Mannréttindaráð
JAFNRÉTTISNEFND
Ár 2005, hinn 20. október, hélt jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar 281. fund sinn. Var fundurinn haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00.
Viðstaddir voru: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, Guðný Hildur Magnúsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Bolli Thoroddsen og Helga Árnadóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Formaður greindi frá stöðu vinnu að gerð starfsáætlunar næsta árs.
Umræðum haldið áfram.
2. Formaður leggur fram eftirfarandi tillögu að ályktun ásamt viðbót milli 3. og 4. mgr.
“Nú förum við og gerum byltingu” voru lokaorð Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur í sögulegri ræðu sinni á kvennafrídaginn 24. október 1975. Þrátt fyrir grettistak í baráttu kvenna fyrir auknu jafnrétti á liðnum 30 árum hefur sú bylting sem Aðalheiður talaði fyrir ekki gengið að fullu eftir. Konur fá enn þann dag í dag greidd lægri laun fyrir sambærileg störf og karlar. Lýðræðislegt samfélag getur ekki sætt sig við slíkt ástand. Því telur Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar brýnt að konur sýni samstöðu og taki virkan þátt í kvennafrídeginum þann 24. október næstkomandi með því að leggja niður störf klukkan 14.08.
Með því að leggja niður störf gefst konum að nýju tækifæri til að mótmæla á táknrænan hátt þeirri staðreynd að atvinnulífið metur vinnuframlag þeirra ekki til jafns við framlag karlmanna. Atvinnuþátttaka kvenna hefur aldrei verið meiri en nú og erfitt er að sjá fyrir sér það samfélag sem við lifum í í dag án mikilvægs framlags kvenna á atvinnumarkaðnum.
Reykjavíkurborg hefur á síðustu árum verið í forystu í jafnréttismálum og náð betri árangri en almennt þekkist í launamálum kvenna. En betur má ef duga skal og jafnréttisnefnd borgarinnar bindur vonir við frekari landvinninga í komandi kjarasamningum sem taka til þorra starfsmanna borgarinnar.
Ennfremur hvetur jafnréttisnefndin karla eindregið til að auka þátttöku sína í heimilisstörfum og uppeldi barna sinna sem er mikilvægur þáttur í því að jafna stöðu kynjanna á öðrum sviðum þjóðfélagsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:
Við hvetjum konur til að sýna samstöðu og taka virkan þátt í kvennafrídeginum. Hvetjum jafnframt karla til að auka þátttöku sína í störfum heimilisins og barnauppeldi og stuðla þannig að því að jafna stöðu kynjanna á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Við getum þó ekki fallist á alhæfingar þær sem koma fram í ályktun meirihlutans og teljum slíkar fullyrðingar málstaðnum ekki til framdráttar.
Ályktunin er samþykkt með áorðinni viðbót, með þremur atkvæðum Reykjavíkurlista. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá.
3. Lögð fram dagskrá málþingsins Kynjaborgir 29. október n.k. til kynningar.
4. Jafnréttisráðgjafi leggur fram yfirlýsingu borgarstjóra varðandi 24. október n.k. til kynningar.
Fundi slitið kl. 13.20
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
Sigrún Jónsdóttir Guðný H. Magnúsdóttir
Bolli Thoroddsen Helga Árnadóttir