsskoðanir. Tillagan sem hér var lögð fram varðar ekki Siðmennt sérstaklega heldur alla trúar- og lífsskoðunarhópa.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka að það er mikill munur á því hvort um er að ræða fulltrúa sem gegna trúnaðarstörfum fyrir trúar-og lífsskoðunarhópa en þeirra sem gera það ekki.
Fulltrúi Vinstri Grænna óskar bókað:
Fulltrúi VG telur sig ekki hafa nægar forsendur til að meta vanhæfi Bjarna Jónssonar til að fjalla um málið. Fulltrúi VG sér ekki að Siðmennt eigi beinna hagsmuna að gæta innan starfs með börnum á vegum borgarinnar þar sem félagið starfar ekki á þeim vettvangi.
- Kl 14.16 er gert fundarhlé.
- Kl.14.19 hefst fundur að nýju.
7. Aðgengi fatlaðra og aldraðra í miðbæ Reykjavíkur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að Reykjavíkurborg geri átak í að fjölga bekkjum á Laugavegi til að auka aðgengi bæði fatlaðra og hreyfihamlaðra að miðborginni. Um er að ræða sams konar verkefni og farið hefur af stað á Akureyri þar sem 100-200 metrar eru á milli bekkja. Markmiðið með verkefninu er að ýta undir aukna hreyfingu og útivist bæði aldraðra og hreyfihamlaðra. Laugavegurinn er sérstaklega heppilegur fyrir verkefni af þessu tagi þar sem hann er upphitaður og nýtist því vel þessum hópum allan ársins hring.
Málinu frestað.
Fundi slitið kl. 14.40
Margrét K. Sverrisdóttir
Björn Gíslason Heiða Kristín Helgadóttir
Bjarni Jónsson Marta Guðjónsdóttir
Elín Sigurðardóttir Jörundur Ragnarsson