Mannréttindaráð - Fundur nr. 247

Mannréttindaráð

Jafnréttisnefnd

Ár 2003, mánudaginn 14. apríl, hélt Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar 247. fund sinn. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.00. Viðstaddir voru: Marsibil Sæmundsdóttir, Guðný H. Magnúsdóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Margrét Einarsdóttir og Tinna Traustadóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 1. Formaður gerði grein fyrir jafnréttisþingi sem haldið var á Akureyri 7. apríl s.l., en þar var hún meðal ræðumanna og kynnti jafnréttisstefnu borgarinnar.

2. Jafnréttisráðgjafi kynnti niðurstöður vinnuhóps um mælikvarða vegna jafnréttisstefnu. Lagt fram vinnuplagg um skorkort vegna jafnréttisstefnu. Fundarmenn lýstu samhljóða yfir ánægju með vinnu hópsins.

3. Jafnréttisráðgjafi sagði frá vinnustofu innan Evrópuverkefnisins um samþættingu, sem haldin var á Möltu 4.-18. apríl s.l.

4. Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar vilja vekja athygli á þeirri umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu um nýja tegund kynlífsþjónustu í tengslum við erotískar nuddstofur og tekur heilshugar undir ýmis varnaðarorð sem fallið hafa um þetta nýja fyrirbæri. Jafnframt fagnar jafnréttisnefnd viðbrögðum opinberra aðila sem vilja rannsaka þessi mál og hefur nefndin ákveðið að beita sér fyrir úttekt á þessari nýju birtingarmynd klámiðnaðar hér á landi, en allur slíkur iðnaður stríðir mjög gegn jafnrétti kynjanna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:

Undanfarið hefur ákveðinnar gerðar af nuddstofum orðið vart hér í Reykjavík. Grunsemdir hafa vaknað um að á þessum nuddstofum sé í raun verið að bjóða upp á kynlífsþjónustu og jafnvel vændi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar fagna því að Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra, hefur beint því til lögreglunnar í Reykjavík að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Vændi er ólöglegt á Íslandi og ef grunsemdir um slíkt vakna ber að bregðast við því af hörku.

5. Jafnréttisráðgjafi greindi frá opnun vefsins hgj.is sem fram fór 1. apríl s.l.

6. Lagt fram til kynningar álit kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 9/2002 gegn Reykjavíkurborg vegna Foldaskóla, en kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að borgin hafi ekki brotið gegn kæranda.

Fundi slitið kl. 14.00

Marsibil Sæmundsdóttir

Guðný H. Magnúsdóttir Stefán Jóhann Stefánsson
Margrét Einarsdóttir Tinna Traustadóttir