Mannréttindaráð - Fundur nr. 23

Mannréttindaráð - Fundur nr. 23

Mannréttindaráð

Ár 2026, fimmtudaginn 8. janúar var haldinn 23. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var aukafundur og haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.04. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Sabine Leskopf, Ellen J. Calmon, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Þorvaldur Daníelsson, Björn Gíslason og Friðjón R. Friðjónsson. Einnig sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar öldungaráðs: Sigurður Á. Sigurðsson, Viðar Eggertsson, Jóhann Birgisson og Eva Kristín Hreinsdóttir. Einnig sat fundinn eftirfarandi starfsfólk: Þórhildur Guðrún Egilsdóttir og Valgerður Jónsdóttir. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 18. desember 2025, um samþykkt borgarstjórnar frá 16. desember sl., um að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti í mannréttindaráði í stað Oktavíu Hrundar Guðrúnar Jóns. Jafnframt tekur Oktavía sæti sem varafulltrúi í stað Tinnu Helgadóttur. MSS25020083

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynningin Hagir og líðan eldra fólks á Íslandi árið 2024, niðurstöður fyrir Reykjavík. MSS25100074  

    Helgi Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Samtaka aldraðra, U3A Reykjavík og heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakkar fyrir afar fróðlega kynningu á rannsókn á högum og líðan eldra fólks. Þarna kemur margt fram sem er afar ánægjulegt, langflestir eldri borgarar eru ánægðir með heimaþjónustu. Þá er margt í skýrslunni sem gefur jákvæða mynd af lífi eldri borgara, flestir segjast vera við góða andlegan líðan og fáir segja sig búa við félagslega einangrun. Þá eru tölur um ofbeldi lágar og langflestir nýta sér tölvur og tækni. Það er hins vegar afar mikilvægt að halda áfram að vakta þessa þætti sérstaklega, þar sem vitundarvakning t.d. varðandi ofbeldi í garð eldra fólks getur haft áhrif á fjölda tilkynninga. Við næstu skoðun er brýnt að huga að breyttri samsetningu samfélagsins þar sem gera þarf ráð fyrir að fjöldi eldri borgara af erlendum uppruna mun aukast en þekking stjórnvalda á þeirra högum er mjög takmörkuð. Ráðið vill hvetja ríkið til að horfa til eflingar þjónustu Heilsugæslunnar við eldri borgara þar sem niðurstöðurnar sýna að þeirri þjónustu hefur farið verulega aftur.

    Fulltrúar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, U3A Reykjavík, Samtaka aldraðra, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að svo ítarleg og vel unnin skýrsla hafi verið unnin um hag og líðan eldra fólks í Reykjavík 2024. Það er afar mikilvægt að rýnt sé vel í skýrsluna og hún notuð til stefnumótunar, svo að hún nýtist sem best til að efla og styrkja þjónustu við eldra fólk í Reykjavík, einkum hvar veikleikar eru í þjónustunni. Þar þarf einkum að taka mið af sívaxandi hópi eldri íbúa Reykjavíkur, sem er sístækkandi hópur með misjafnar og fjölþættar þarfir. Aldurssamsetning eldra fólks breytist ört og þarfir þeirra jafnframt. Það er sá hluti skýrslunnar sem kallar á vönduð og örugg viðbrögð af hendi Reykjavíkurborgar. Þar liggja áskoranir sem mikilvægt er að taka á.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu dags. 5. janúar 2026, um minnisblað um málþing um öryggi hinsegin fólks. Jafnframt er óskað eftir að mannréttindaráð samþykki að fela mannréttindaskrifstofu að útfæra þær aðgerðir sem þar eru lagðar til af Nordic Safe Cities. MSS25020136
    Samþykkt.  

    Guðný Bára Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram fundadagatal mannréttindaráðs vor 2026. MSS25030087

    Fylgigögn

  5. Fulltrúi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er svara varðandi afslætti á fasteignasköttum/gjöldum til handa tekjulitlum ellilífeyrisþegum annars vegar og örorkulífeyrisþegum hins vegar. Tilefnið er mikill mismunur er á milli sveitarfélaga hvað varðar afsláttarprósentu og tekjumörk þeim tengdum á fasteignasköttum/gjöldum sem hvert og eitt sveitarfélag setur hverju sinni og hallar þar mjög á Reykvíkinga. Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) óskar svara við eftirfarandi spurningum:
    1.Hver er sá fjöldi eldra fólks sem fær 100% afslætti ?
    2. Hver er heildar afsláttarupphæðin í krónum talið m.v. 100% ?
    3. Hver er sá fjöldi eldra fólks sem fær 80% afslætti ?
    4. Hver er heildar afsláttarupphæðin í krónum talið m.v. 80% ?
    5. Hver er sá fjöldi eldra fólks sem fær 50% afslætti ?
    6. Hver er heildar afsláttarupphæðin í krónum talið m.v. 50% ?

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS26010065

    -    Kl.14.35 víkja eftirtaldir fulltrúar öldungaráðs af fundinum: Sigurður Á. Sigurðsson, Viðar Eggertsson, Jóhann Birgisson og Eva Kristín Hreinsdóttir. Eftirtalinn starfsmaður víkur af fundinum: Þórhildur Guðrún Egilsdóttir.

  6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um tilmæli vegna barnaafmæla, sbr. 5. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 6. nóvember 2025. Jafnframt er lögð fram umsögn mannréttindaskrifstofu dags. 18. nóvember sl. um tillöguna.  MSS25100112 
    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands, gegn þremur atkvæðum fulltrúa Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

    Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í umsögn vegna tillögunnar voru þessi tilmæli sett fram vegna óska starfsfólks eftir slíkum leiðbeiningum og/eða vegna óska foreldra barna í þeirra skóla um leiðbeiningar um útfærslur á afmælishópum sem fela ekki í sér kynjaskiptingu. Að sama leyti var þetta gert til að uppfylla eða styðja skóla í því að uppfylla grein 2.3.3 í Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, 15. grein Jafnréttislaga og markmið Aðalnámskrár um jafnréttismenntun barna í grunnskólum. Slík skjöl eru reglulega endurskoðuð og uppfærð ef þörf þykir, tillögunni er þess vegna vísað frá.Tillagan er hins vegar að mörgu leyti jákvæð og eðlilegt að við næstu endurskoðun á tilmælunum verði hugað að því að þau verði almennari og taki inn fleiri breytur út frá þeirri forsendu að ekkert barn á að upplifa að vera skilið útundan.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn telur afstöðu meirihlutans fela í sér of mikil afskipti af heimilunum í borginni. Núverandi leiðbeiningar einblína einungis afmælisboð út frá kyni barna. Þá kemur fram að ,,skólinn/kennari velji leiðina sem er farin og kynni hana.” Í stað þess að borgin setji fram leiðbeiningar um hverjum börn megi bjóða í barnaafmæli ættu leiðbeiningar borgarinnar að vera almenns eðlis og miða að því að hvetja foreldra, kennara og börn til að ræða þessi mál saman. Eðlilegt er að kennarar ræði afmælisboð við foreldra umsjónarnemenda sinna á fyrsta foreldrafundi hvers skólaárs, eins og gert er í mörgum í skólum borgarinnar og fari yfir mikilvægi þess að ekkert barn upplifi sig skilið útundan. Í þeim samtölum er einnig mikilvægt að ræða breytur sem geta haft áhrif, svo sem kyn, kynhneigð, fötlun, fjárhagslega stöðu foreldra og uppruna. Þótt öll samtöl um barnaafmæli séu af hinu góða eru þau alltaf að endingu á ábyrgð og ákvörðun þeirra fjölskyldna sem þau halda.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu dags. 22. desember 2025, um tillögu mannréttindastjóra um að leggja niður Samráðsvettvang Reykjavíkurborgar og trú- og lífskoðunarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt að að samstarfi borgarinnar við félögin verði haldið áfram á vettvangi Samráðsvettvangs trú- og lífskoðunarfélaga á Íslandi, STLÍ. MSS22020141
    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um kynningu á félagslegri sjálfbærni og mannréttindastefnu í innkaupum Reykjavíkurborgar, sbr.4. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 11. desember 2025. MSS25120058
    Samþykkt.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15:04

Sabine Leskopf Ellen Jacqueline Calmon

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Magnús Davíð Norðdahl

Þorvaldur Daníelsson Björn Gíslason

Friðjón R. Friðjónsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttindaráðs frá 8. janúar 2026