Mannréttindaráð
Jafnréttisnefnd
Ár 2001, fimmtudaginn 16. ágúst, var haldinn 221. fundur Jafnréttisnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru: Kristín Blöndal, Hrannar B. Arnarsson, Anna Kristinsdóttir, Kjartan Magnússon og Svanhildur H. Valsdóttir. Jafnframt sat fundinn Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Formaður gerði grein fyrir ráðstefnunni Konur og lýðræði í Vilníus í júní s.l.
Kjartan Magnússon og Svanhildur Hólm Valsdóttir óskuðu bókað:
Fulltrúar sjálfstæðismanna í jafnréttisnefnd átelja þau vinnubrögð sem meirihluti nefndarinnar viðhafði vegna ráðstefnunnar Konur og lýðræði í Vilníus í júní. Á 219. fundi jafnréttisnefndar í maí var jafnréttisráðgjafa falið að kanna áhuga á þátttöku í ráðstefnunni. Formaður jafnréttisnefndar sótti ráðstefnuna en minnihluta nefndarinnar var ekki boðið að senda fulltrúa. Eftir því sem næst verður komist er það viðurkennd regla í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar að fulltrúar meirihluta og minnihluta í borgarstjórn hafi jafnan rétt að upplýsingum. Í þeim tilvikum þegar Reykjavíkurborg greiðir ferðakostnað kjörinna fulltrúa vegna ráðstefnu erlendis, hefur sú meginregla gilt að fulltrúar komi úr röðum meirihluta og minnihluta. Þar sem þetta er ekki í fyrsta sinn sem borgarfulltrúar R-listans sækja ráðstefnur erlendis, sem vafalaust eru upplýsandi og koma að gagni við stefnumótun, án þess að gefa fulltrúum minnihluta kost á að senda einnig fulltrúa, verður ekki hjá komist hjá því að gera athugasemdir og benda á að nefndin er ekki prívat-ferðaklúbbur formannsins.
Kristín Blöndal, Hrannar B. Arnarsson og Anna Kristinsdóttir óskuðu bókað:
Það er misskilningur hjá fulltrúum D-listans að jafnréttisnefnd hafi sent fulltrúa á umrædda ráðstefnu. Slíku var ekki að heilsa og fór formaður nefndarinnar sem fulltrúi borgarinnar í stað borgarstjóra. Kom það greinilega fram á 220. fundi nefndarinnar. Dylgjum um mismunun og að nefndin sé notuð sem ferðaklúbbur formannsins er því vísað til föðurhúsanna.
Kjartan Magnússon óskaði bókað:
Ljóst er að Kristín Blöndal, formaður jafnréttisnefndar og varaborgarfulltrúi, sótti umrædda ráðstefnu sem pólitískur fulltrúi en ekki sem embættislegur staðgengill borgarstjóra, enda ekki embættismaður.
2. Lagt fram erindi frá nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum vegna komandi sveitarstjórnarkosninga. Jafnréttisráðgjafa falið að framkvæma erindið og koma því áfram til réttra aðila.
3. Jafnréttisráðgjafi lagði fram minnisblað, dags. 17.5.2001, þar sem lýst er hugmynd að starfsþróunarverkefni erlendra kvenna í starfi hjá Reykjavíkurborg. Nefndin lýsti stuðningi við hugmyndina og hvatti til samstarfs við Alþjóðahúsið um hana.
4. Lagt fram boð á ráðstefnuna De urokkelige voldsmenn í lok ágústmánaðar. Samþykkt að einn fulltrúi frá meirihluta og einn fulltrúi minnihluta eigi kost á að mæta.
- Svanhildur H. Valsdóttir vék af fundi kl. 13.15.
5. Lagt fram boð á ráðstefnuna Women work and health í júní 2001 í Stokkhólmi. Jafnréttisráðgjafa falið að kanna fordæmi fyrir ráðstefnusetu á þeim tíma sem líður frá kosningum og þar til nýjar nefndir hafa verið skipaðar.
6. Lagt fram erindi, dags. 19.6.2001, frá Ingu Dóru Sigfúsdóttur um rannsókn á kynjamun meðal íslenskra unglinga. Samþykkt að veita 150.000 kr. styrk til rannsóknarinnar.
7. Lögð fram umsókn um styrk til gerðar könnunar á árangri Brautargengis, dags. 17.5.2001, frá Impru/Iðntæknistofnun. Samþykkt að veita kr. 100.000 til verksins.
8. Lögð fram beiðni um kaup á ritgerð til BA prófs við HÍ um lyktir kynferðisafbrotamála fyrir kr. 15.000. Samþykkt.
9. Jafnréttisráðgjafi kynnti samstarfsbeiðni frá Astunias héraði á Spáni um ESB verkefnið: ECO: European Network of agents for promating equal opportunities between women and men, en ekki er gert ráð fyrir fjárframlagi til verkefnisins af hálfu jafnréttisnefndar. Samþykkt.
Fundi slitið kl. 13.40
Kristin Blöndal
Hrannar B. Arnarsson Anna Kristinsdóttir
Kjartan Magnússon