Mannréttindaráð - Fundur nr. 236

Mannréttindaráð

Jafnréttisnefnd

Ár 2002, mánudaginn 7. október, hélt Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar 236. fund sinn. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.12.00. Viðstaddir voru: Marsibil Sæmundsdóttir, Guðný H. Magnúsdóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Tinna Traustadóttir og Áslaug Guðmundsdóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Jafnréttisráðgjafi kynnti fjárhagsramma jafnréttismála vegna ársins 2003. Honum falið að leggja fram frumvarp að starfs- og fjárhagsáætlun 2003 fyrir næsta fund.

2. Lögð fram styrkumsókn, dags. 9. sepember 2002, frá Samtökunum ´78, að upphæð kr. 150.000, vegna heimildarmyndar. Samþykkt með 3 atkvæðum að veita kr. 100.000 til myndarinnar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Tinna Traustadóttir og Áslaug Guðmundsdóttir, sátu hjá og lögðu fram eftirfarandi bókun:

Í samþykkt fyrir jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar og jafnréttisáætlun Reykjavíkurborgar kemur fram að hlutverk nefndarinnar sé að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Sjálfstæðismenn í jafnréttisnefnd telja að ekki hafi verið nægilega skýrt ákvarðað hvort málefni samkynhneigðra heyri undir nefndina. Með tilliti til áframhaldandi starfs nefndarinnar og styrkveitinga, teljum við nauðsynlegt að skýra enn frekar hlutverk og starfssvið nefndarinnar. Samtökin ´78 eiga hrós skilið fyrir þetta góða framtak, “Hrein og bein”, en við teljum að þessi styrkveiting sé á gráu svæði.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans, Marsibil Sæmundsdóttir, Guðný H. Magnúsdóttir og Stefán Jóhann Stefánsson, lögðu fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Reykjavíkurlistans telja sjálfsagt og eðlilegt að styrkja gerð kvikmyndar um líf og reynslu ungs samkynhneigðs fólks. Við minnum á að í drögum að jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var sem tillaga jafnréttisnefndar 24. mars 2002, er markað ákveðið skref sem við teljum rétt að fylgja, en þar segir: “Sérstaklega skal að því gætt að jafnréttisstefnan nái til minnihlutahópa kvenna og karla”. Umræða um kynhlutverk og kynhneigð er samofin. Við minnum á að ætlunin er að nýta kvikmyndina sem kennsluefni. Í því efni minnum við á að í jafnréttisáætlun Reykjavíkurborgar frá 1996 stendur m.a. að jafna eigi stöðu kynjanna og veita börnum og unglingum hvatningu til að rækta sérkenni sín og jákvæð samskipti kynjanna. Ennfremur segir að sjálfsstyrking eigi að verða sjálfsagður hluti námsefnis á öllum skólastigum. Við teljum að með því að styrkja gerð umræddrar kvikmyndar getum við unnið að þessum markmiðum.

3. Jafnréttisráðgjafi lagði fram hugmynd frá Lindu Rut Benediktsdóttur, dags. 24. september 2002, um framhald og þróun vefs Hins gullna jafnvægis. Jafnréttisráðgjafi kynnti möguleika á fjármögnun og samstarfi við aðra aðila. Honum falið að kanna grundvöll að því að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd.

4. Jafnréttisráðgjafi greindi frá fundi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar 3. október s.l., þar sem leggja skyldi drög að nýju norrænu verkefni um launajafnrétti kvenna og karla, en jafnréttisráðgjafa var boðið að sitja fundinn. Kynnti hann þar hugmynd að framlagi Reykjavíkurborgar til hugmyndar að slíku verkefni, sbr. vinnuskjal, dags. 3. október 2002.

5. Kynnt auglýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga eftir þróunarverkefnum á sviði fjölskyldu- og jafnréttismála frá 3. október s.l., sem birtist á heimasíðu sambandsins.

6. Fyrirhugaður landsfundur jafnréttisnefnda, sem haldinn verður dagana 8.-9. nóvember n.k. í Hafnarfirði, var kynntur nefndinni. Samþykkt að allir fulltrúar í jafnréttisnefnd eigi kost á að sækja fundinn.

7. Kynnt fyrirhuguð námskeið Jafnréttisstofu, sem haldin verða síðar í þessum mánuði, annars vegar námskeiðið Jafnt er betra og hins vegar Jafnt er meira. Samþykkt að 2 fulltrúar nefndarinnar sæki námskeiðið Jafnt er betra ásamt jafnréttisráðgjafa.

8. Lögð fram tillaga að ályktun jafnréttisnefndar sem er svohljóðandi:

Jafnréttisnefnd Reykjavíkur vill fagna sameiginlegu átaki Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna gegn verslun með konur. Ísland er þátttakandi í þessu átaki sem er afar mikilvægt þar sem þessi glæpastarfsemi þrífst á þjáningu fólks og fer stigvaxandi um allan heim. Ágóðinn af þessum iðnaði er talinn meiri en af ólöglegri fíkniefna- eða vopnasölu heimsins.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að nektarstaðir eru víðast taldir tengjast þessum iðnaði sem veltir stórfé árlega og tengist margs konar ólöglegri starfsemi eins og mansali og kynlífsþrælkun.

Við hvetjum fólk til að hafa í huga að oft er ekki allt sem sýnist. Oft á tíðum eru þeir sem hafa atvinnu að því að sýna nekt sína að gera það vegna bágra félagslegra aðstæðna. Þessar sömu aðstæður geta einnig leitt fólk út í vændi. Mikilvægt er að vinna gegn þeim aðstæðum sem neyða fólk út í slíkt og að aðstoða fólk sem komið er í slíkar aðstæður með því að bjóða upp á sérhæfða samfélagshjálp.

Það er auk þess sérstaklega mikilvægt að vernda fólk undir lögaldri gegn óæskilegum áhrifum kláms og neikvæðum kynímyndum. Jafnréttisnefnd Reykjavíkur vill því sérstaklega hvetja frjáls félagasamtök sem og aðra, sem hafa ungt fólk innan sinna vébanda og njóta opinberra styrkja til að sinna uppeldisstörfum, til að sýna gott fordæmi og hafa í huga þau neikvæðu áhrif sem nektardanssýningar á skemmtunum á þeirra vegum geta haft.

Samþykkt samhljóða.

9. Drög að jafnréttisstefnu rædd. Afgreiðslu frestað.

Fundi slitið kl. 14.05

Marsibil Sæmundsdóttir

Guðný H. Magnúsdóttir Áslaug Guðmundsdóttir
Stefán Jóhann Stefánsson Tinna Traustadóttir