Mannréttindaráð - Fundur nr. 40

Mannréttindaráð

Ár 2009, 7. janúar, var haldinn 40. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.20. Viðstödd voru, auk mannréttindastjóra, Marta Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Salvör Gissurardóttir, Felix Bergsson, Falasteen Abu Libdeh, Jóhann Björnsson, og Zakaria Elias Anbari og Ásdís Sigurðardóttir.
Fundarritari var Jóna Vigdís Kristinsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Alþjóðahús.
Tillaga mannréttindaráðs:
Mannréttindaráð leggur til að leitað verði nýrra leiða í þjónustu við innflytjendur í borginni. Í því tilliti verði skoðuð hagkvæmni þess að bjóða þjónustuna út. Mannréttindastjóra verði falið að fara í viðræður við Félags-og tryggingarmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga um það með hvaða hætti þjónustu við innflytjendur sé best háttað til frambúðar og skili tillögum til borgarráðs fyrir 1. apríl n.k. Því er lagt til að þjónustusamningur við Alþjóðahúsið ehf. verið endurnýjaður frá og með 1. janúar til 30. júní 2010. Til að sinna þeim verkefnum sem samningurinn mun kveða á um greiðir Reykjavíkurborg kr. 10.000.000,- með jöfnum greiðslum.
Tillagan samþykkt með 7 greiddum atkvæðum.
Bókun fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í mannréttindaráði lýsa óánægju sinni með þá töf sem orðið hefur í því að leysa úr málum Alþjóðahúss og þar með innflytjenda í borginni. Meirihlutinn við stjórn borgarinnar hefur tekið alltof langan tíma til að afgreiða málið og skila tillögum og af því leiðir að óvissa ríkir enn í málaflokknum, þrátt fyrir skýra afgreiðslu mannréttindaráðs fyrir þremur mánuðum.

2. Styrkir mannréttindaráðs 2010. Samþykkt að veita eftirtöldum aðilum styrk:
Bandalag kvenna í Reykjavík, Jafnréttishús, Q Félag hinsegin stúdenta, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtökin réttindi barna og Unifem á Íslandi.
Mannréttindastjóra falið að koma með tillögu að degi til afhendingar styrkja ráðsins.

3. Tillögur starfshóps vegna átaks gegn einelti. Lögð fram tillaga starfshópsins og hún samþykkt samhljóða.
Tillögunni vísað til meðferðar borgarráðs.

4. Erindi Siðmenntar dagsett 15.12.09. Lagt fram bréf Bjarna Jónssonar varaformanns Siðmenntar.
Bókun F lista:
Borgarstjórnarflokkur F-listans hafnar einstrengingslegum kröfum, sem fram koma í bréfi Siðmenntar til mannréttindaráðs Reykjavíkur. Í bréfinu eru sett fram sjónarmið sem þýða í raun að börn innan kristinna reykvískra fjölskyldna, geti ekki eins og áður tíðkaðist notið trúarbragðafræðslu og sótt kirkju á skólatíma, sé þess óskað. Það er einni bent á að þau börn sem ekki vilji taka þátt í þessu geti stundað nám sitt á bókasafni á meðan, og séu á engan hátt þvinguð til að taka þátt í fræðslu um eða iðkun kristinnar trúar. Nokkuð hefur gætt þess, að börn úr kristnum fjölskyldum fá ekki að taka þátt í ýmsum jólaundirbúningi eins og foreldrar þeirra hafa vanist og börnin haf átt kost á fram á síðustu ár. Þetta hefur valdið þessum fjölskyldum hugarangri, sem með réttu telja að þó að meirihluti eigi ekki að kúga minnihluta þá eigi minnihluti ekki að kúga meirihluta. Það síðarnefnda er líkleg afleiðing þess, f einstrengingsleg sjónarmið Siðmenntar og fulltrúa Samfylkingarinnar í mannaréttindaráði nái í gegn. Borgarstjórnarflokkur F–listans lýsir trausti sínu og eindregnum stuðningi við formann mannréttindaráðs, sem hefur í hvívetna sýnt ábyrgð og festu.
Bókun Vinstri Grænna og Samfylkingar:
Fulltrúar VG og Samfylkingar í Mannréttindaráði Reykjavíkur taka heilshugar undir umkvartanir Siðmenntar í bréfi dagsettu 15. desember 2009 og lýsa áhyggjum vegna ummæla formanns Mannréttindaráðs um „hefðbundið kirkjustarf í skólum.“ Mannréttindaákvæði eru í stjórnarskrám og í lögum til að tryggja rétt minnihlutans gegn ofríki meirihlutans. Það verður að verja grundvallarréttindi. Þetta er líka tilgangur Mannréttindastefnu borgarinnar, sem er mjög skýr. Einn af hornsteinum mannréttinda er trúfrelsið. Formaður Mannréttindaráðs virðist með bréfi sínu til skólastjórnenda, menntaráðs og leikskólaráðs taka að sér hlutverk talsmanns hins kúgandi meirihluta í þeirri viðleitni að brjóta á rétti þeirra sem vilja ekki að börnum sé boðuð trú eða lífskoðun í skólum. Á meðan við sem aðhyllumst fjölmenningarlegt samfélag erum að leitast við að samþætta alla hópa samfélagsins í eina heild þá er formaður Mannréttindaráðs að leggja áherslu á aðskilnað barna eftir trúar- og lífsskoðunum.
Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks:
Því er vísað alfarið á bug að formaður mannréttindaráðs hafi verið að taka sér hlutverk talsmanns hins kúgandi meirihluta. Tilgangur bréfsins var að ítreka að trúarskoðanir allra væru virtar og ekki væri verið að koma í veg fyrir það að þeir sem aðhyllast kristna trú fengju að fara í kirkjuferðir á aðventunni. Þá var bréfinu ætlað að ítreka það að trúarskoðanir allra væru virtar og þeir sem ekki eru kristinnar trúar stæðu önnur úrræði til boða á meðan. Þá vísar meirihluti mannréttindaráðs því á bug að verið sé að leggja áherslu á aðskilnað barna eftir trúar- og lífsskoðunum því samkvæmt mannréttindastefnunni ber að virða allar trúar- og lífsskoðanir og því ætti sama um þau börn að gilda að þau geti farið við athafnir í sínum trúarfélögum á skólatíma.

Fundi slitið kl. 14.29

Marta Guðjónsdóttir

Zakaria Elias Anbari Felix Bergsson
Salvör Gissurardóttir Björn Gíslson
Falasteen Abu Libdeh Jóhann Björnsson