Mannréttindaráð
Ár 2009, 12. nóvember, var haldinn 36. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.15. Viðstödd voru, auk mannréttindastjóra, Marta Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Felix Bergsson, Falasteen Abu Libdeh, Jóhann Björnsson, Anna Margrét Ólafsdóttir, og Zakaria Elias Anbari. Fundarritari var Jóna Vigdís Kristinsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Könnun - Innflytjendur á Íslandi. Kristín Erla Harðardóttir kynnti niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Bókun mannréttindaráðs:
Mannréttindaráð þakkar Kristínu Harðardóttur fyrir fróðlega kynningu á Viðhorfskönnun meðal innflytjenda á Íslandi. Niðurstöðurnar varðandi m.a. búsetu, fjölskyldur, tungumálakunnáttur, þátttöku í félagsstarfi og nýtingu á þjónustu mun nýtast í mannréttindaráði í stefnumótun í þessum málaflokk. Mannréttindaráð mun láta vinna frekari upplýsingar upp úr skýrslunni sem snúa að Reykjavíkurborg.
2. Ályktun mannréttindaráðs:
Mannréttindaráð fagnar því að komið verði upp ungmennahúsi fyrir innflytjendur. Markmiðið með því verður að skapa vettvang fyrir þennan hóp til að hittast, styrkja sjálfsímynd þeirra og efla þau til frekari þátttöku í samfélaginu. Mannréttindaráð óskar nýstofnuðu félagi um Alþjóðlegt ungmennahús til hamingju með þetta framtak og óskar þeim velgengni í framtíðinni.
3. Lagðar fram siðareglur borgarfulltrúa sem samþykktar voru í borgarstjórn 20. október 2009 og þær undirritaðar að af öllum aðalmönnum sem sátu fundinn. R07060032
4. Ályktun mannréttindaráðs:
Í ljósi frétta undanfarið hvetur mannréttindaráð stjórn KSÍ að setja sambandinu siðareglur. Þeir aðilar sem starfa með börnum og ungmennum eiga að sýna gott fordæmi og vera góðar fyrirmyndir.
Jafnframt minnir mannréttindaráð á að þeir aðilar sem njóta styrkja til starfsemi sinnar frá Reykjavíkurborg eru bundnir því skilyrði að vinna gegn mismunun og að jafnrétti.
Þetta kemur skýrt fram í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.
5. Reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar sem samþykktar voru í borgarráði 29. október 2009 lagðar fram, ásamt bréfi frá skrifstofustjóra borgarstjórnar dagsett sama dag. R07060032
6. Úttekt á aðgengi að viðbragðsáætlunum við einelti. Frestað.
7. Átak gegn einelti - erindi frá borgarastjórn lagt fram. R09080073
8. Lögð fram fyrirspurn frá Jóhanni Björnssyni fulltrúa Vinstri grænna:
Á fundi ráðsins þann 24.09.2009 var mannréttindastjóra falið vegna erindis Siðmenntar, að senda drög af bréfi til ráðsins og í framhaldi af því að senda það til forsvarsmanna skóla og leikskóla sem og skólaráða grunnskóla. Spurning mín er þessi: Hver er staða þessa máls? Í ljósi þess að nú eru margir skólar borgarinnar að skipuleggja starfið í desember tel ég afar brýnt að lokið verði við umrætt bréf og það sent sem fyrst þannig að tryggt sé að tekið verði tillit til allra burtséð frá trúar og lífsskoðunum.
Svar mannréttindastjóra við ofangreindri fyrirspurn:
Á fundi mannréttindaráðs þann 24.09.2009 var tveim fulltrúum mannréttindaráðs falið að vinna bréfið ásamt mannréttindastjóra. Í framhaldi af því var bréfið sent til forsvarsmanna skóla, leikskóla og skólaráð þann 5. nóvember 2009.
Fundi slitið kl. 14:00
Marta Guðjónsdóttir
Zakaria Elias Anbari Anna Margrét Ólafsdóttir Björn Gíslason Felix Bergsson
Falasteen Abu Libdeh Jóhann Björnsson