Mannréttindaráð - Fundur nr. 5

Mannréttindaráð

Ár 2008, fimmtudaginn 17. apríl var haldinn 5. fundur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.25. Þá voru mætt: Marta Guðjónsdóttir, Andri Óttarsson, Björn Gíslason, Maria Elvira Mendez Pinedo, Felix Bergsson, Falasteen Abu Libdeh og Jóhann Björnsson. Auk þeirra Marsibil J. Sæmundardóttir áheyrnarfulltrúi. Jafnframt sat fundinn Þórhildur Líndal, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju til afgreiðslu svohljóðandi tillaga:
Mannréttindaráð samþykkir að setja á stofn starfshóp um atvinnumöguleika fatlaðra einstaklinga hjá Reykjavíkurborg. Hópurinn verði skipaður fötluðu starfsfólki og/eða samstarfsfólki þess. Auk þess skipi hópinn mannréttindafulltrúar sviðanna, einn fulltrúi frá Öryrkjabandalaginu, einn frá Þroskahjálp, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta. Starfshópurinn skoði kosti og galla núverandi fyrirkomulags og komi með tillögur að úrbótum. Niðurstöðum verði skilað fyrir 1. september 2008.

Samþykkt samhljóða.

2. Samþykktar voru eftirfarandi skipanir pólitískra fulltrúa í starfshópa á vegum mannréttindaráðs:
Starfshópur um stofnun jafnréttisskóla: Sóley Tómasdóttir, Þórdís Pétursdóttir (formaður) og Guðrún Pálína Ólafsdóttir.
Starfshópur um bætt öryggi á og við skemmtistaði í miðborginni: Felix Bergsson, Björn Gíslason (formaður) og Katrín Helga Hallgrímsdóttir.
Starfshópur um atvinnumöguleika fatlaðra einstaklinga hjá Reykjavíkurborg: Stefán Bogi Sveinsson, Ingibjörg Óðinsdóttir og Marta Guðjónsdóttir (formaður).
Verkefnisstjórn um málefni innflytjenda: Andri Óttarsson.
Mannréttindaráð samþykkir að fulltrúi Samfylkingarinnar, Falasteen Abu Libdeh taki sæti í verkefnisstjórninni.

3. Niðurstöður Jafnréttisvogarinnar; um stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum, umræður.

4. Áhrif nýrra úrræða í dagvistunarmálum út frá mannréttindastefnu.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í mannréttindaráði harma þá ákvörðun meirihutans í borgarstjórn að hefja heimgreiðslur til foreldra sem ekki nýta sér leikskólaþjónustu borgarinnar, enda hafa ekki verið færð nein skynsamleg rök fyrir ákvörðuninni eða sýnt fram á að slíkar greiðslur komi reykvískum börnum til góða. Þvert á móti hefur ítrekað verið bent á að slíkar greiðslur auki sérstaklega hættu á því að mæður af erlendum uppruna og ekki síður börn þeirra einangrist frá samfélaginu og aðlagist ekki nýjum aðstæðum. Minnihluti Samfylkingar og Vinstri grænna telur að með þessari ákvörðun, þar sem heimgreiðslur hafa fengið nýtt nafn, þ.e. þjónustutrygging, sé stigið stórt skref aftur á bak í þeirri viðleitni að tryggja hinum fjölmenna hópi nýrra borgara í Reykjavík nauðsynlega aðlögun og aðgang að samfélagi okkar. Slíkt getur ekki talist í anda þeirrar mannréttinda-stefnu sem borgarstjórn hefur samþykkt, þar sem meðal annars er skýrt kveðið á um að Reykjavíkurborg skuli tryggja að sérstaklega sé tekið mið af þörfum innflytjenda þegar þjónusta á vegum borgarinnar er skipulögð.

Fulltrúar F – lista og Sjálfstæðismanna óskuðu bókað:
Þjónustutrygging er tímabundið úrræði fyrir foreldra sem eru á biðlista eftir plássi fyrir barn sitt og er hugsuð til að auka jafnræði milli foreldra í borginni. Foreldrar sem þiggja þjónustutryggingu en ráðstafa henni ekki til þriðja aðila skipta á milli sín greiðslutímabilinu líkt og lög um fæðingarorlof gera ráð fyrir. Þjónustutryggingin byggir þannig á hugmyndum um réttlæti og jafnrétti á þann hátt að yfirvöldum ber skylda til að tryggja jafnræði borgaranna og jafnrétti kynja, þannig að reglur um fæðingarorlof foreldra er fylgt til að tryggja barni samvistir við báða foreldra.
Bókun mannréttindaráðs:
Mannréttindaráð beinir því til leikskólaráðs að staða innflytjenda verði sérstaklega skoðuð í þeirri könnun sem unnin verður jafnhliða þjónustutryggingunni.

5. Blátt áfram – forvarnaverkefni.
Sigríður Björnsdóttir mætti á fundinn kl. 13.13 og gerði grein fyrir starfseminni.


Fundi slitið kl. 13.45

Marta Guðjónsdóttir

Andri Óttarsson Björn Gíslason
Maria Elvira Mendez Pinedo Felix Bergsson
Falasteen Abu Libdeh Jóhann Björnsson