Mannréttindaráð - Fundur nr. 3

Mannréttindaráð

Ár 2008, fimmtudaginn 21. febrúar var haldinn 3. fundur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.10. Þá voru mætt: Sif Sigfúsdóttir, Andri Óttarsson, Þórdís Pétursdóttir, Sigurjóna Sigurðardóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, Falasteen Abu Libdeh og Drífa Snædal. Jafnframt sat fundinn Gunnar Eydal, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram umsókn stýrihóps verkefnisins Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum/Jafnréttisstofa, ódagsett.
Formaður mannréttindaráðs lagði fram svohljóðandi tillögu vegna styrkumsóknarinnar:
Mannréttindanefnd samþykkir að veita kr. 400.000 í styrk til verkefnisins: Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum/Jafnréttisstofa m.a. með vísan til gr. 3.3.2 í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.
Samþykkt.
Bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins vilja lýsa ánægju sinni með þá vinnu sem lögð hefur verið í verkefnið “Jafnrétti í leik- og grunnskóla”. Verkefnið má rekja til fjölsóttrar ráðstefnu “Kynlegur skóli” sem fjallaði um jafnréttisstarf í leik- og grunnskólum, sem haldin var í samvinnu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar, félagsmálaráðuneytisins og menntamála-ráðuneytisins árið 2006. Í kjölfarið var ákveðið að fara í frekara samstarf og var því verkefni með það að markmiði að auka jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum landsins sett í gang. Það er því fagnaðarefni að eftir mikla og metnaðarfulla vinnu samstarfshópsins liggi nú fyrir skýr verkefnalýsing og útfærsla á verkefninu. Það verður ákaflega fróðlegt fyrir mannréttindaráð að fá reglulega að fylgjast með verkefninu og hvernig tekst til að samþætta jafnréttisfræðslu í starfi skólanna meðal nemenda, kennara og annars starfsfólks.

2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. þ.m., um nefndir og ráð, nokkrar meginreglur um stjórnkerfið og nefndarfundi.

3. Brautargengi – samstarf við Reykjavíkurborg, kynning
Sif Sigfúsdóttir vék af fundi við meðferð málsins.
Fulltrúar Brautargengis, Bjarnheiður Jóhannesdóttir og Berglind Hallgrímsdóttir, mættu á fundinn og kynntu starfsemina.
Samþykkt að vísa til borgarráðs styrkumsókn vegna áranna 2006 og 2007. Mannréttindastjóra falið að taka upp viðræður við aðila um framhald málsins.

4. Miðstöð InnflytjendaRannsókna ReykjavíkurAkademíunni – MIRRA, kynning
Hallfríður Þórarinsdóttir mætti á fundinn og gerði grein fyrir starfseminni.

5. Lögð fram til kynningar þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar, 2009-2011.
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokksins óskuðu bókað:
Í kynningu á þriggja ára áætlun kemur fram að framlag til nýstofnaðrar mannréttindaskrifstofu verður óbreytt á næstu fjórum árum. Þær 85 milljónir sem áætlaðar voru í uppbyggingu mannauðs, rannsókna, fræðslu- og kynningarefni á fyrsta starfsári skrifstofunnar telst greinilega ásættanlegt að mati nýs meirihluta. Það er miður að dregið er úr þeirri metnaðarfullu vinnu sem hafin var enda var í áætlunum fyrrum meirihluta gert ráð fyrir að skrifstofan fengi svigrúm til að vaxa og dafna á næstu árum með auknum verkefnum. Hluti verkefna mannréttindaskrifstofu er að stuðla að kynjaðri fjárhagsáætlanagerð, að áhrif allra ákvarðana séu metin út frá þörfum og viðhorfum beggja kynja. Þetta er stórt, metnaðarfullt en jafnframt mjög mikilvægt verkefni og því brýnt að ráðnir séu sérfræðingar inn á mannréttindaskrifstofu sem allra fyrst og hún fái svigrúm til að eflast á næstu árum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista óskuðu óskuðu bókað:
Áætlað framlag til mannréttindaskrifstofu er fullnægjandi með tilliti til þeirra verkefna sem núna liggja fyrir. Jafnramt er rétt að benda á að gert er ráð fyrir að starfsmönnum verði fjölgð í 4 sem er mun meira en áður var.
Fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks spyrja hverju sæti sú stefnubreyting að draga úr fyrirhugðum fjárframlögum til mannréttindaskrifstofu. Samkvæmt þriggja ára áætlun, 2009-2011, aukist fjárframlög ekki ár frá ári eins og gert var ráð fyrir þegar skrifstofan var stofnuð. Með þessari breytingu séu vaxta- og þróunarmöguleikar mannréttindaskrifstofu skertir og þar með þjónusta á sviði mannréttindamála.

6. Fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska eftir upplýsingum um hvenær fyrirhugað sé að auglýsa eftir umsóknum um stöðu jafnréttisráðgjafa og annarra sérfræðinga á mannréttindaskrifstofu borgarinnar eins og fyrirhugað var að gera þegar skrifstofa jafnréttisráðgjafa breyttist í mannréttindaskrifstofu borgarinnar með tilheyrandi fjölgun málaflokka sem skrifstofan nú sinnir.

7. Fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins óska eftir upplýsingum um framvindu starfshóps um atvinnumöguleika fatlaðra sem settur var á laggirnar á fundi mannréttindanefndar þann 20.12.2007 og er ætlað að skila af sér 1. mars 2008.

8. Fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins óska eftir upplýsingum um framvindu mála í starfshópi um bætt öryggi á og við skemmtistaði borgarinnar sem samþykkt var að setja á laggirnar á fundi mannréttindanefndar þan 13. september 2007.

9. Fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins óska eftir upplýsingum um framvindu mála í starfshópi um stofnun Jafnréttisskóla sem samþykkt var að setja á laggirnar á fundi borgarstjórnar þann 19. júní 2007, sem vísað var til mannréttindanefndar. Mannréttindanefnd hefur þegar skipað í starfshópinn.

10. Fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins spyrja:
Ætlar núverandi meirihluti, sem hefur lagt sérstaka áherslu á öryggi borgaranna í málefnasamningi, að halda því til streitu að unnin verði aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi eins og boðað hafði verið í tíð fyrrum meirihluta sem F-listinn átti aðild að. Ef vinna við aðgerðaáætlun er ekki þegar hafin, hvenær má gera ráð fyrir að hún hefjist og með hvaða hætti verður unnið?

11. Fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins spyrja:
Hvernig sér þess stað að mannréttindaskrifstofan sé farin að gegna því hlutverki sínu að:
Bera ábyrgð á kynningu mannréttindastefnunnar og stuðla að þekkingaröflun og miðlun upplýsinga.
Vera í fyrirsvari af borgarinnar hálfu á sviði mannréttindamála og fylgjast með verkefnum fagsviða er tengjast mannréttindamálum.
Vera fagsviðum til samráðs og ráðgjafar um forgangsröðun verkefna á sviði mannréttindamála.
Veita umsagnir um tillögur að verkefnum á öðrum fagsviðum sem varða mannréttindi borgarbúa.
Hafa samvinnu við ríki, önnur sveitarfélög og félagasamtök um mannréttindamál.

12. Bókun:
Mannréttindaráð fagnar því að stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur nýverið sett sér jafnréttisstefnu með það að markmiði að tryggja jafna möguleika allra til knattspyrnuvikunnar á Íslandi. Sérstaklega ber að fagna aðgerðaráætlun til næstu tveggja ára sem fylgir stefnunni.

Fundi slitið kl. 14:50

Sif Sigfúsdóttir
Þórdís Pétursdóttir Andri Óttarsson
Sigurjóna Sigurðardóttir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
Falasteen Abu Libdeh Drífa Snædal