Mannréttindaráð - Fundur nr. 273

Mannréttindaráð

JAFNRÉTTISNEFND


Ár 2005, hinn 2. mars, hélt jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar 273. fund sinn. Var fundurinn haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00.
Viðstaddir voru: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, Guðný Hildur Magnúsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Bolli Thoroddsen og Tinna Traustadóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Ræddar voru hugmyndir að námskeiði fyrir konur vegna komandi sveitarstjórnakosninga.
Nefndarmenn tóku jákvætt í hugmyndina og tók formaður að sér að þróa hana áfram.

2. Jafnréttisnefnd samþykkti að kanna möguleika á að efna til nýsköpunarsjóðsverkefna á sviði jafnréttis / fjölmenningar.

3. Lögð fram eftirfarandi tillaga að ályktun:

Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar hvetur Alþingi Íslendinga til að taka til endurskoðunar kynferðisbrotakafla hegningarlaganna til að tryggja þau grundvallarmannréttindi að kynfrelsi einstaklinga sé virt. Í nýútkominni ritgerð Þorbjargar S. Gunnlaugsdóttur til kandidatsprófs í lögfræði er fjallað um nauðgun frá sjónarhóli kvennaréttar og varpað ljósi á þá staðreynd að ákvæði hegningarlaga um kynferðisbrot hvíla ekki á afdráttarlausri viðurkenningu á kynferðislegu sjálfsforræði sérhvers einstaklings, heldur skiptir máli hver fremur brotið og með hvaða aðferðum það er framið. Kynferðisbrot eru því flokkuð eftir ólíkum verknaðaraðferðum, en sú flokkun hefur oft afdrifarík áhrif á hvort kærur leiða til þess að rannsókn lögreglu sé til lykta leidd og hvort ákærur leiða til sakfellingar fyrir dómsstólum. Brotalamir réttarkerfisins gagnvart þolendum kynferðisbrota, sem í flestum tilfellum eru konur og börn, koma einna skýrast fram í því að aðeins í örfáum tilvikum tekst að ljúka málum með sakfellingu. Þetta er ólíðandi að mati jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar og sýnir að konur og börn njóta ekki nægilegrar réttarverndar í okkar samfélagi.

Lögð fram breytingartillaga um að í stað orðanna “konur og börn” í síðustu línu komi “þolendur kynferðisafbrota”
Ályktunin samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

4. Rætt um skýrslu starfsmatsnefndar um innleiðingu starfsmats.

5. Kynntar áætlanir um heimasíðu nefndarinnar.


Fundi slitið kl. 13.30

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Guðný Hildur Magnúsdóttir Tinna Traustadóttir
Sigrún Jónsdóttir Bolli Thoroddsen.