Mannréttindaráð - Fundur nr. 260

Mannréttindaráð

Jafnréttisnefnd

Ár 2004, hinn 15. mars, hélt jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar 260. fund sinn. Var fundurinn haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru: Marsibil Sæmundsdóttir, Guðný H. Magnúsdóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Margrét Einarsdóttir og Steinunn Vala Sigfúsdóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Samstarfsbeiðni frá VERU, dags. 19. nóvember 2003. Samþykkt að efna til samstarfs við VERU til eins árs í tilraunaskyni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

2. Styrkumsókn frá Félagi kvenna í atvinnurekstri að upphæð kr. 250.000 lögð fram að nýju. Umsókninni hafnað þar sem viðbótarupplýsingar sem óskað var eftir hafa ekki borist. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

3. Styrkumsókn frá karlahópi Feministafélags Íslands, dags. 23. febrúar 2004, vegna átaksins “Nauðgar vinur minn” lögð fram. Samþykkt að veita kr. 50.000 til hópsins.

4. Lagður fram ársreikningur hgj.is til kynningar. Jafnréttisráðgjafi kynnti einnig niðurstöður fundar með Hollvinum Hins gullna jafnvægis 1. mars sl.

5. Í tilefni skýrslunnar Minnihlutahópar, kynferði og jafnrétti, sem rædd hefur verið á síðustu tveim fundum nefndarinnar lagði formaður fram svohljóðandi tillögu:

Í kjölfar skýrslunnar Minnihlutahópar, jafnrétti og kynferði, hefur jafnréttisnefnd Reykjavíkur ákveðið að fara í markvissa skoðun á því með hvaða hætti nefndin geti komið að jafnréttismálum þeirra minnihlutahópa sem skýrslan nær til, þ.e. innflytjenda, samkynhneigðra og fatlaðra, án þess þó að það komi niður á öflugu starfi borgarinnar í jafnréttismálum kynjanna. Nefndin telur mikilvægt að niðurstaða verði fengin eins fljótt og auðið er.

Afgreiðslu frestað að ósk fulltrúa Sjálfstæðisflokks.

6. Margrét Einarsdóttir og Steinunn Vala Sigfúsdóttir lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Ein af forsendum þess að fullt jafnrétti á milli kynjanna náist í Reykjavík er að hér séu sköpuð skilyrði til að hægt sé að samhæfa atvinnu og fjölskyldulíf. Reykjavíkurborg hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þessu sambandi. Þannig er nauðsynlegt að borgin stuðli að því að allir foreldrar sem þess óska geti fengið pláss fyrir börnin sín frá 9 mánaða aldri hjá dagforeldrum eða á leikskólum borgarinnar. Ekki er síður mikilvægt að í grunnskólum borgarinnar sé rekinn öflugur heilsdagsskóli þar sem börn hafi aðgang að bæði íþrótta- og tónlistarkennslu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að þessi mikilvægu mál verði sett á oddinn í starfi jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar. Um leið óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir upplýsingum um: a) í hvaða farvegi heilsdagsskólinn í Reykjavík er og hvort að aukin samvinna á milli heilsdagsskólanna og ÍTR og Tónlistarskóla Reykjavíkur sé í sjónmáli, b) hversu mörg börn séu á biðlista hjá Leikskólum Reykjavíkur og hversu auðvelt/erfitt er að fá pláss hjá dagforeldrum í Reykjavík.

Afgreiðslu frestað að ósk fulltrúa Reykjavíkurlista.

Fundi slitið kl. 13.35

Marsibil Sæmundsdóttir

Guðný H. Magnúsdóttir Steinunn Vala Sigfúsdóttir
Margrét Einarsdóttir Stefán Jóhann Stefánsson