Mannréttindaráð
Ár 2008, fimmtudaginn 3. apríl var haldinn 4. fundur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.20. Þá voru mætt: Marta Guðjónsdóttir, Andri Óttarsson, Ingibjörg Óðinsdóttir, Sigurjóna Sigurðardóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Falasteen Abu Libdeh og Jóhann Björnsson.
Auk þeirra Marsibil J. Sæmundardóttir áheyrnarfulltrúi. Jafnframt sat fundinn Þórhildur Líndal, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram til kynningar bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, dags. 27. mars 2008, um kosningu fulltrúa og nýs formanns mannréttindaráðs.
2. Lögð fram til kynningar skýrsla stýrihóps um málefni Reykjavík Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 17. mars 2008.
3. Lögð fram til afgreiðslu styrkumsókn frá Rauða krossi Íslands: Félagsvinakerfi- mentoraverkefni, sbr. bréf frá borgarráði dags. 8. febrúar 2008.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Edda Ólafsdóttir mættu á fundinn kl. 12.30.
Formaður mannréttindaráðs lagði fram svofellda tillögu:
Mannréttindaráð samþykkir að veita kr. 1.000.000 í styrk til verkefnisins: Félagsvinakerfi-mentoraverkefni með vísan til umsagnar, dags. 20. desember sl., til borgarráðs.
Samþykkt.
4. Lagður fram til kynningar þjónustusamningur Alþjóðahússins ehf. við Reykjavíkurborg, dags. í mars 2008.
Forstöðumaður Alþjóðahúss mætti á fundinn kl. 13.00
Bókun:
Mannréttindaráð ásamt áheyrnarfulltrúa fagnar nýgerðum samningi við Alþjóðahús og bindur miklar vonir við áframhaldandi gott samstarf á vegum hússins.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokksins óskuðu bókað:
Það er sorglegt að sjá að núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista ætlar sér á lúmskan hátt að gera úr engu það fjármagn sem mannréttindaráð átti að hafa til ráðstöfunar í verkefni og styrki. Það fjármagn miðaðist m.a. við nýlega samþykkta verkáætlun ráðsins. Nú eru eldri verkefni flutt undir hatt mannréttindaráðs eins og ráðgert var þegar fyrri meirihluti ákvað að auka fjármagn til ráðsins og stofna mannréttindaskrifstofu. Á sama tíma var gert ráð fyrir að fjármagn fylgdi þeim verkefnum frá þeim stöðum sem þau vistuðust áður í borgarkerfinu. Áætlað styrktar- og verkefnafjármagn mannréttindaráðs var ætlað til nýrra verkefna, styrkja og í framkvæmd verkáætlunarinnar. Það er auk þess algerlega ólíðandi að ráðstafað sé fjámunum úr styrktar- og verkefnapotti mannréttindaráðs án þess að sú ákvörðun sé borin undir ráðið til samþykktar. Borgarstjóri virðist hafa tekið þessa ákvörðun með sjálfum sér og vísað henni til samþykktar í borgarráði en ekki mannréttindaráði þrátt fyrir að það eigi að fjármagna 1/3 af þjónustusamningnum við Alþjóðahús eða kr. 10 milljónir. Þessi upphæð er jafnframt 1/3 hluti af áætluðu styrktar- og verkefnafé mannréttindaráðs. Mannréttindaskrifstofa fær tilkynningu um þessa ákvörðun að því er virðist í afriti, það hefur mannréttindaráð ekki einu sinni fengið. Þetta eru ekki merkileg né gagnsæ vinnubrögð af hálfu núverandi meirihluta.
Ingibjörg Óðinsdóttir vék af fundi kl. 13.45
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins F- listans óskuðu bókað:
Fulltrúar meirihlutans vísa því á bug að verið sé á lúmskan hátt að gera úr engu það fjármagn sem mannréttindaráð átti hafa til ráðstöfunar í verkefni og styrki . Nýgerður samningur af hálfu Reykjavíkurborgar við Alþjóðahús felur m.a. í sér einstök verkefni eins og m.a. sérhæfða ráðgjöf, aðstoð við nefndir og ráð Reykjavíkurborgar, aðstöðu til félags- og menningarstarfs fólks af erlendum uppruna og síðast en ekki síst ráðgjöf og aðstoð við textagerð og umsjón með þýðingu á 10 tungumál og aðstoð við útgáfu upplýsingabæklings um þjónustu Reykjavíkurborgar. Þá er það rangt sem fram kemur í bókun minnihlutans í mannréttindaráði að ráðið hafi ekki fengið að sjá samninginn við Alþjóðahús en hann var sérstaklega á dagskrá fundarins í dag og lagður fram með fundargögnum.
Andri Óttarsson vék af fundi 13.48
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og áheyrnafulltrúi Framsóknarflokksins óskuðu bókað:
Því er sem sagt ómótmælt að borgarstjóri hefur tekið fram fyrir hendur mannréttindaráðs og tekið ákvarðanir á sviði þess án eðlilegs samráðs við ráðið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-listans óskuðu bókað:
Því er mótmælt að borgarstjóri hafi tekið fram fyrir hendurnar á mannréttinda-ráði enda er það skilningur meirihluta mannréttindaráðs að mikill vilji hafi ávallt verið fyrir góðu samstarfi við Alþjóðahús og aukinni samvinnu við ýmis verkefni sem snúa að borginni.
5. Lagðar fram til kynningar tillögur samráðshóps um betri miðborg, dags. janúar 2008.
Mannréttindaráð óskaði bókað:
Í september 2007 var að beiðni þáverandi borgarstjóra, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, myndaður þverfaglegur samráðshópur sem átti að móta tillögur að betri miðborg. Markmiðið með starfshópnum var m.a. að bæta öryggi og umgengni í miðborginni. Mannréttindaráð fagnar metnaðarfullum tillögum starfshópsins sem skilaði niðurstöðum í janúar sl. og vonast til þess að þær verði til þess að bæta ástandið í miðbænum og hafist verði handa við að vinna eftir þeim nú þegar.
6. Breytingar á skipan starfshópa. Starfshópur um atvinnumöguleika fatlaðra:
Formaður mannréttindaráðs lagði fram svofellda tillögu:
Mannréttindaráð amþykkir að setja á stofn starfshóp um atvinnumöguleika fatlaðra einstaklinga hjá Reykjavíkurborg. Hópurinn verði skipaður fötluðu starfsfólki og/eða samstarfsfólki þess. Auk þess skipi hópinn mannréttinda-fulltrúar sviðanna, einn fulltrúi frá Öryrkjabandalaginu, einn frá Þroskahjálp, tveir fra meirihluta og einn frá minnihluta. Starfshópurinn skoði kosti og galla núverandi fyrirkomulags og komi með tillögur að úrbótum. Niðurstöðum verði skilað fyrir 1. september 2008.
Afgreiðslu frestað.
Starfshópur um jafnréttisskóla. Frestað
Starfshópur um bætt öryggi á og við skemmtistaði. Frestað.
Fundi slitið kl. 14.55
Marta Guðjónsdóttir
Sigurjóna Sigurðardóttir Stefán Jóhann Stefánsson
Falasteen Abu Libdeh Jóhann Björnsson