Mannréttindaráð
Jafnréttisnefnd
Ár 2003, hinn 8. desember, hélt jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar 257. fund sinn. Var fundurinn haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru: Marsibil Sæmundsdóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Drífa Snædal, Margrét Einarsdóttir og Tinna Traustadóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir vegna ársins 2004, dags. 4. desember 2003, ásamt umsóknunum:
a. frá Braga Skúlasyni að upphæð kr. 120.000, b. frá Veru um styrk/samstarfssamning, upphæð ótilgreind, c. frá Samtökunum ’78 vegna kynningarrits að upphæð kr. 300.000, d. frá Félagi kvenna í atvinnurekstri vegna kynningarherferðar að upphæð kr. 250.000, e. frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna vegna ráðstefnu- og ferðakostnaðar að upphæð kr. 320.000. f. frá Brautargegni v/námskeiða, ótilgreint. g. frá Félagi ábyrgra feðra vegna málþings að upphæð kr. 250.000. h. frá Arkibúllunni vegna hönnunarsýningar að upphæð kr. 800.000
Afgreiðslu frestað.
2. Lögð fram til kynningar þingsályktunartillaga um aðgerðir varðandi launamun kynja.
3. Lögð fram til kynningar umsögn jafnréttisráðgjafa um þingsályktunartillögu um launamun kynja.
4. Lögð fram til kynningar þingsályktunartillaga um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
5. Lagðar fram upplýsingar um niðurstöður viðhorfskönnunar meðal íbúa Reykjavíkurborgar hvað varðar þjónustuþáttinn jafnréttismál, en skorið var að meðaltali 3,9. Nefndin lýsir einróma ánægju með niðurstöðurnar.
6. Lögð fram viðhorfskönnun meðal starfsmanna Ráðhússins (október 2003) til upplýsingar. Nefndin óskar eftir frekari greiningu á kynbundnum mun sem fram kemur í niðurstöðum hennar.
7. Lagt fram til kynningar erindi Oddnýjar Ingimarsdóttur um fyrirhugað lokaverkefni í viðskiptafræði, en óskað hefur verið eftir samvinnu við Reykjavíkurborg um útvegun rannsóknargagna. Jafnréttisnefnd lýsir yfir áhuga sínum á að rannsóknin verði gerð, en viðfang hennar er að skoða launaþróun í hefðbundnum kvennastörfum hjá Reykjavíkurborg miðað við almenna vinnumarkaðinn.
8. Lagður fram samningur milli Bundeszentrale für politische Bildung um ESB-verkefnið GEcel, dags. 27. nóvember 2003, og Reykjavíkurborgar. Jafnréttisnefnd lýsir yfir ánægju með samninginn og felur jafnréttisráðgjafa að undirrita hann með fyrirvara um yfirlestur lögfræðinga.
9. Formaður lagði fram tillögu að eftirfarandi ályktun, sem samþykkt var einum rómi:
Í nýlegum rannsóknum Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur kemur fram að hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja skráðum í Kauphöll Íslands er aðeins um 5%. Jafnréttisnefnd þykir þessi staðreynd verulegt áhyggjuefni og skekkja miðað við upplýsandi jafnréttisbaráttu síðustu áratugi. Jafnréttisnefnd Reykjavíkur hvetur hluthafa þessara stærstu fyrirtækja landsins sem og annarra fyrirtækja til þess að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja, til þess að tryggja að reynsla og sjónarmið kvenna fari ekki forgörðum í þeirri mikilvægu vinnu sem þar á sér stað. Þar sem konur eru helmingur þjóðarinnar hljóta stjórnendur og eigendur fyrirtækja að telja hag sínum best borgið með því að sniðganga konur ekki. Jafnréttisnefnd vill í þeim efnum benda á gagnabankann Kvennaslóðir á netinu. Jafnréttisnefnd Reykjavíkur hvetur samtök í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í stjórnmálum til að taka þessi mál til umræðu af auknum þunga og þá sérstaklega þann þátt sem snýr að hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja, án þess þó að létta sjónum af því endanlega markmiði að hlutur kynja verði ætíð sem jafnastur í stjórnum, nefndum og ráðum.
10. Drífa Snædal reifaði vændisfrumvarpið svokallaða, sem nú liggur fyrir Alþingi. Umræðu frestað.
Fundi slitið kl. 14:00
Marsibil Sæmundsdóttir
Stefán Jóhann Stefánsson Drífa Snædal
Margrét Einarsdóttir Tinna Traustadóttir