Mannréttindaráð
Ár 2010, 23. september, var haldinn 56. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.15. Fundinn sátu Margrét K. Sverrisdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Bjarni Jónsson, Jörundur Ragnarsson, Þórey Vilhjálmsdóttir og Elín Sigurðardóttir. Jafnframt sátu fundinn Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri og Jóna Vigdís Kristinsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Úttekt á kynbundnum launamun. Halldóra Gunnarsdóttir sérfræðingur á mannréttindaskrifstofu kynnti.
Bókun mannréttindaráðs:
Reykjavíkurborg hefur löngum staðið framarlega í jafnréttismálum. Mannréttindaráð fagnar því að niðurstöður á rannsókn á launamun kynjanna sem hófst í september 2008 sé lokið. Niðurstöðurnar eru mikilvægt innlegg í jafnréttisumræðuna og þakkar ráðið þeim aðilum sem stóðu að rannsókninni fyrir vel unnin störf. Mannréttindaráð telur það mjög mikilvægt að starfshópur sem skoða á launamun kynjanna horfi sérstaklega til þess misræmis sem gætir á milli kynjanna í föstum yfirvinnugreiðslum og akstursgreiðslum og komi með tillögur að endurbótum og láti kanna stigaskor í starfsmati Reykjavíkurborgar.
2. Móðurmálskennsla barna af erlendum uppruna. Mannréttindastjóri kynnti. Samþykkt að veita kr. 2.000.000,- af liðnum 09512 – (þjónusta við innflytjendur) til móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna.
Bókun mannréttindaráðs:
Mannréttindaráð samþykkir að veita 2 milljónir til menntasviðs til að tryggja móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna til áramóta 2010. Jafnframt er óskað eftir því að menntaráð tryggi þessa starfsemi frá og með janúar 2011.
3. Starfsdagur mannréttindaráðs 6. október. Mannréttindastjóri fór yfir drög að dagsskrá starfsdagsins.
4. Fjárhagsáætlun 2011. Mannréttindastjóri fór yfir stöðu mála.
Umræða að ósk minnihluta.
Bókun fulltrúa Sjálfsstæðisflokks og Vinstri grænna:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna lýsa yfir áhyggjum vegna þess hve vinna við fjárhagsáætlanagerð komandi árs er stutt á veg komin. Fæstar tímasetningar þeirrar vinnu hafa staðist, auk þess sem meginlínur um forgangsröðun og hagræðingaraðgerðir eru með öllu óræddar og óunnar af hálfu meirihlutans. Tilkoma aðgerðaráætlunar 2008 tryggði pólitíska sátt sem leiddi til bættra vinnubragða við gerð fjárhagsáætlunar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna telja farsælt að vinna áfram með þeim hætti og eru tilbúin til samráðs og samstarfs um þau verkefni. Aðgerðarhópur borgarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar, hefur ekki sent frá sér sameiginleg skilaboð sem veldur því að fulltrúar í fagráðum geta illa metið á hvaða grundvelli hagræðingartillögur skuli byggja. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna ítreka þá skoðun sína að nauðsynlegt sé að leggja meginlínur um hvað skuli verja í komandi fjárhagsáætlun og hvetja meirihlutann til að ganga til þeirrar vinnu af alvöru svo hægt sé að hefja umræðu um eiginlegar tillögur í einstaka málaflokkum.
5. Ísland-Panorama. Akeem Richard Oppong kynnti starf félagsins.
Fundi slitið kl. 14:30.
Margrét K. Sverrisdóttir
Björn Gíslason Margrét Vilhjálmsdóttir
Bjarni Jónsson Þórey Vilhjálmsdóttir
Elín Sigurðardóttir Jörundur Ragnarsson