Mannréttindaráð - Fundur nr. 262

Mannréttindaráð

Jafnréttisnefnd

Ár 2004, hinn 26. apríl, hélt jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar 262. fund sinn. Var fundurinn haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru: Guðný H. Magnúsdóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Linda Rós Alfreðsdóttir, Margrét Einarsdóttir og Tinna Traustadóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Guðný H. Magnúsdóttir, starfandi formaður í fæðingarorlofi Marsibil Sæmundsdóttur, setti fundinn og leitaði samþykkis nefndarmanna fyrir því að taka fyrir tillögu sem lögð var fram á fundi nefndarinnar hinn 15. mars s.l. af fulltrúum Sjálfstæðisflokks, sem var svohljóðandi:

Ein af forsendum þess að fullt jafnrétti á milli kynjanna náist í Reykjavík er að hér séu sköpuð skilyrði til að hægt sé að samhæfa atvinnu og fjölskyldulíf. Reykjavíkurborg hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þessu sambandi. Þannig er nauðsynlegt að borgin stuðli að því að allir foreldrar sem þess óska geti fengið pláss fyrir börnin sín frá 9 mánaða aldri hjá dagforeldrum eða á leikskólum borgarinnar. Ekki er síður mikilvægt að í grunnskólum borgarinnar sé rekinn öflugur heilsdagsskóli þar sem börn hafi aðgang að bæði íþrótta- og tónlistarkennslu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að þessi mikilvægu mál verði sett á oddinn í starfi jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar. Um leið óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir upplýsingum um: a) í hvaða farvegi heilsdagsskólinn í Reykjavík er og hvort að aukin samvinna á milli heilsdagsskólanna og ÍTR og Tónlistarskóla Reykjavíkur sé í sjónmáli, b) hversu mörg börn séu á biðlista hjá Leikskólum Reykjavíkur og hversu auðvelt/erfitt er að fá pláss hjá dagforeldrum í Reykjavík. Fulltrúar Reykjavíkurlista samþykktu að vísa tillögunni frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn frávísun. Fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi bókun:

Til að hægt sé að ná raunverulegu jafnrétti kynjanna er nauðsynlegt að skapa skilyrði til þess að hægt sé að samhæfa atvinnu og fjölskyldulíf. Reykjavíkurborg hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þessu sambandi. Hið sama gildir um fyrirtæki, stofnanir og samtök á vinnumarkaði og ýmsa aðra aðila, m.a. sem tengjast tómstundastarfi. Þannig er nauðsynlegt að borgin stuðli að því að foreldrar sem þess óska geti fengið pláss fyrir börnin sín á leikskólum frá 18 mánaða aldri og ennfremur að stutt sé við starfsemi dagforeldra. Það er ljóst að mikið hefur áunnist í þessum málum hjá Reykjavíkurborg síðasta áratug. Ekki er síður mikilvægt að starfsemi grunnskóla borgarinnar hafi jafnrétti að leiðarljósi bæði fyrir starfsmenn, nemendur og þær fjölskyldur sem njóta þjónustu skólanna. Þá er það afar mikilvægt að á vinnustöðum í borginni, hvort sem þeir eru reknir af borg, einkaaðilum eða með öðru formi, sé unnið með jafnrétti að leiðarljósi, bæði á vinnustaðnum sjálfum og eins sé starfsmönnum gert kleift að samhæfa atvinnu og fjölskyldulíf. Þessi mál eru í góðum farvegi á fjölmörgun vinnustöðum á meðan aðrir eiga talsvert í land.

Jafnréttisnefnd minnir á, að þótt ýmislegt hafi áunnist í jafnréttisbaráttu síðustu áratugi, skortir enn talsvert á að fullu jafnrétti sé náð og hvetur alla vinnustaði í borginni til að huga alvarlega að þessum málum. Jafnframt hvetur jafnréttisnefnd til þess að leikskólastarfi, skólastarfi og framboði í tómstundastarfi sé ætíð hagað þannig að ekki sé hætta á að mismunun skapist, hvorki út frá kyni né efnahag foreldra. Bókunin var samþykkt samhljóða af öllum nefndarmönnum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar lýsa yfir miklum vonbrigðum með frávísun Reykjavíkurlistans á tillögu Sjálfstæðisflokks um heilsdagsskóla, þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja málefni heilsdagsskóla og samræmingu tómstundaiðkunar og náms í grunnskólum borgarinnar vera afar brýnt jafnréttismál. Fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Í bókun þeirri sem jafnréttisnefnd samþykkti samhljóða kemur fram hvatning um að starfsemi grunnskóla borgarinnar hafi jafnrétti að leiðarljósi í öllu starfi. Það felur einnig í sér starf heilsdagsskólans og/eða frístundaheimila.

2. Tekin fyrir tillaga um skýrsluna Minnihlutahópar, kynferði og jafnrétti, sem frestað var á fundi nefndarinnar hinn 15. mars s.l. Samþykkt að fella út orðið “öfluga” og var tillagan samþykkt svo breytt.

3. Lögð fram bréf borgarstjóra, dags. 2. febrúar 2004, um samhæft árangursmat og viðhorfskönnun Reykjavíkurborgar, og bréf Önnu Skúladóttur, dags. 26. mars 2004, um endurskoðun á stefnukortum málaflokka og sviða fyrir árið 2005.

4. Lagt fram minnisblað jafnréttisráðgjafa, dags. 26. apríl 2004, um námskeið um samþættingu á vegum ESB verkefnisins GECel.

5. Lagt fram minnisblað jafnréttisráðgjafa, dags. 26. apríl 2004, Drög að málþinginu Minnihlutahópar, kynferði og jafnrétti. Jafnréttisráðgjafa falið að undirbúa málþingið sem halda skal 15. maí n.k.

6. Fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi ályktunartillögu:

Jafnréttisnefnd Reykjavíkur óskar bókað vegna ummæla dóms- og kirkjumálaráðherra og forsætisráðherra um gildandi jafnréttislög, að þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í að ná fram jafnrétti karla og kvenna síðustu ár og áratugi þá er enn langt í land í þessum málum. Jafnréttisnefnd Reykjavíkur telur jafnréttislögin hafi mikilvægu hlutverki að gegna og telur nauðsynlegt að farið verði eftir þessum lögum á öllum sviðum samfélagsins. Jafnréttisnefnd harmar ummælin og álit ofannefndra ráðherra á jafnréttislögunum. Samþykkt með atkvæðum Reykjavíkurlista en fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

7. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir áhyggjum vegna þess mikla óútskýrða launamunar sem ríkir á millli karla og kvenna sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Í könnun sem Viðskiptaráðgjöf IBM gerði í október 2003 kom í ljós að óútskýrður munur á heildarlaunum karla og kvenna sem starfa hjá Reykjavíkurborg er 15% en 19% þegar undan eru skildir grunnskólakennarar. Til samanburðar er munurinn um 5%, en 9% þegar grunnskólakennarar eru undanskildir, í Kópavogsbæ, í Hafnarfirði er munurinn um 8% og 12% og í Mosfellsbæ 6% og 12%.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir skýringum hvernig geti staðið á þessum mikla launamun á milla karla og kvenna hjá Reykjavíkurborg. Einnig óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir upplýsingum um hvernig borgaryfirvöld hyggjast bregðast við þessari óviðunandi stöðu.

8. Jafnréttisáætlun Félagsþjónustunnar 2004 – 2006 lögð fram til kynningar.

Fundi slitið kl. 13.40

Guðný H. Magnúsdóttir
Margrét Einarsdóttir Stefán Jóhann Stefánsson
Linda Rós Alfreðsdóttir Tinna Traustadóttir