Mannréttindaráð - Fundur nr. 241

Mannréttindaráð

Jafnréttisnefnd

Ár 2002, föstudaginn 6. desember, hélt Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar 241. fund sinn. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.00. Viðstaddir voru: Marsibil Sæmundsdóttir, Guðný H. Magnúsdóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Tinna Traustadóttir og Áslaug Auður Guðmundsdóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram kjörbréf Drífu Snædal, nýs varamanns í jafnréttisnefnd, dags. 19. desember 2002.

2. Lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 6. janúar 2003, varðandi grein 2.2.2. og 2.2.3. í drögum að jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar.

3. Lögð fram breytingartillaga við grein 2.2.2. í drögum að jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar. Greinin orðist svo: “Í öllum auglýsingum á vegum stofnana og fyrirtækja Reykjavíkurborgar skal gæta jafnræðis og jafnrar virðingar kynjanna, sbr. 18. gr. jafnréttislaga. Atvinnuauglýsingar skulu að jafnaði vera kynhlutlausar, en sé um að ræða störf, þar sem hallar á annað kynið, skal, þar sem það á við, vekja athyglu á því markmiði jafnréttisstefnunnar að jafna kynjaskiptingu innan starfsgreinar”.

Samþykkt samhljóða. Grein 2.2.3. í drögum að jafnréttisstefnu samþykkt með 3 atkv. Fulltrúar Sjáfstæðisflokks sátu hjá.

Marsibil Sæmundsdóttir lagði fram svohljóðandi breytingatillögu varðandi grein 1.1.:

Jafn réttur kvenna og karla er varinn í stjórnarskrá Íslands sem og fjölmörgum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirritað og er fullgildur aðili að. Þessi réttindi liggja jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar til grundvallar. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, uppruna, litarháttar, efnahags, ætternis, fötlunar, sjúkdóma eða annarrar stöðu. Þetta er grundvallaratriði í samfélagi sem aðhyllist hugsjónir lýðræðis, manngildis og mannréttinda.

Samþykkt samhljóða með öllum greiddum atkvæðum.

Drög að jafnréttisstefnu, með áður samþykktum breytingum, samþykkt samhljóða með öllum greiddum atkvæðum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:

Vegna afgreiðslu jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar vilja sjálfstæðismenn í jafnréttisnefnd gera athugasemd við þann lið er varðar auglýsingar og ráðningar í störf á vegum borgarinnar. Að okkar mati skal ávallt ráða hæfasta umsækjandann til starfsins, burtséð frá kynferði, og sérstök hvatning til annars kynsins um að sækja um starfið því óþörf að jafnaði. Einnig er hæpið að umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein sé látinn ganga fyrir við ráðningu. Þá er alveg skýrt að okkar mati að tilgangur jafnréttisstefnunnar sé að vinna að jöfnum rétti karla og kvenna og þess vegna ekki nauðsynlegt að taka sérstaklega fram að stefnan skuli ná til minnihlutahópa karla og kvenna. Það er ruglingslegt og mætti skilja sem svo að útvíkka bæri hlutverk jafnréttisnefndarinnar, en um það hefur ekki verið tekin ákvörðun. Hugmyndafræði samþættingar er ný af nálinni og þess vegna mikilvægt að fylgjast með þróun hennar og gæta þess í allri framkvæmd að hafa fast land undir fótum. Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi bókun:

Bókun sjálfstæðismanna gæti valdið þeim misskilningi að ekki eigi að ráða hæfasta umsækjanda hverju sinni. Þvert á móti er gert ráð fyrir að hæfni ákvarði hverjir eru ráðnir. Í grein jafnréttisstefnunnar um ráðningar er verið að fjalla um hvað gera beri þegar tveir eða fleiri umsækjendur eru jafnhæfir, en þá ber m.a. að taka tillit til jafnréttissjónarmiða. Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi bókun:

Jafnréttisnefnd Reykjavíkur hefur ákveðið að skoða á kjörtímabilinu útvíkkun á jafnréttisstefnunni, þannig að hún nái í ríkari mæli til annarra þátta en kynbundinna, svo sem til þátta er tengjast uppruna, trúarbragða og fötlunar. Þetta verði gert með því að efna til umræðna, skýrslugerðar og úttektar á því hvað útvíkkun á stefnunni fæli í sér í formi skipulags, mannahalds, kostnaðar og líkindum á árangri í samanburði við það form sem nú er viðhaft.

4. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir og veitingar síðustu 5 ára. Samþykkt að verja kr. 400.000 í heildarupphæð styrkja.

Fundi slitið kl. 13.30

Marsibil Sæmundsdóttir

Stefán Jóhann Stefánsson Áslaug A. Guðmundsdóttir
Guðný H. Magnúsdóttir Tinna Traustadóttir